HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Léttir að fella grímuna
Föstudagur 13. janúar 2017 kl. 17:00

Léttir að fella grímuna

Mikilvægt að huga að andlegri heilsu, segir Keflvíkingurinn Lovísa Falsdóttir

Körfuboltakonan Lovísa Falsdóttir fór í mikla sjálfskoðun á síðasta ári, eftir að glímt við kvíða og vanlíðan um nokkurt skeið. Hún hefur verið opinská um vandamál sín á samfélagsmiðlunum og segist hún þekkja talsvert af ungu fólki sem sé í svipuðum sporum. Lovísa segir umræðuna á samfélagsmiðlunum vera til góðs enda sé fólk oft hrætt við að ræða þessa hluti. Lovísa, sem er 22 ára Keflvíkingur, gekk til liðs við Grindvíkinga fyrir tímabilið. Hún hafði aldrei verið í verra líkamlegu formi en þá en er óðum að komast í besta form lífs síns. Hún hefur sett sér ákveðin markmið fyrir tímabilið og hefur þegar náð nokkrum þeirra.


Fyrir rúmu ári síðan var Lovísa búin að ákveða að taka sér frí frá körfubolta þar sem hún var að hefja flugnám. Fram að því hafði hún verið í góðu andlegu jafnvægi. „Ég fattaði það ekki fyrr en eftir á hvað körfubolti var stór hluti af lífi mínu. Félagslegi hlutinn sem fylgir fór alveg út um gluggann og fyrir mína parta þá endaði ég í ójafnvægi eftir að ég tók mér hlé.“

Sorgarferli á heimilinu eftir brottrekstur mömmu

Móðir Lovísu, Margrét Sturlaugsdóttir, var að þjálfa kvennalið Keflavíkur á þeim tíma en hún var látin taka poka sinn eftir að ósætti kom upp á milli hennar og nokkurra leikmanna liðsins. „Við höfðum ekki náð að borða kvöldmat saman í nánast áratug þar sem það var alltaf einhver úr fjölskyldunni á æfingu. Ekki nóg með að það hafi verið áfall þá var um að ræða tvær stelpur sem ég taldi meðal minna bestu vinkvenna. Félaginu var þannig kippt undan okkur og vinkonuhópurinn minn splundraðist í leiðinni. Það er ekkert drama svo sem núna en þróaðist bara þannig,“ segir Lovísa. Hún segir að það hafi ekki komið til greina leika með Keflavík að svo stöddu. „Það fór rosalegt sorgarferli í gang á heimilinu þegar mamma hætti. Ég æfði um stund með liðinu þegar Sverrir tók yfir, bara til þess eins að vera til staðar fyrir yngri systur mína. Þetta var hrikalegt ástand og liðið sundraðist á alla vegu. Ég veit samt alveg að ef ég held áfram í körfubolta um ókomin ár þá mun ég spila aftur fyrir Keflavík.“

Þróaði með sér frammistöðukvíða

„Mig grunar að ég sé með undirliggjandi ADD (athyglisbrest). Mér gekk alltaf vel í skóla þegar ég var yngri en þegar ég var á öðru ári í framhaldsskóla átti ég orðið mjög erfitt með að einbeita mér. Eftir erfiðustu önnina mína í skóla fór ég til Bandaríkjanna í skóla og til þess að spila körfubolta. Þar þróaði ég með mér mikinn frammistöðukvíða. Ég var með stein í maganum daginn sem ég var að fara út. Ég bara vissi að ég myndi ekki ná að klára þessa tíu mánuði.“ Í stað þess að takast á við þær tilfinningar ákvað hún að harka af sér. „Eftir hálfa dvölina vissi ég ekki hvað ég hét, mér leið svo illa.“

