HS Orka
HS Orka

Mannlíf

  • Dúxinn er landsliðskona í körfu
    Björk Gunnarsdóttir útskrifaðist með 9,5 í meðaleinkunn frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. VF-mynd: pket
  • Dúxinn er landsliðskona í körfu
    Björk er hér á útskriftardaginn með fjölskyldu sinni. VF-mynd: pket
Föstudagur 30. desember 2016 kl. 05:00

Dúxinn er landsliðskona í körfu

-Björk Gunnarsdóttir stefnir á verkfræði

„Ég hef bara svo gaman að þessu,“ segir Björk Gunnarsdóttir, nýstúdent og dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja aðspurð að því hvernig hún fari að því að ganga svona vel í skólanum og vera landsliðskona í körfubolta á sama tíma. Þegar námsefnið er skemmtilegt finnst henni gaman að læra en metnaðurinn til að gera vel á báðum stöðum drífur hana líka áfram. Björk lauk náminu á tveimur og hálfu ári og var með meðaleinkunn upp á 9,5.

Björk hefur mjög gaman af stærðfræði og stefnir á að fara í verkfræði í háskóla. „Ég gæti hugsað mér að fara í heilbrigðisverkfræði. Ég ætlaði mér upphaflega að verða læknir og svo sló ég það út af borðinu vegna þess að það er ekki mjög mikil stærðfræði í því. Ég hef svo gaman að stærðfræðinni og langar að geta nýtt hana. Sem heilbrigðisverkfræðingur gæti ég til dæmis unnið sem stoðtækjafræðingur, en þá væri ég að hjálpa fólki sem vantar á útlimi, meðal annars.“

Björk segir Bandaríkin heilla og langar að geta spilað körfubolta með háskólanámi. „Ég fer núna að undirbúa umsóknir í skóla í Bandaríkjunum en það þarf oft svolítið langan fyrirvara. Ef það næst ekki þá byrja ég örugglega í skóla á Íslandi og færi svo mögulega út. Háskólinn í Reykjavík var að bjóða mér fría önn og þeir kenna einmitt heilbrigðisverkfræði, svo kannski fer ég þangað.“

Næstu dögum mun Björk verja á landsliðsæfingum með U20 úrtakshópnum í körfubolta, en hún hefur leikið með öllum yngri landsliðunum og er lykilmaður í úrvalsdeildarliði Njarðvíkur. Björk spilar stöðu leikstjórnanda og er fastamaður í byrjunarliði Njarðvíkur sem hefur komið flestum skemmtilega á óvart með góðri frammistöðu í vetur. „Já við erum búnar að koma mjög á óvart og það bjóst enginn við þessu. Markmið okkar fyrir tímabilið var bara að halda okkur uppi en mér finnst við geta náð miklu lengra en það. Svo nú stefnum við á að komast í úrslitakeppnina. Ég hef fulla trú á liðinu.“

Aðspurð hvort hún hafi einhvern tíma afgangs fyrir félagslífið segir hún að hún mætti kannski vera örlítið duglegri þar en eigi þó góðan vinahóp sem henni þyki mjög vænt um. „Þegar maður hefur sett sér markmið að standa sig vel bæði í skólanum og íþróttum þá situr eitthvað á hakanum. En ég á mjög góða vini og fjölskyldu sem styðja þétt við bakið á mér í öllu sem ég geri,“ segir Björk að lokum.

Björk er leikstjórnandi úrvalsdeildarliðs Njarðvíkur í körfubolta og hefur einnig spilað með öllum yngri landsliðum Íslands. VF-mynd: Hildur