„Skemmtilegasta sem við gerum“
Tveir krakkar úr Reykjanesbæ í stóru hlutverki í Stundinni okkar í Sjónvarpinu
„Að leika er það skemmtilegasta sem við gerum, við vitum bæði hvað við ætlum að verða þegar við verðum orðin stór,“ segja þau Guðlaugur Sturla Olsen og Sóllilja Arnarsdóttir, leikarar en þau eru í stórum hlutverkum í „TÖKUM Á LOFT,“ sem er nýjasta viðbótin við vinsælasta barnasjónvarpsþátt í sögu íslensks sjónvarps, Stundin okkar. Gulli sem er þrettán ára og Sóllilja níu ára, leika Mána og Áróru en TÖKUM Á LOFT fjallar um Loft sem hefur svifið um loftin blá frá örófi alda án þess að lenda á jörðinni. Loft kynnist ævintýralegri tilvist mannsbarna í gegnum sjónaukann sinn sem heitir Sjón.
Gulli og Sóllilja hafa talsverða leikreynslu þrátt fyrir ungan aldur, hafa verið í Danskompaní í Reykjanesbæ og eru ríkjandi heimsmeistarar í dansi.
„Ég byrjaði að leika í fyrra þegar ég var átta ára gömul, var þá að leika í Jólasögu í Frumleikhúsinu. Svo hef ég leikið í Sögum og Krakkaskaupinu, þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Mér finnst rosalega gaman að fara í tökur á TÖKUM Á LOFT. Ég er líka í dansi og er því að gera það sem mér þykir skemmtilegast, að leika og dansa,“ segir Sóllilja.
Þar sem Gulli er fjórum árum eldri hefur hann aðeins meiri reynslu.
„Ég byrjaði í Þjóðleikhúsinu árið 2022, var með hlutverk í Draumaþjófinum og tók svo þátt í sjónvarpsþætti í sjónvarpi Símans, Bestu lög barnanna, var einmitt að taka þátt í tónleikum í Hörpu fyrir tveimur vikum þar sem lög úr þáttunum voru flutt. Ég var með Sóllilju í Sögum og Krakkaskaupinu, og var líka í Jólastundinni okkar. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt, frábær félagsskapur og allir eru góðir við okkur, þetta er líka frábær reynsla,“ segir Gulli.
Hollywood draumurinn
Krakkarnir eru í skóla og þurfa stundum að fá frí til að sinna leiklistagyðjunni. Þau vita bæði hvert þau stefna.
„Tökur hófust í sumar en hafa síðan verið í gangi undanfarið og er alls ekki lokið, þess vegna þurfum við stundum að fá frí í skóla, okkur leiðist það ekki. Það er búið að taka upp fjórtán þætti af 20 í þessari seríu og vonandi verður framhald á. Ég yrði mjög ánægður með það en ég veit nákvæmlega hvað ég ætla að verða þegar ég verð orðinn stór, leikari og auðvitað er Hollywood draumurinn,“ sagði Gulli.
Skrýtið að vera á skjánum
Sóllilju finnst pínu skrýtið að mæta í skólann á mánudögum, degi eftir að Stundin okkar er búin að vera í sjónvarpinu.
„Krakkarnir koma að manni og segjast hafa séð mig í sjónvarpinu, það er pínu skrýtið en venst alveg. Mér finnst þetta svo gaman og ætla sko að verða leikkona þegar ég verð stór, reyndar er ég orðin leikkona,“ sagði Sóllilja.
Þáttaröðin er tekin upp í nýju sýndarmyndveri RÚV en þetta er fyrsta þáttaserían af Stundinni okkar þar sem notast er við þessa tækni. Hún gerir kleift að stækka heiminn og sögusviðið enn frekar. Stundin okkar er elsti sjónvarpsþáttur landsins, en fyrsti þátturinn var sendur út á aðfangadag 1966. Nú hefst því 58. starfsárið. 26 umsjónarmenn hafa verið frá upphafi og sýndar 116 þáttaraðir.