Tónlist og söngur eru mitt líf og yndi
segir Alexandra Chernyshova en hún fékk Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2020. Hefur fengið margar viðurkenningar og kennt tónlist víða á Íslandi en elskar mest að syngja. Hefur samið tvær óperur og sú þriðja verður um Vigdísi forseta.
„Það er ekkert smá gaman að fá svona viðurkenningu og yndislegt að vita að fólk er að fylgjast með og kann að meta það sem maður er að gera,“ segir Alexandra Chernyshova sem fékk Súluna 2020, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, fyrir framlag sitt til eflingar tónlistarlíf í bæjarfélaginu.
Víkurfréttir hittu sópransöngkonuna, píanóleikarann og tónskáldið á fallegu heimili fjölskyldunnar í Innri-Njarðvík. Austur-Evrópukonan, sem kom fyrst til Íslands 2003 og er orðinn íslenskur ríkisborgari, tók á móti okkur í rauðum kjól en Alexandra segist iðulega klæða sig upp. Jón Hilmarson, eiginmaður hennar, heilsaði okkur en hann er borinn og barnfæddur Keflvíkingur, sonur hjónanna Elísabetar Jensdóttur, kennara, og Hilmars Jónssonar, rithöfundar og bókavarðar, sem er látinn. „Ég elti ástina til Íslands,“ segir hún brosandi en þau eiga þrjá syni, Alexander Leo, Nikolai Leo og Hilmi Snæ.
Margar viðurkenningar
„Íslendingar hafa tekið vel á móti mér og ég er mjög ánægð hérna en tónlist og söngur eru mitt líf og yndi. Ég gæti ekki lifað án þeirra,“ segir hún.
Hún byrjaði að syngja aðeins þriggja ára og hóf að læra á píanó aðeins fimm ára. Alexandra er fædd árið 1979 og uppalin í Úkraínu og Rússlandi. Hún hefur tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi og rekið, ásamt eiginmanni sínum, menningar- og fræðslufyrirtækið „Dream-Voices“ frá árinu 2006. Alexandra hefur verið afkastamikil og hefur meðal annars stofnað kóra, óperufélag, haldið fjölmarga tónleika, gefið út geisladiska og samið tónlist. Í öllum þessum verkefnum hefur hún virkjað og fengið til liðs við sig fjölda listamanna, innlenda sem erlenda. Alexandra hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir árangur sinn á sviði tónlistar. Árið 2014 var hún valin í hóp tíu framúrskarandi ungra Íslendinga fyrir framlag sitt til menningar á Íslandi. Þá komst hún á topp tíu listann í World Folk Vision, alþjóðlegri tónlistarkeppni, í sumar með laginu Ave María úr frumsömdu óperunni „Skáldið og biskupsdóttirin“. Nú í haust sigraði hún í alþjóðlegri tónskáldakeppni í Moskvu fyrir tónsmíð, fjórtán lög, úr sömu óperu og samin er við handrit Guðrúnar Ásmundsdóttur, fyrstu óperu sem Alexandra samdi.
Sigraði í tónskáldakeppni í Rússlandi
„Já það kom mér á óvart þegar ég hlaut fyrstu verðlaun í alþjóðlegri tónskáldakeppni í Moskvu, eftir Isak Dunajevski, sem er stórt nafn í Rússlandi. Ég hlaut fyrstu verðlaun fyrir útsetningu mína á fjórtán lögum úr óperunni Skáldið og biskupsdóttirin. Þetta er fyrsta óperan sem ég samdi og lauk 2013, við handrit Guðrúnar Ásmundsdóttir, leikkonu og rithöfund. Við unnum mikið saman. Þessi ópera varð til um vináttu Hallgríms Péturssonar og Ragnheiðar Brynjólfsdóttur. Mér þykir rosalega vænt um þessa sögu og þetta verk og finnst rosalega flott að hafa fengið svona stóra viðurkenningu í Rússlandi þar sem 80 atvinnutónskáld tóku þátt. Svo voru tónleikar í Moskvu í lok september og valdi dómnefndin tvö lög úr þessari nótnabók. Það voru Ave María og Kvöldbæn. Ave María er tónlist eftir mig og ljóð eftir Rúnar Kristjánsson. Kvöldbæn er þjóðvísa eða bæn sem Brynjólfur, biskupinn og Ragnheiður sungu saman áður en farið var að sofa. Þessi tvö lög voru sungin af rússneskum söngvurum á þessum tónleikum sem ég komst ekki á vegna Covid – og líka vegna þess að ég og Guðrún, ásamt öðrum söngvurum, vorum með rosalega flotta dagskrá um tónskáldið Sigvalda Kaldalóns og móður hans í Kaldalónssal í Hörpu á sama tíma.“
– En áttirðu að syngja á tónleikunum?
