Heima er þar sem hjartað slær
Áhugaverð sýning heimskvenna í Reykjanesbæ
Sýningin „Heima er þar sem hjartað slær“ opnaði í Átthagastofu Bókasafns Reykjanesbæjar um síðastliðna Ljósanótt og hefur sýningunni verið tekið afar vel.
Undirbúningur sýningarinnar hófst á vormánuðum 2018 þegar Bókasafn Reykjanesbæjar fékk styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála til þess að efla menningar- og félagsauð innflytjenda í Reykjanesbæ.
Hluti af styrknum var notaður í þetta verkefni með Heimskonum, hópi kvenna sem býr í Reykjanesbæ en koma hvaðanæva að úr heiminum og hittist reglulega í Bókasafni Reykjanesbæjar. Alls voru það tólf konur úr hópnum sem tóku þátt í verkefninu og þemað, hugmyndin, sem hópurinn vann með var „heima er þar sem hjartað slær“. Hópnum til aðstoðar voru bandaríska myndlistarkonan Gillian Pokalo ásamt myndlistarmanni bókasafnsins, Önnu Maríu, en saman stýrðu þær vinnustofum og uppsetningu sýningarinnar. Í verkunum er unnið með klukkuverk og grafíktækni og er afraksturinn ásamt svipmyndum frá ferlinu til sýnis í Átthagastofu Bókasafns Reykjanesbæjar.
Verkefnið hefur vakið athygli út fyrir landssteinana og barst bókasafninu ósk um að hafa samskonar vinnustofu og sýningu fyrir hóp aðfluttra kvenna í Gallery of Community Arts sem er í Phoenixville í Bandaríkjunum. Þar verður notast við sama þema og sömu tækni, auk þess verða verkin sem eru nú á sýningunni í Átthagastofu sýnd samhliða þeim verkum sem verða unnin á vinnustofunni. Til þess að vinna að verkefninu fer Anna María á vegum Bókasafns Reykjanesbæjar út til þess að aðstoða við framkvæmd verkefnisins og uppsetningu sýningar í upphafi næsta árs.
Um verkefnið segja þær Gillian og Anna María: „Verkefnið tengir ekki einungis saman konur á Reykjanesi heldur tengir þetta saman konur sem eiga það sameiginlegt að búa á nýjum slóðum. Gangur klukkunnar minnir á okkar eigin hjartslátt og með því að vinna með tíma sjáum við hvernig við tengjumst öll, ólík en í takt.“
Sýningin er opin öllum á opnunartíma Bókasafnsins til 21. október næstkomandi.