Með storminn í fanginu
„Grindavík á helling inni sem ferðamannastaður,“ segir Ólafur Arnberg, fyrrum útgerðarmaður og núverandi veitinga- og hótelrekstrarmaður.
Ólafur hefur reynt margt á langri ævi og er ekki beint hægt að segja að líf hans hafi alltaf verið dans á rósum. Hann byrjaði mjög ungur til sjós, gerðist síðar útgerðarmaður og gekk oft á ýmsu hjá honum í rekstrinum og á endanum vatt hann kvæði sínu í kross og fór út í veitinga- og hótelbransann. Hann verður 72 ára á þessu ári, er farinn að huga að því að setjast í helgan stein og vill að veitingastaðurinn sem heitir Brúin, og hótelið sem er í sama húsnæði og heitir einfaldlega Hótel Grindavík, komist í góðar hendur. Ólafur telur stór tækifæri felast í ferðaþjónustu í Grindavík en vill þá sjá bæjaryfirvöld beita sér meira.
Ólafur skautaði yfir æskuna. „Ég er fæddur í Árnessýslunni, er bóndasonur en þegar mæðuveikin kom upp þurftum við að skera allt fé niður og fluttum þá í Kópavog. Svo skildu foreldrar mínir og ég flutti með mömmu í Hafnarfjörð. Ég var ekki að finna mig í skóla og stakk af um jólin þegar ég var í fyrsta bekk í gagnfræðiskóla og réði mig á Gullfoss sem messagutti, var þá fjórtán ára gamall. Ég var á Gullfossi fram í apríl þegar pabbi dó, fór ekki aftur um borð og flutti svo til Grundarfjarðar þar sem tveir eldri bræður mínir voru komnir með eigin bát og ég fékk pláss hjá þeim. Eftir það var ég á hinum og þessum bátum og eftir mjög lélega vertíð ´67-´68, ákvað ég að fara eitthvert annað og endaði í Grindavík. Ég sá auglýst eftir beitiningarmanni á Albert og lét Þórarinn Ólafsson sem átti bátinn, ekki í friði fyrr en hann réð mig. Fljótlega kynntist ég Helgu dóttur hans og við byrjuðum saman. Ég fann fljótt að ég vildi sækja mér skipstjórnarréttindi og hóf nám í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum en kláraði seinna árið í Reykjavík. Eftir það réði ég mig aftur á Albert, nú sem annar stýrimaður og var á honum þar til ég vildi reyna fyrir mér sem útgerðarmaður.“
Útgerðarmaður og fisksali
Það gekk á ýmsu á útgerðarferli Ólafs og um tíma rak hann fiskbúð í Grindavík. „Ég keypti fyrsta bátinn ásamt Páli Hreini Pálssyni sem þá átti Sævík en nafnið breyttist síðar meir í Vísir hf. Ég fann fljótt að ég vildi frekar vera einn í útgerð og fór því út úr því. Fór um tíma aftur á Albert en var með augun á bátum til sölu og stökk á bát árið 1977, breytti nafninu í Eldhamar sem var sama nafn og útgerðin mín bar allar götur síðan. Það gekk á ýmsu á þessum árum en alltaf barðist maður áfram, það voru hæðir og lægðir í þessu. Ég seldi þennan bát sem ég hafði keypt, leigði annan og þegar ég skilaði honum ári síðar, var eins bátur til sölu og ég keypti hann og gerði út í nokkur ár. Ég var farinn að selja talsvert af fiski til fisksala í Grindavík en eitthvað gekk viðkomandi illa að borga svo hann lét mig fá búðina upp í skuldina og þar með var ég líka farinn að reka fiskbúð! Útgerðin var samt áfram hornsteinninn og um tíma seldi ég mikið af fiski í matvöruverslanir í Reykjavík og þ.a.l. þurfti ég að fara út í fiskverkun líka, við flökuðum ófá kílóin þá. Út frá þessu hófst líka saltfiskverkun sem Þóri sonur minn stýrði mjög vel. Ég fór út úr útgerð um tíma og setti orkuna í fiskverkunina en útgerðarmaðurinn togaði alltaf og því var ég kominn með nokkra báta stuttu síðar og gerði út á línu. Þetta var á þeim tíma sem línutvöföldunin var sett á en hún virkaði þannig að helmingur aflans taldi ekki til kvóta ef bátar og skip réru á línu, hvort sem var á balalínu eða með beitningarvél,“ segir Ólafur.