„Nei, ég átti bara að mæta og taka á móti verðlaununum og njóta þess að hlusta á rússneska söngvara syngja lögin á íslensku. Sendiherra Íslands tók á móti þeim fyrir mig. Ég gerði „transcription“ og við vitum alveg hvað það er erfitt að syngja lög á erlendum tungumálum og hvað það tekur langan tíma. Það er hægt að sjá myndband af flutningnum á YouTube. Maður gat skynjað að söngvararnir höfðu lesið söguna og kynnt sér hvernig þetta var. Óperan var frumsýnd í Hallgrímskirkju í Saurbæ í Hvalfirði með fjórtán manna hljómsveit, kór og rosalega flottum óperusöngvurum. Stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson var í hlutverki Brynjólfs. Svo fórum við Guðrún til Moskvu og sungum þessi lög á íslensku í akademíunni í Moskvu. Við fengum rosa góða dóma og viðbrögð.
Svo var óperan tekin í Kiev, í mínum gamla háskóla í Úkraínu. Það var 150 ára stórafmæli Glier-tónlistarakademíunnar og þetta voru fyrstu heiðurstónleikar skólans. Þeir völdu besta verk frá nemendum skólans og þetta var alveg ógleymanlegt, flutt af 30 manna hljómsveit, kór og einsöngvurum. Við mamma þýddum þetta yfir á úkraínsku og þau sungu á úkraínsku nema Vikivaka, því það er sálin í þessari óperu og það er ekki hægt að þýða það á önnur tungumál. Ég vildi að það yrði sungið á íslensku og það vakti mjög mikla lukku.“
Báðar óperurnar sem ég hef skrifað hafa verið fyrir heila hljómsveit, kóra og einsöngvara og það tekur mikinn tíma. Það var magnað að hitta Guðrúnu, hún hafði unnið handritið sitt í fimm ár áður en ég kom inn í myndina. Sagan um vináttuna hreif mig svo mikið að mig langaði að skrifa tónlist við hana. Það tók mig þrjú ár og svo eitt til viðbótar að skrifa útsetningarnar.“
Alexandra og Guðrún Ásmundsdóttir.
Alexandra ung að árum með móður sinni, Evgenia, föður sínum Alexander og Maríu systur sinni.
