Mannlíf

BPart! – Alþjóðlegur listviðburður í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 9. febrúar 2023 kl. 08:47

BPart! – Alþjóðlegur listviðburður í Reykjanesbæ

Listaverk á laugardaginn | meðal annars með þátttöku fólks á flótta

Ísland tekur um þessar mundir, þátt í BPart! sem er tveggja ára alþjóðlegt listaverkefni sem á uppruna sinn í Tékklandi en er unnið í samstarfi við okkur Íslendinga. Verkefnið nýtir sköpun til að stuðla að inngildingu og auka sýnileika á fjölbreytileika samfélagsins í gegnum dans og leik. Samhliða er unnið að gerð heimildarmyndar og rannsóknar um verkefnið sem lýkur með ráðstefnu síðar á árinu þar sem niðurstöður verða kynntar.

Verkefnið fer fram á þremur stöðum, í Brno og Prag í Tékklandi og á Íslandi. Í Brno var lögð áhersla á Rómafólk, í Prag verður lögð áhersla á geðheilsu og hér á Íslandi er sjónum beint að fólki á flótta. Vinnustofur hófust í Reykjanesbæ, Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði fyrir skemmstu og eru þær leiddar af ítalska danshópnum Zerogrammi, í samstarfi við íslenskt og tékknest listafólk.

Í vinnustofunum eru tengdir saman ólíkir hópar fólks sem vinna í gegnum leik og dans að sameiginlegri lokasýningu - sem fer fram hér í Reykjanesbæ á laugardag kl. 15, í óhefðbundnu rými gamals rútuverkstæðis SBK í Grófinni 2. Svo verður sýnt í Reykjavík daginn eftir, sunnudaginn 12. febrúar. Sýningin heitir Elegìa delle cose perdute (Elegy of Lost Things) og er innblásin af skáldsögunni Os Pobres eftir portúgalska rithöfundinn og sagnfræðinginn Raul Brandao og endurspeglar þrár og minningar, rætur og uppruna. Verkið fjallar um siðferðilega útlegð, drauminn um ógerlega afturkomu, reiðina gagnvart tímanum sem gereyðingarafli og landakortið sem býr innra með okkur öllum.   

Það var mikið líf og fjör mánudaginn 6. janúar þegar Víkurfréttir kíktu í heimsókn á meðan hópurinn æfði og voru þær Halla Karen Guðjónsdóttir, verkefnastjóri viðburðahalds hjá Reykjanesbæ, Sigríður Láretta Jónsdóttir, leikkona og þátttakandi úr hópi listamanna, og Áslaug Jónsdóttir, þátttkandi úr hópi íbúa Reykjanesbæjar, teknar tali. Afraksturinn má sjá í næsta þætti Suðurnesja magasíns á sjónvarpsstöðinni Hringbraut á fimmtudagskvöldið 9. febrúar kl. 19:30.