Viðskipti

Áhugi á stöðu efnahagsmála
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 3. nóvember 2023 kl. 06:07

Áhugi á stöðu efnahagsmála

Vel var mætt á efnahagsfund Íslandsbanka á Park Inn hótelinu síðasta föstudag. Farið var yfir nýja þjóðhagsspá greiningardeildar bankans undir heitinu „Lygnari sjór eftir öldurót“.

Sérfræðingar bankans útskýrðu stöðuna og fóru yfir það markverðasta; vaxtamál, hagvöxt, verðbólgu, stöðu krónunnar, húsnæðismál og fleira. Þeir gera ráð fyrir því að verðbólga verði kominn niður í rúmlega 5% á næsta ári en í 3,7% á árinu 2025. Þá muni stýrivextir ekki verða komnir niður að 7% fyrr en 2025. Óvissa sé í loftinu vegna komandi kjaraviðræðna.

Kjartan Már, bæjarstjóri, og Sighvatur Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka. VF/pket

Gestur fundarins var Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Hann fór yfir þróun mála allt frá því þegar bæjafélagið var mjög skuldugt árið 2014 og næstu ár á eftir og hvernig tókst að snúa blaðinu við. Í stuttu máli sagði Kjartan Már það vera einfalt, eyða minna en maður aflar. Hann sagði frá fordæmalausri fjölgun íbúa í bæjarfélaginu og hvernig hafi gengið að takast á við þá áskorun sem felst mikið í því að styrkja innviði, s.s. að byggja skólahúsnæði og leikskóla. Sömuleiðis hvernig raki og mygla hafi búið til ný vandamál og verkefni sem ekki hafi verið gert ráð fyrir. Staðan í fjármálum væri orðin viðráðanleg en bæjarfélagið skuldaði þó mikla peninga.