Guðrún mögnuð
„Guðrún hafði skrifað leikrit um þessa sögu, Skáldið og biskupsdótturina, sem var henni hjartans mál og á sama tíma, árið 2011, var ég í listaháskólanum að taka master í nýsköpun í tónlist og var með tónsmíði sem aukafag. Óperan var mitt útskriftarverk. Fyrst langaði mig að skrifa óperu um konu og ég ætlaði að skrifa grínóperu, eða farsa, og svo endaði ég með dramatíska sögu um vináttu. Á þessum tíma bjó ég fyrir norðan, á Hofsósi. Á laugardögum kenndi ég söng í söngskólanum og sinnti fjölskyldunni fram á þriðjudag en þá keyrði ég til Reykjavíkur til að læra og var fram á föstudag. Ég var svo heppin að geta verið hjá Guðrúnu. Ég bjó hjá henni þegar ég var í Reykjavík. Við töluðum rosalega mikið saman og hún sagði mér fullt af flottum sögum, hún er algjör fjársjóður. Það er ótrúlegt hvað hún veit og hvað hún hefur lesið mikið. Ég tengdi svo við þessa sögu um vináttu Ragnheiðar og Hallgríms sem er í raun frekar skrítin. Hann var tuttugu árum eldri og hún var, ung kona. Ein af fyrstu menntuðu konunum sem gat talað mörg tungumál, spilað á mörg hljóðfæri og gat skilið hann. Þau voru sálarvinir. Ég tengdi líka við það sem gerðist milli hennar og foreldra hennar. Á þessum tíma, á 17. öld, var það líka þannig í Úkraínu að foreldrar vildu hafa mikið að segja um hvað börnin þeirra gerðu varðandi sambönd og annað. Svo hafði ég mjög gaman að því að grúska í þjóðlögum. Ég er mjög þakklát Guðrúnu fyrir að hafa treyst mér fyrir þessari sögu og fyrir allri þessari vinnu sem hún hafði unnið.“
Einsöngvari í Kiev
Alexandra var einsöngvari við óperuhúsið í Kiev og söng ung að árum tíu hlutverk. Hún fékk viðurkenningu hjá tímariti í hennar heimabæ þrettán ára gömul fyrir besta lagið, Súkkulaðiland og er fyrir börn. „Þarna var ég stúdent og var með besta lag allra stúdenta í Kiev. Söngurinn er samt stór partur af mér og tónsmíðin bara til hliðar. Ég átti ekki von á því að hún yrði að atvinnu eða að ég myndi semja eitthvað meira en bara lög – en svo fæðist þetta og ég hugsaði bara: „Já, ég ætla ekkert að stoppa.“ Það voru hindranir og fólk sem efaðist um mig en ég var viss um að ég gæti þetta, samið óperu.“
Góðar minningar
Alexandra er fædd í Kiev og hún segist eiga góðar minningar frá þeim tíma.
„Á þessum tíma hétu þetta Sovétríkin. Ég er svolítið alþjóðleg, pabbi minn er rússneskur og mamma úkraínsk. Allir ættingjar pabba eru Rússar og mömmu frá Úkraínu. Svo á ég franskan langalangafa – en á þessum tíma var maður ekkert að hugsa hvaðan maður kemur. Fimm ára fór ég að læra á píanó. Mér fannst það gaman en ég var ekkert undrabarn, enginn Mozart. Ég var bara venjuleg – en mér fannst rosalega gaman að syngja. Ég byrjaði að syngja þriggja ára. Það þurfti ekkert að spyrja mig um að koma og syngja. Mér fannst rosalega gaman að fá sóló í kór og að standa á sviði og syngja. Ég elskaði það. Mér fannst svo gaman hvað tónlistin hafði góð áhrif á fólk, það klappaði og sagði kannski að þetta lag vakti upp einhverja minningu eða tilfinningar. Mér fannst svo gaman að heyra frá fólkinu og upplifun þess. Það sem gerir mest fyrir mig er ekki athyglin heldur að sjá hvað tónlistin getur gert mikið fyrir fólk. Ég horfi stundum á listafólk eins og einhvers konar lækna, því fólk kemur og hlustar og líður betur eftir á. Ég kláraði áttunda stig á píanó og var í kór, dansi og tennis. Ég var í alls konar en fannst alltaf skemmtilegast að syngja.“
Alexandra með afa sínum, Rodion Efimenko en hann er þekktur kvikmyndaleikstjóri.
Meira en tónlist og söngur
Þegar Alexandra kláraði námið í tónlistarskólanum segist hún hafa farið þá leið sem foreldrar hennar vildu. Að fara í háskólanám til að eiga meiri möguleika á að fá atvinnu. Hún segist þakklát fyrir það. Samhliða tónlistarakademíunni fór hún í háskóla og kláraði kennsluréttindin í ensku, spænsku og bókmenntum.
„Þetta var mikið basl og ég vann hörðum höndum en ég hef alltaf verið dugleg. Á tímabili langaði mig bara að hætta í kennaraskólanum og bara vera að syngja og sinna því betur en foreldrar mínir sögðu: „ Nei, ég skyldi klára.“ Og ég varð að hlýða og eftirá var ég mjög sátt. Þetta átti eftir að koma mér til góða.“
Þegar hún kom til Íslands byrjaði á því að fara í íslenskunám og hún skoðaði möguleika sína til starfs. Svo fékk Jón, maður hennar, skólastjórastarf á Bakkafirði og þau fluttu þangað. Þannig vildi til að á staðnum var enginn tónlistarkennari. Það starf beið eftir Alexöndru.
