Samkaup
Samkaup

Mannlíf

Hjólar hringinn fyrir góðan málstað
Miðvikudagur 28. ágúst 2013 kl. 17:53

Hjólar hringinn fyrir góðan málstað

Klemenz Sæmundsson ætlar að hjóla hringinn í kringum Ísland á níu dögum. Klemenz hefur lengi haft þann draum í maganum og ætlar loksins að láta verða af því þegar hann stendur á fimmtugu. Klemenz lagði af stað á þriðjudaginn var og mun því koma aftur til Reykjanesbæjar þann 4. september, en þann dag verður Klemenz einmitt fimmtugur. Með þrekraun sinni ætlar Klemenz að láta gott af sér leiða og safna áheitum til styrktar Blóðlækningadeild LSH.

Eftir að hann hefur stigið af hjólinu eftir hringferðina, ætlar Klemenz sér að hlaupa rúmlega 23 km hring sem hefur verið nefndur í höfuðið á honum. Hringurinn liggur frá Reykjanesbæ í gegnum Sandgerði, Garð og svo aftur til Reykjanesbæjar. Klemenz hefur hlaupið þennan hring í rúm 17 ár og því hefur hringurinn verið nefndur „Klemminn“ af félögum hans. Klemmahlaupið verður öllum opið og hvetur Klemenz fólk til þess að koma í hlaupið og hjálpa honum að ljúka þessu þrekvirki.

Nú er Klemenz staddur á suðaustur horni landsins en í gær hjólaði hann 230 km og gisti við Vík í Mýrdal. Hægt verður að fylgjast með Klemenz hér á Facebook þar sem hann mun birta ljósmyndir af ferðum sínum á 25 km fresti.

Þeir sem vilja leggja þessu góða málefni lið og heita á kappann á Íslandstúrnum eða taka þátt í Klemmanum geta lagt inn á reikning: 542-14-403600, kt. 040963-2359. Einnig hefur verið stofnaður reikningur í Landsbankanum þar sem fólk getur lagt inn sín framlög: Reikningurinn er 0142-05-71259, kt. 040963-2359. Klemminn hefst kl. 16:30 þann 4. september fyrir þá sem vilja ganga og kl. 17:30 fyrir þá sem vilja hlaupa eða hjóla. Upphafs- og endamark er að Heiðarbóli 37 (Við Heiðarskóla). Boðið verður upp á hressingu að loknu hlaupi. Þátttökugjald er 1500 krónur eða frjáls framlög.

Nánara viðtal við Klemenz birtist í Víkurfréttum á morgun.