Samkaup
Samkaup

Mannlíf

Elskar að elda hollt og keypti jólagjafirnar á netinu
Miðvikudagur 23. desember 2020 kl. 07:13

Elskar að elda hollt og keypti jólagjafirnar á netinu

Nína Rut Eiríksdóttir er frá Bjargasteini í Garði og er gift Erni Steinari, þau eiga þrjár dætur. Nína Rut starfar á Tannlæknastofu Þorvaldar H. Bragasonar í Keflavík.

„Áhugamálin mín og það sem ég er að gera þessa dagana eru bakstur, hollt matarræði og andleg vinna er mér hugleikin, göngu- og hjóla—túrar með hundunum mínum, dansa og syngja með dætrum mínum, jógaiðkun, vitundarvaka og líkamsrækt í bílskúrnum heima. Ég hlakka til þegar íþróttahúsin og sundlaugarnar opna aftur,“ segir hún í samtali við Víkurfréttir. Nína Rut svaraði nokkrum jólatengdum spurningum.

– Fyrstu jólaminningarnar?

„Fyrstu jólaminningarnar úr æsku eru með stórfjölskyldu minni þar sem ég var svo lánsöm að alast upp í foreldrahúsum mömmu minnar með bróðir mínum, ömmu og afa og bræðrum mömmu. Á aðfangadagskvöld komu svo systkini og syst-kinabörn hennar í heimsókn í heitt súkkulaði og kökur og voru þetta góðar og hlýjar minningar, ekki má svo gleyma góða epla- og mandarínuilminum.“

– Jólahefðir hjá þér?

„Það hafa myndast nokkrar. Við fjölskyldan erum heima ásamt mömmu minni og systkinum á aðfangadag og borðum góðan mat og opnun pakka. Förum svo til tengdamömmu á jóladag hittum fjölskyldu mannsins míns, borðum og opnum gjafir þar og á milli hátíða hitti ég bróðir minn og fjölskyldu hans.“

– Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðarnar?

„Já, mjög svo. Elska að elda hollt, undirbý meðlætið, legg á borð með hjálp dætra minna og elda matinn ef Örn Steinar er á vakt, annars sér hann um aðalréttinn.“

– Uppáhaldsjólamyndin?

„Þessar eru mest uppáhalds: While You Were Sleeping, Love Actually, Bridget Jones Diary.“

– Uppáhaldsjólatónlistin?

„Ég á nokkur uppháhaldsjólalög, t.d. Ó helga nótt, Nóttin var sú ágæt ein, Dansaðu vindur, Bjart er yfir Betlehem, Joy to the World, Little Drummer Boy, Mary’s Boy Child og Þú komst með jólin til mín.“

– Hvar verslarðu jólagjafirnar?

„Mest á netinu þessi jól, á þessum skrítnu tímum.“

– Gefurðu margar jólagjafir?

„Já, þó nokkrar.“

– Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?

„Nei, ekki lengur. Er ávallt opin fyrir breytingum. Gæti hugsað mér að vera erlendis yfir þennan tíma. Er svo fegin að jólakortahefðin er að hverfa.“

– Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Þær eru svo margar fallegar og góðar, erfitt að velja úr eina sérstaka.“

– Hvað langar þig í jólagjöf?

„Frið á jörð – svo væri æði að komast í sól og hita við tækifæri.“

– Hvað er í matinn á aðfangadag?

„Vegan Wellington og hamborgarhryggur ásamt vel völdu meðlæti. Eftirréttur; heimalagaður ís og kaka.“