„Þannig byrjaði minn ferill hér á Íslandi. Já, þarna fékk ég kaup sem tónlistarkennari og byrjaði í raun að læra íslensku. Fólkið tók mér mjög vel, og líka reyndar hér, þótt ég hafi ekki fengið vinnu fyrsta árið. Svo hélt ég mínu fyrstu tónleika á Suðurnesjum og í Kópavogi. Ég þakka tengdaforeldrum mínum, Hilmari Jónssyni og Elísabetu Jensdóttur, fyrir þeirra þátt í því. Ég hitti minn fyrsta píanóleikara á Íslandi, Gróu Hreinsdóttur, og við héldum stóra tónleika í Duus húsum, mína fyrstu einsöngstónleika á Íslandi. Svo héldum við þá líka í Salnum og víðar.“
Kenndi prestinum söng
Hjólin fóru síðan aðeins að snúa fyrir Alexöndru á Bakkafirði þó henni hafi fundist hún vera svolítið langt í burtu á þessum litla stað en þar varð hún ólétt af fyrsta barni þeirra Jóns, Alexander Loga. Fljótlega eftir að hún kom til Bakkafjarðar uppgötvaði hún flygil á staðnum. „Ég kom inn í húsnæði sem er félagsheimili, skóli og skrifstofur og sá flygil. Á honum voru bara bækur og ég spurði hvort enginn væri að nota flygilinn. Ég hugsaði með mér að ég gæti örugglega samið eitthvað fallegt lag á hann,“ segir hún og í framhaldinu byrjaði hún að starfa sem tónlistarkennari á staðnum.
„Það var fullt af nemendum, allir fimmtán nemendur skólans komu í píanónám hjá mér. Svo vorum við líka aðeins að syngja. Ég lærði íslensku smátt og smátt, krakkarnir voru svo þolinmóðir og voru stundum að leiðrétta mig. Svo kom prestur staðarins í söngnám hjá mér. Það var mjög gaman. Svo fékk hún mig nokkrum sinnum til að syngja í kirkjunni.“
Í söngmenningu
Ári síðar flutti litla fjölskyldan til Hofsóss þegar Jón fékk stöðu þar. Þar var Alexandra komin í annað sveitarfélag, í Skagafjörðinn en þar hefur lengi verið mikil söngmenning.
„Ég sagði bara: „Vá, þvílíkur kór þarna, Heimir.“ Ég spurði hvort þau væru búin að læra söng og hvar þá. Einn úr kórnum sagðist bara vera búin með þrjú stig í söng. Ég sagði: „Ha? Ertu ekki lærður söngvari í kór?“ Í Úkraínu og Rússlandi þarftu að vera búin með átta stig í söng í tónlistarskóla og fara svo í nám til að vera kórsöngvari – en hér á Íslandi skráir þú þig ef þú hefur áhuga og þú ert kominn í kór. Svo lærirðu bara að beita röddinni og þú kannt ekki einu sinni nótur. Ég var mjög hissa á þessu en bara annar menningarheimur auðvitað.“
La Traviata í Skagafirði
Eftir tvö ár í Skagafirðinum fékk Alexandra þá hugmynd að gera óperu.
„Ég var búin að kynnast söngvurum, búin að syngja í kórum, gera master class, kenna við tónlistarskólann og var búin að taka eftir því hvað kórfélagarnir voru flottir. Ég þráði að setja upp óperu. Fólkið var til staðar sem gat sungið, bæði aðalhlutverkið og í kór. Ég segi við Jón minn að mig langi svo að setja upp óperuna La Traviata. Þetta er svo flott músík og falleg en sorgleg. Tónlistin eftir Verde er svo flott. Ég sá að ég gæti stofnað óperukór. Jón horfði á mig eins og ég væri að missa vitið, setti höndina á mig og sagði: „Já, Alexandra, fínt.“ Ég bjóst við að hann myndi segja mér að gleyma þessu en hann sagði að ef ég héldi að ég gæti gert þetta, þá ætti ég að láta slag standa. Ég var orðin listrænn stjórnandi, fann söngvara, yndislegan píanóleikara, Tómas Sigurðsson, og tvo söngvara, Þórhall Bárðarson frá Blönduósi og Jóhann Ara frá Varmahlíð. Ég setti upp áheyrnarprufur, setti saman tuttugu manna óperukór og ég kenndi þeim að syngja á ítölsku. Við fengum líka góða hjálp frá einum Ítala á staðnum.
