Mannlíf

Selma Björk og Hermann í Njarðvíkurskóla
Þriðjudagur 12. nóvember 2013 kl. 13:26

Selma Björk og Hermann í Njarðvíkurskóla

„Boðskapur Selmu Bjarkar um hvernig hún kaus að takast á við afleiðingar eineltis á erindi við okkur öll,“ segir Anna Hulda Einarsdóttir, kennari við Njarðvíkurskóla. Selma Björk Hermannsdóttir, 16 ára nemi í FG, vakti þjóðarathygli í haust með vaskri framgöngu í kjölfar eineltis sem hún varð fyrir.

Anna Hulda, ásamt hopi kvenna sem starfa að skólamálum, fóru af stað með verkefni sem ber yfirskriftina Er þörf á nýrri hugsun í eineltismálum? og settu sig í samband við Selmu Björk og föður hennar, Hermann Jónsson, með það að markmiði að fræða börn um áhroif eineltis á líðan barna og sér í lagi leiðir til þess að takast á við einelti. Feðginin samþykktu það og Selma Björk mun ríða á vaðið og hitta nemendur í 5. - 8. bekk skólans á fimmtudag og ræða við þá um reynslu sína.

Miðvikudaginn 20. nóvember kl. 19:30 verður svo fundur fyrir foreldra þar sem Hermann mun segja frá sinni reynslu. „Hermann hefur lagt áherslu á að byggja Selmu Björk upp og gera hana að sterkum einstaklingi sem hefur svo sannarlega skilað sér. Viðhorf þeirra er að mæta hatri með ást og finna til með þeim sem leggja í einelti,“ segir Anna Hulda. Hún segir að Hermann muni fara yfir þær leiðir sem hann nýtti sér í uppeldinu og hvernig þau feðgin tóku á vandamálinu. „Erindi hans varðar okkur öll einnig og því eru allir foreldrar hvattir til að mæta, en feður eru sérstaklega velkomnir,“ bætir Anna Hulda við.

Hér má sjá viðtal við Hermann og Selmu Björk í Ísland í dag 9. september sl.

Mynd: Skjáskot af vefupptöku Stöðvar 2.