HS Orka
HS Orka

Mannlíf

  • Fjölskyldudagur í Helguvík
  • Fjölskyldudagur í Helguvík
    Rut Ragnarsdóttir skrifstofustjóri og Magnús Garðarsson framkvæmdastjóri United Silicon taka á móti fólki í kísilverinu í dag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Laugardagur 1. apríl 2017 kl. 09:00

Fjölskyldudagur í Helguvík

- kísilverið með karnivalstemningu fyrir bæjarbúa

United Silicon býður bæjarbúum í fjölskyldufjör við verksmiðju fyrirtækisins í Helguvík í dag, laugardag. Hátíðin, sem verður með karnivalsniði, hefst kl. 12 og stendur til kl. 16 síðdegis.
 
Í auglýsingu fyrir hátíðina eru nefndir nokkrir liðir í dagskrá þar sem talað er um trúða, grill og tónlist. Þannig mun Bæjarstjórnarbandið spila en fram til þessa hefur það aðeins komið fram á Ljósanótt.
 
Kolagrillin verða sjóðheit þar sem grillaðar verða pylsur fyrir gesti og gangandi. Börnin geta einnig grillað sykurpúða yfir rjúkandi kolum.
 
Það sem vekur sérstaka athygli í dagskránni er ljósmyndasýningin Perlur Reykjaness eftir Ellert Grétarsson. Ellert er mikill umhverfisverndarmaður og því vekur sýning hans í kísilverinu óneytanlega athygli. Í samtali við Víkurfréttir sagði hann að svo bregðist krosstré sem önnur. Gamall samstarfsmaður Ellerts af Víkurfréttum, Rut Ragnarsdóttir, sé skrifstofustjóri hjá United Silicon. Ellert hafi gert það fyrir Rut að setja upp sýninguna, sem verður bara í dag í mötuneyti starfsmanna.
 
Í auglýsingunni fyrir fjölskyldudaginn segir einnig frá því að Orkurannsóknir Keilis muni sýna tilraunir í anda Sprengju-Kötu. Það mun ýmislegt gerast í tilraunaglösum, sprengingar og litabreytingar, allt í anda alvöru vísinda. Einnig frosnar sápukúlur og marglitur reykur framkallaður með þurrís og heitu vatni.
 
Þá mun umboðsaðili TESLA á Íslandi vera með rafbíla á staðnum til reynsluaksturs og lukkuhjól verður á staðnum þar sem vinna má flotta vinninga.
 
Fólk er beðið um að hafa ekki með sér hunda eða önnur gæludýr á hátíðarsvæðið.
 
Uppfært: Þessi frétt var aprílgabb. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024