Þetta var algjört ævintýri. Jón sagði mér að sjá um þetta, hann myndi finna peninga í verkefnið. Hann sótti um styrki og einmitt svona gerast hlutirnir. Eins og með Guðrúnu. Ég hringdi ég í hana og sagði að við værum búin að opna óperu Skagafjarðar. Ég sagðist vera að spá í að gera þetta í konsertútfærslu og hvort hún vildi koma. Hún var bara: „Já, ertu bara búin að stofna óperu?“ Þegar hún kom var tónlistarskólinn ekki í mjög góðu húsnæði, eiginlega bara í bílskúrshúsnæði. Hún kemur inn, sest og þá byrjar forleikurinn í La Traviata og hún vissi alveg að ég væri flott söngkona. Svo heyrir hún í hinum söngvurunum og svo kórnum. Sagði svo við mig: „Ég bara vissi ekki hvar ég var stödd. Ég er stödd á Sauðárkróki! Vá.“
Guðrún sagði að við myndum setja upp óperuna með öllu, ekki bara konsert. Við fengum síðan Guðmund Óla Gunnarsson og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands til að vera með okkur. Svo komu kassar frá mömmu í Kiev með búningum fyrir alla, fyrir kórinn, einsöngvara, alla. Þetta voru rosalega flottir búiningar. Þá spurði Guðrún mig hvort foreldrar mínir væru milljónamæringar. Ég sagði: „Nei, þeim þykir bara svo vænt um mig.“ Og þau gera það,“ segir hún hlægjandi og bætir því við að það sé svo mikilvægt að hafa sterkt bakland þegar maður fer í stór verkefni. „Það er allt hægt ef þú ert með svona góða fjölskyldu og vini í kringum þig sem standa með þér og hjálpa þér. Það er ekki hægt að gera kraftaverk einn.“
– Í þinni fjölskyldu er mikil list, tónlist og leiklist. Þú ert með þetta í blóðinu er það ekki?
„Bróðir langömmu minnar var frægur óperusöngvari og söng í Bolshoi og langamma mín var leikkona og söngkona. Afi minn var kvikmyndaleikstjóri og var stórt nafn í Úkraínu og Sovétríkjunum. Hann gerði yfir 50 kvikmyndir og fékk alþjóðleg verðlaun, meðal annars í Berlín. Pabbi hans var einn af stofnendum úkraínska leikhússins. Já, ég hef þetta í blóðinu. Pabbi minn er ljóðskáld og er búinn að gefa út tíu bækur. Hann er núna að hjálpa mér að setja íslensk ljóð í rússneskt ljóðaform. Hann er í félagi rússneskra ljóðskálda og rithöfunda og fékk nýlega Majakowski viðurkenningu sem er svolítið stórt. Ég vona að ég geti þýtt Skáldið og Biskupsdótturina yfir á rússnesku, í það ljóðaform, þannig að hægt væri að syngja þessa óperu á rússnesku. Það tekur engan smá tíma að þýða Hallgrím Pétursson yfir á rússnesku með sömu tilfinningu og sama ljóðaflæði.“
Vigdís forseti næsta verkefni
– Í næsta verkefni, þú ert ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, ópera um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta.