Lovísa hefur alltaf haft sjálfstraust í lagi og góða sjálfsmynd að eigin sögn. Hún segist aldrei hafa upplifað pressu frá foreldrum sínum sem bæði náðu frábærum árangri í körfubolta. Hún sjálf setti þó ómeðvitað á sig mikla pressu í körfuboltanum. „Þau voru ekki að setja á mig pressu en auðvitað vill maður vera eins og þau og gera eins og fyrirmyndirnar,“ segir Lovísa. Foreldrar hennar hvöttu hana til þess að fara á Dale Carnagie námskeið þar sem þau töldu að eitthvað hefði brotnað í sjálfsmyndinni. Lovísa segir að gott hafi verið að fara á námskeiðið en þar var hún ekki að vinna í þeim hlutum sem þurfti að takast á við. „Ég áttaði mig ekkert á því fyrr en ári seinna og opnaði mig ekkert um hlutina fyrr en núna síðasta haust.“ Fram að því setti Lovísa upp grímu og hugsaði um allt aðra hluti en sína eigin heilsu og vellíðan. „Það lagaðist svo ekkert fyrr en ég sagði einhverjum þetta allt í fyrsta skipti. Þetta stendur ekkert utan á manni. Það segja margir að það sé fyrsta skrefið í ferlinu að segja frá þessu. Það voru margir sem voru steinhissa. Ég veit alveg að ég lít út fyrir að vera með breitt bak og að ég geti tekið hverju sem er. Maður þarf bara að vera hreinskilinn við sjálfan sig og gera það sem þarf til þess að hugsa um sig.“



Aðspurð segist Lovísa vita um margt íþróttafólk sem glímir við kvíða. Hún segir að það fyrsta sem margir geri er að hætta í íþróttinni sinni þegar reynir á. „Það er öfugt hjá mér. Ég er ekkert kvíðin þegar ég er á vellinum. Það bjargar mér að fara á æfingu og þurfa ekki að hugsa um neitt annað.“ Þegar kemur að stórum verkefnum þá eykst kvíðinn, að sögn Lovísu. Hún fór í gegnum mikla sjálfsskoðun í sumar og fann þá þörf til þess að byrja aftur í körfuboltanum. Hún segist hafa áttað sig á sínu hlutverki í liðinu betur að undanförnu. „Ég hef aldrei verið mikill skorari, frekar svona liðsmaður. Ég er ekki viss um að ég hefði verið í yngri landsliðum ef þjálfarar liðanna hefðu ekki vitað hversu mikilvæg ég get verið í hóp.“ Þannig hefur Lovísa nánast undantekningalaust verið fyrirliði vegna leiðtogahæfileika sinna.

Mikill léttir að leita til sálfræðings

Þegar Lovísa ákvað að leita sér aðstoðar sálfræðings þá vissi hún ekki hvert hún ætti að snúa sér. „Maður hugsar ósjálfrátt, hvað á fólk eftir að hugsa um mig? Ég hef trú á því að  allir hefðu gott af því að vinna í sér. Það er enginn sem fer í gegnum lífið án þess að lenda í áföllum. Það er enginn fullkominn. Ég held að það sé gott að vera meðvitaður um hluti sem þarf að vinna í og vera stanslaust í sjálfsskoðun. Maður er svo gjarn á að setja sig í lang síðasta sætið. Það er bara svo ógeðslega mikilvægt að vera með sjálfan sig í lagi því annars getur þú ekki sinnt mörgu öðru í lífinu,“ Lovísa segir umræðuna á samfélagsmiðlunum vera til góðs enda sé fólk oft hrætt við að ræða þessa hluti. Það hjálpaði henni mikið að láta aðra vita að henni leið ekki vel.

Margir sendu Lovísu skilaboð eftir að hún fór að tjá sig um erfiðleika sína og segir hún marga vera í svipuðum sporum. „Það eru svo margir sem skilja ekki af hverju maður þarf að ræða þetta. Það fólk tengir þá ekkert við það sem maður er að segja. Ég vil auðvitað ekki að neinn tengi við það. Ef allt væri eins og best er á kosið þá væri ég hoppandi kát alla daga og gerði ekki úlfalda úr mýflugu hvað varðar öll verkefni sem ég tek mér fyrir hendur. Ég var alveg með í maganum að tjá mig um þetta en svo þegar ég sá að þetta var að hjálpa öðrum og að hjálpa fólki að skilja mig, þá hjálpaði þetta mér að taka grímuna niður og vera bara ég.“

Þarf ekki að skilgreina vandann

„Þegar þetta er á borðinu þá er auðveldara að glíma við þetta og tjá sig við fólk ef það spyr mig hvernig ég hef það. Eins og með flugnámið. Ég segi einfaldlega að ég fékk bara kvíða og ég veit ekki alveg hvað ég á að gera. Í stað þess að loka mig af og vorkenna mér þá er þetta á yfirborðinu.“
Lovísa segir erfitt að skilgreina hvað hún sé að ganga í gegnum. Það sé heldur ekkert endilega þörf á því í hennar tilfelli. „Ég er ekki með greiningu fyrir þunglyndi, frammistöðukvíða eða ADD. Ég get ekki sett puttann á það og þarf þess ekki,“ segir Lovísa að lokum.