Viðreisn
Viðreisn

Mannlíf

Sönghópur Suðurnesja syngur vinsæl Suðurnesjalög
Laugardagur 26. október 2024 kl. 06:09

Sönghópur Suðurnesja syngur vinsæl Suðurnesjalög

Valdimar Guðmundsson og Guðrún Gunnars verða gestasöngvarar. Tónleikar 30. október í Ytri-Njarðvíkurkirkju.

„Við erum að fara að syngja vinsæl Suðurnesjalög eftir Suðurnesjamenn. Það virðist alltaf falla í góðan jarðveg hjá tónleikagestum,“ segir Magnús Kjartansson, tónlistarmaður og kórstjóri Sönghóps Suðurnesja sem hann hefur stýrt í tvo áratugi.

Sönghópurinn er blandaður kór karla og kvenna og er eini kórinn af þremur sem Magnús stýrir ennþá en hann var í mörg ár einnig með flugfreyjukórinn og Brokkkórinn.

„Sönghópurinn mun syngja lög eftir höfunda frá Suðurnesjum eins og Kristin Rey, Gunnar Þórðarson, Þóri Baldursson og mig. Svo verða gestasöngvarar með okkur, þau Guðrún Gunnarsdóttir og Valdimar okkar Guðmundsson. Þau munu syngja önnur Suðurnesjalög sem flestir þekkja úr spilun í útvarpi og víðar í gegnum tíðina. Við tókum þetta aðeins fyrir á Ljósanótt en nú gerum við enn betur og höfum verið að æfa vel undanfarnar vikur,“ sagði Maggi sem mætir til Reykjanesbæjar einu sinni í viku til að stýra æfingu hjá sönghópnum. Í honum er áhugafólk, margt af því hefur verið lengi í kórnum en hvernig gengur að stýra kór með áhugafólki?

Viðreisn
Viðreisn

„Það gengur bara ágætlega. Ég hef notið þess að hafa þessa pressu á mér að mæta einu sinni í viku á æskuslóðirnar og held þannig tengingunni við minn gamla heimabæ betur.“

Aðspurður hvað hópurinn sé búinn að flytja mörg lög frá upphafi sagðist okkar maður ekki vera viss en alla vega hundrað. „Fjöldi laga er ekki aðalatriðið heldur er þetta líka félagsleg aðgerð. Að koma saman og hittast en svo líka að syngja.“

En hvað er mikilvægt fyrir áhugafólk að gera til að verða gott eða betra í söng?

„Að æfa og æfa sig líka sjálfur,“ segir Maggi sem segir að í næsta mánuði verði hann svolítið upptekinn með gamla Brunaliðinu sem verður með tónleika í Reykjavík en hann var einn liðsmanna í þeirri þekktu sveit. „Brunaliðið hætti fyrir mörgum áratugum en við gerðum jólaplötu sem varð mjög vinsæl. Við munum flytja lög af henni en einnig fleiri vinsæl lög með Brunaliðinu eins og Ég er á leiðinni - og nú er ég einmitt á leiðinni suður með sjó á æfingu með mínu fólki.“

Tónleikarnir með Sönghópi Suðurnesja verða í Ytri-Njarðvíkurkirkju í næstu viku, 30. október kl. 20. Miðasala verður við innganginn.