„Já og fyrsta kvenforseta í heimi. Finnst þér það ekki spennandi? Hún er svo merkileg þessi kona – og merkilegt að hún komi frá þessu litla landi. Það tók mig tíma að semja handritið því saga hennar er svo stór. Ég reyndi að finna út hvernig ég gæti komið öllum atburðum í hennar lífi inn í eina óperu. Hún var ekki aðeins fyrsti kvenforseti í heiminum, hún var líka fyrsta einstæða foreldrið til að fá að ættleiða barn. Mér fannst líka svolítið sterkt á þessum tíma þegar hún var að fermast, árið 1944, þá var Ísland að öðlast sjálfstæði. Svo kemur þessi tími þar sem hún var að ferðast og læra frönsku og sjá heiminn. Svo kemur hún til baka árið 1975 og þá var kvenréttindadagurinn og kvennafrídagurinn, svolítið mikið að gerast í jafnréttismálum og mér fannst það svolítið flott. Síðan skoruðu konur á Vigdísi að bjóða sig fram til forseta. Hún var ekki búin að hugsa sér það sjálf, það var ekki hennar markmið. Hana langaði að vera móðir og ég fjalla svolítið um það í óperunni þegar hún heldur á barninu sínu sem er kjördóttirin Ástríður. Hún þráði svo mikið að vera mamma. Ég hef líka lesið bókina hennar margoft og fullt af viðtölum við hana. Þar sér maður hvað þetta er stórkostleg kona – og það voru konur og karlar sem skoruðu á hana að bjóða sig fram til forseta og hún er alin þannig upp að hún vill gera gagn. Hún tók mark á vinum sínum og fólki í kringum hana og konum sérstaklega, og það var kominn tími á að fá kvenkyns forseta. Vigdís var svo flottur forseti. Hún kom Íslandi svolítið á kortið.“
– En hvenær áttu von á því að klára þessa óperu?
„Ef allt gengur vel og ef Covid setur ekki strik í reikninginn þá ætlum við að kynna óperuna í mars á næsta ári á alþjóðlega kvenréttindadeginum í húsi Vigdísar, með einsöngvurum og vonandi kór. Ég er búin að spyrja Kvennakór Suðurnesja um að vera með og þær voru mjög spenntar og ég vona að þetta verði að veruleika. Við erum að byrja að æfa með einsöngvurum, kvenréttindasenuna. Ég hlakka mjög til að kynna þessa óperu.“
„Í Úkraínu og Rússlandi þarftu að vera búin með átta stig í söng í tónlistarskóla og fara svo í nám til að vera kórsöngvari – en hér á Íslandi skráir þú þig ef þú hefur áhuga og þú ert kominn í kór.“
Tónleikar í heimbyggð
– Svo hefurðu verið með tónleika heima hjá þér og áramótatónleika undanfarin ár.
„Já, það er mjög gaman að halda stofutónleika og fá flotta listamenn með mér í lið. Fólki finnst yndislegt að koma í stofuna, þetta er svo heimilislegt og maður nær meira til áhorfendanna. Gestirnir hjá mér eru orðnir eins konar klúbbur, þau fylgjast rosalega vel með og ég vona að á næstu Ljósanótt geti ég haldið heimatónleika. Svo hef ég verið með nýárstónleika undanfarin ár. Það er svo mikið af jólatónleikum, sem er mjög gaman, en svo þegar nýja árið kemur finnst mér æðislegt að byrja það á flottum tónleikum. Á þessu ári verða ekki þessir hefðbundnu tónleikar, tónlistarfólk er að gera ýmislegt öðruvísi eins og rafræna tónleika og myndbönd en það er mjög flott að fá í lið með mér manninn minn og ljósmyndarann í það verkefni. Auk mín verða Rúnar Þór Guðmundsson, tenór, Jóhann Smári Sævarsson, bassi, og við gerum eitthvað rosalega flott.“ (Tónleikarnir verða sýndir á Hringbraut og vf.is).
Á veiruárinu hafa þau Alexandra og Jón verið dugleg að taka upp myndbönd í flottri náttúru Íslands, þar sem hún hefur sungið. Við spyrjum Alexöndru hvernig leið hennar hafi legið til Íslands.
„Það gerðist þannig að ég hitti Jón, manninn minn, á Spáni og það var örugglega ást við fyrstu sýn. Það er bara þannig. Ég var þá einsöngvari í Kiev, nóg að gera, en ég varð svo ástfangin. Hann kom til Kiev og bað um hönd mína. Við ákváðum að ég myndi flytja með honum til Íslands. Það var bara auðveldara fyrir mig. Ég vildi vera með honum og ég kom hingað 30. október 2003.“
– Og þú sérð ekki eftir því?
