Gleðilegt sumar
Gleðilegt sumar

Mannlíf

Okkar eigið Kolaport
Laugardagur 24. september 2011 kl. 10:50

Okkar eigið Kolaport


Vinsælt hefur verið hjá Suðurnesjamönnum að leigja sér bás í Kolaportinu og selja fatnað og annað dót sem fólk hefur ekki lengur not fyrir. Það bregst heldur ekki þegar ég fer þangað að ég hitti á bilinu 5-10 Suðurnesjamenn sem ég kannast við, ýmist að selja varning eða að kaupa og skoða. Stemningin í Kolaportinu er lífleg og skemmtileg og alltaf gaman að kíkja þar við og taka einn hring.

Við Suðurnesjamenn eigum samt okkar eigið Kolaport. Kolaport okkar er Skansinn, gamla Rammahúsið við Seylubraut 1 í Innri Njarðvík.

Nú er ég nokkuð viss um að mjög margir viti hreinlega ekki af þessum stað eða hafa aldrei haft fyrir því að líta þar við, þó það væri nú ekki nema bara í einn kaffibolla (Kaffítár er líka þarna handan við hornið). Þarna er fólk að selja allt milli himins og jarðar og auðveldlega mætti þarna búa til mikla og líflega stemningu, svona eins og í Kolaportinu, mínus hákarlslyktin.

Ég er alltaf að velta fyrir mér mannlífinu hér á svæðinu og veit að margir gera það einnig. Við þurfum bara öll að virkja okkur og mæta og sýna smá lit. Mér finnst mikilvægt að styðja við bakið á þeim sem eru raunverulega að láta til sín taka hérna á svæðinu því að ef svona starfsemi blómstrar þá getur það eflaust reynst innblástur fyrir fólk sem jafnvel liggur á góðum hugmyndum og langar virkilega að framkvæma hluti hérna.

Það drepur þig ekkert að fara smá rúnt og kíkja á einn af þeim fáu stöðum sem fólk safnast saman á hér á Suðurnesjum, þannig fyrst búum við til mannlíf á svæðinu.

Hér má nálgast frekari upplýsinar um Skansinn sem er opinn um helgina frá klukkan 12-17.

Eyþór Sæmundsson blaðamaður VF

Bílakjarninn
Bílakjarninn