Grindavíkurdætur með tónleika í Hljómahöll 10. nóvember
Gleðisprengjan Páll Óskar mætir sem skrautfjöður
„Tónleikarnir með Fjallabræðrum í Hörpu síðasta vor virkuðu sem vítamínssprauta á okkur,“ segir kórstjóri Grindavíkurdætra, Berta Dröfn Ómarsdóttir en þessar dætur Grindavíkur ætla að gleðja Grindvíkinga og aðra í Hljómahöllinni sunnudaginn 10. nóvember. Eins og allir vita markar þessi dagsetning döpur tímamót í huga allra Grindvíkinga og til að láta depurðina ekki ráða ríkjum þennan dag var gleðisprengjan Páll Óskar Hjálmtýsson, fenginn sem sérstök skrautfjöður og mun Palli taka þrjú lög með dætrunum.
Grindavíkurdætur voru stofnaðar árið 2019 og allir vita hvað gerðist ári síðar og stóð það fram til ársins 2022. Dæturnar náðu að sigla nokkuð lygnan sjó þar til í nóvember í fyrra og því mætti velta upp hvort rétt nafn sé á kórnum?
„Það mætti kannski kalla okkur „Hamfarakórinn“. En að öllu gríni slepptu hefur þetta verið ansi krefjandi fyrir okkur. Ég held að enginn geti sett sig í spor Grindvíkinga og þá meina ég þeirra sem bjuggu í Grindavík, sjálf er ég Grindvíkingur en hef ekki búið þar undanfarin ár. Stundum var fámennt á æfingum vegna flutninga og annarra tengdra verkefna, en við lifðum af og lítum björtum augum fram á veginn. Þegar Halldór Gunnar Pálsson, Fjallabróðir með meiru, hafði samband við okkur fyrir tónleika sem haldnir voru í Hörpu síðasta vor til styrktar Grindvíkingum, virkaði það sem þvílík vítamínssprauta fyrir okkur. Í kjölfarið á þessum æðislegu tónleikum kom upp hugmyndin að halda aðra stóra tónleika þar sem Grindvíkingar gætu hist og fannst okkur dagsetningin 10. nóvember vera viðeigandi. Auðvitað er þetta ekki neinn gleðidagur en þetta er staðan og hægt er að snúa svona degi úr því að vera sorgardagur, í að fólk hittist og gleymi sér í tónlist. Við erum samt meðvitaðar um að fyrir Grindvíkinga er þetta tilfinningaríkur dagur en efnisskráin mun spanna allan skalann, frá sorg til gleði. Þar spilar gleðisprengja Páll Óskar stórt hlutverk og ég hef sterka trú á að samstarf okkar við hann muni skila áheyrendum út í hversdaginn með von í hjarta,“ segir Berta.
Palli er gordjöss
Pál Óskar Hjálmtýsson þarf varla að kynna fyrir nokkrum Íslendingi. Hann hefur lengi verið einn af ef ekki sá allra vinsælasti tónlistarmaður Íslands.
„Ég held að ég hefði kastað öllu frá mér til að geta tekið þátt í þessu en tónleikarnir eru kl. 18 svo ég næ að standa við bókun sem er seinna þetta kvöld. Mér er svo ljúft og skylt að taka þátt í þessu með Grindavíkurdætrum og hlakka agalega mikið til. Ég hef oft sungið með kórum og þá gengur þetta svona fyrir sig, ég fæ lagalistann og pikka út þau lög sem ég tel henta og það varð ekki mikið mál að þessu sinni. Auðvitað er þetta erfiður dagur fyrir Grindvíkinga en samvera og tónlist gerir svo mikið fyrir sálartetrið okkar. Það besta sem maður gerir þegar erfiðan dag ber upp, er að setja eitthvað gott í daginn í stað þess vonda. Þessir tónleikar er þetta góða, bæði samvera og tónlist en ég hef lengi haldið því fram að tónlist hafi lækningamátt.
Við skulum ekki gleyma því að aðalatriðið þetta kvöld eru þessar æðislegu Grindavíkurdætur, ég get ekki beðið eftir að deila sviðinu með þeim en ég er bara skrautfjöður. Ég ætla að fara í minn flottasta glansgalla og ég hlakka einfaldlega ofboðslega mikið til,“ sagði Páll Óskar að lokum.