„Nei, ég sé ekki eftir því. Auðvitað ekki.
Alexandra er núna búin að vera á Íslandi í átján ár. Komin með þrjú börn og hún segir að henni líði jafn mikið eins og Íslendingi eins og rússneskri eða úkraínskri.
„Ég er allt þrennt og geri ekki upp á milli. Það var auðvitað margt skrítið og öðruvísi þegar ég kom hingað fyrst – og þegar ég horfi til baka þá sé ég kannski svolítið af hverju við smullum saman, við Jón. Við komum bæði frá foreldrum sem eru kennari og ljóðskáld eða rithöfundur. Það var mikil og alþjóðleg menning á mínu heimili, mikill lestur, list, fegurð og forvitni. Jón er besti vinur minn og við höfum um svo margt að tala. Fyrst töluðum við saman á ensku en eftir tvö ár spurði ég hvort við gætum ekki talað bara saman á íslensku. Mér fannst skrítið ef barnið okkar, Alexander, hlustaði á okkur tala ensku saman en ég talaði rússnesku við hann og Jón íslensku. Mér fannst það of mikið fyrir lítið barn. Mér fannst líka gaman að geta tekið þátt í umræðum í kaffiboðum og forvitni um hvernig og hvað.“
Kostur að kunna tungumálið
Alexandra segir að það sé mikill kostur að kunna tungumálið í því landi sem maður býr í. „Þá opnast dyr að nýjum heimi og nýrri menningu. Reykjanesbær er bær fjölbreytileikans þar sem fjórðungur íbúa er af erlendum uppruna. Ég er mjög stolt af því að vera fyrsti innflytjandinn sem fær menningarverðlaun bæjarins. Það er mikils virði. Á Íslandi eru að gerast hlutir bæði í kvenréttindum og mannréttindum og að minnka mismunun fólks. Þó það sé alltaf hægt að gera betur, þá samt er margt svo gott og maður getur verið stoltur af því að vera Íslendingur.“
– Ertu með skilaboð til útlendinga sem búa á Íslandi?
„Ég veit að þegar maður flytur til nýs lands þá getur maður verið rosalega einmana og maður saknar ákveðinna hluta á hverjum degi eins og sinnar rútínu, vina, ættingja – en það er mjög gott að kynnast fólki og hvort sem þú kemur hingað til að vinna eða á öðrum forsendum, eins og ég, fann ástina og kom hingað og stofnaði fjölskyldu, þá er mjög gott að vera opinn. Maður veit hvað það er erfitt að læra nýtt tungumál en oft skilur maður fólk þótt maður noti ekki tungumálið. Maður þarf líka að vera opinn fyrir íslenskri menningu og líka að segja frá skemmtilegum hlutum úr eigin menningu. Íslendingar verða bara ríkari af því að læra um eitthvað nýtt og skemmtilegt og geta kannski tileinkað sér það. Aðalatriðið er að þeir séu opnir fyrir þessum íbúum og svo nýbúarnir fyrir menningunni á staðnum.“
„Það tók mig tíma að semja handritið því saga hennar er svo stór. Ég reyndi að finna út hvernig ég gæti komið öllum atburðum í hennar lífi inn í eina óperu. Hún var ekki aðeins fyrsti kvenforseti í heiminum, hún var líka fyrsta einstæða foreldrið til að fá að ættleiða barn.“
– En hvað finnst þér -skrítnast á Íslandi?
„Tja, þegar maðurinn minn borðar sviðahausa á þorrablóti. Ég get ekki borðað hausa. Ætli það sé ekki skrítnast,“ segir menningarverðlaunahafinn Alexandra Chernyshova broandi um leið og hún kveður Víkurfréttamenn.
Alexandra með móður sinni, Evgenia.
Fjölskyldan saman hvítklædd á sólarströnd í Dubai, Alexandra og Jón og synirnir, Alexander Logi, Nikolai Leo og Hilmar Blær.