Áfall og ástin bankar á ný
Ólafur lenti í áfalli sem enginn útgerðarmaður vill lenda í, bátur frá honum fórst. „Árið 1989 keypti ég bát frá Ísafirði, gaf honum að sjálfsögðu nafnið Eldhamar en því miður reyndist báturinn mjög illa. Við ákváðum að lengja hann í Póllandi og þegar hann kom til baka og var að koma úr sínum fyrsta róðri í lok nóvember árið 1991, fórst hann í Hópsnesinu við Grindavík og allir nema einn fórust úr sex manna áhöfn. Ég var að halda fertugsafmælið mitt þetta sama kvöld og átti von á áhöfninni í afmælið en fékk þessar hörmulegu fréttir. Þetta áfall fékk mjög mikið á mig, þetta leiddi til gjaldþrots og hjónaskilnaðar og þarna upplifði ég einn erfiðasta tíma lífs míns en ég er ekki svo auðveldlega sleginn niður og komst aftur á lappir.“
Eftir áföllin fann Ólafur ástina aftur. „Árið 2000 hitti ég konuna mína, Ingu Gunndórsdóttur. Hún kom af fullum krafti inn í útgerðarbaslið með mér, sá um allt í landi á meðan ég var á sjó og reyndist mér mikil stoð og stytta. Ég hafði verið byrjaður aftur í útgerð, lagði upp hjá Þrótti sem var gamla fiskverkunin sem ég stofnaði en Þórarinn, fyrrum tengdafaðir minn, hafði keypt af mér og Þóri, sonur minn, stýrði. Einhver bátaskipti urðu næstu árin en þegar Þórarinn féll frá og fiskverkunin lognaðist út af, fundum við Inga að nú væri kominn tími til að gera nýja hluti og hættum endanlega í útgerð árið 2012. Þegar við vorum búin selja síðasta bátinn fórum við að velta fyrir okkur hvað við gætum gert við húsnæðið sem Eldhamar ehf. hafði keypt af Þrótti. Ég geymdi veiðarfæri þarna, náði að selja þau til Hornafjarðar og því stóð húsið autt.“
Brúin og Hótel Grindavík
Fljótlega fengu Ólafur og Inga hugmynd að opnun kaffihúss en sú hugmynd endaði sem 300 fm. veitingastaður. „Við opnuðum Brúna á Sjómannahelginni árið 2013 og svo vatt þetta upp á sig og á svipuðum tíma byrjuðum við að breyta neðri hæðinni í hótel. Við opnuðum Hótel Grindavík í fyrra, sömuleiðis á Sjómannahelginni, þetta eru fimm herbergi núna og ég er búinn að láta teikna stækkun og eftir hana mun hótelið vera með nítján herbergi. Það er greinilegt að þetta vantar hér í Grindavík, ég er með 100% nýtingu núna og geri allt eins ráð fyrir að hún haldi sér í vetur. Ég er með morgunmat fyrir hótelgesti og er svo með veitingastaðinn opinn frá klukkan 18 til 21. Ég er sannfærður um að Grindavík á helling inni sem ferðamannastaður og myndi vilja sjá bæjaryfirvöld gera meira í því að laða ferðamenn inn í bæinn. Það er sorglegt að vera með vinsælasta ferðamannastað Íslands hinum megin við Þorbjörn en baðgestir vita ekki að hinum megin við fjallið er mjög flottur sjávarútvegsbær með ríka sögu. Eftir skjálftavirknina og eldgosin hefur að sjálfsögðu orðið breyting og mun fleiri ferðamenn koma til Grindavíkur en hér væri hægt að gera svo miklu, miklu meira.
Ég er að verða 72 ára gamall og finn að ég vil fara setjast í helgan stein. Fyrir aðila sem hefur áhuga á að eiga og reka veitingastað og hótel, er hér um frábært tækifæri að ræða vil ég meina. Öll aðstaða hér er mjög góð, stórt eldhús o.s.frv. svo ég hvet áhugasama um að kíkja til mín í heimsókn, ég mun taka vel á móti viðkomandi,“ sagði Ólafur að lokum.