Það hefur vantað Keflavíkurhrokann
„Við erum ekki hérna til þess að láta vaða yfir okkur“
Stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og Pétur Ingvarsson komust í byrjun vikunnar að sameiginlegri niðurstöðu þess efnis að Pétur stígi til hliðar sem þjálfari meistaraflokks karla. Hinn leikreyndi Magnús Þór Gunnarsson hefur verið Pétri til aðstoðar í vetur og mun hann stýra Keflvíkingum í næsta leik þegar Keflavík tekur á móti ÍR í Blue-höllinni næstkomandi fimmtudag. Víkurfréttir slógu á þráðinn til Magga Gun, fyrrum stórskyttu Keflvíkinga, og heyrðu í honum hljóðið eftir breytingarnar.
Hvernig líst þér á þessar breytingar og að fá að stýra liðinu í næsta leik?
„Þetta er náttúrulega rosalega spennandi. Þetta er eitthvað sem maður hefur haft aftarlega í kollinum eftir að hafa verið með Pétri – en rosalega leiðinlegt að það sé við svona kringumstæður,“ segir Magnús sem er augsýnilega spenntur að fá tækifæri til að stýra liðinu. „Það er bara ein leið núna og hún er uppávið. Það er ekkert annað í boði.“
Það er eins og þú segir, þú ert búinn að vera með Pétri í vetur og kemur ekki glænýr inn í þetta, þekkir strákana vel. Sérðu einhverjar miklar breytingar framundan í leikskipulagi eða öðru?
„Nei, í raun og veru ekki. Ég er náttúrulega að fara að stjórna þessum leik á fimmtudaginn og svo veit maður ekkert hvað gerist meira með það – en það eina sem ég ætla að ná út úr strákunum á fimmtudaginn er að við spilum saman og höfum gaman af þessu. Ýtum aðeins frá okkur og sýnum það sem hefur vantað hjá okkur, það hefur vantað Keflavíkurhrokann. Þannig að ég ætla að reyna að berja það í strákana núna á æfingum í þessari viku, ég byrjaði á því á æfingu á mánudaginn og held því áfram og vonast til að það skili okkur sigri á heimavelli á móti ÍR.“
Koma einhverju skapi í þá.
„Já, í raun og veru. Frekar að lemja frá okkur heldur en að láta lemja okkur.“
Óskrifað blað
Magnús átti langan og farsælan feril sem leikmaður en sem þjálfari er hann svolítið óskrifað blað og hann tekur undir það.
„En kannski það góða við mig er að sem leikmaður þá skildi ég leikinn mjög vel og ég veit að ég get verið góður þjálfari. Eins og ég segi, það er bara að fá tækifæri og nú er tækifærið komið og bara undir mér komið að sýna að ég geti þetta.
Við erum með hörkulið í höndunum og það er bara að koma leikmönnum á sömu blaðsíðu, vera með smá stæla og vera kröftugir frá byrjun og spila af krafti í fjörutíu mínútur – þá geta góðir hlutir gerst.“
Þú ert kannski ekki að tala um að fara alla leið út í Deandre Kane stæla, er það?
„Nei, það mun allavega ekki gerast í þessum leik – en ef ég kem til með stjórna liðinu eitthvað áfram þá vonast ég til þess. Við þurfum að vinna okkur inn til að vera með svoleiðis stæla. Aðeins að láta vita að við erum ekki hérna til þess að láta vaða yfir okkur. Eins og ég segi þá þurfum við að vinna okkur inn fyrir því og hingað til höfum við ekki gert það – en það byrjar á fimmtudaginn,“ sagði Maggi Gun ákveðinn að lokum og var þar með farinn til að berja Keflavíkurhrokann í liðið enda æfing í þann veginn að hefjast.