Viðskipti

Bústoð opnar í Garðabæ næsta haust
Húsnæði Bústoðar við Tjarnargötu í Keflavík.
Þriðjudagur 18. júní 2024 kl. 09:08

Bústoð opnar í Garðabæ næsta haust

Húsgagna- og gjafavöruverslunin Bústoð, sem fagnar 50 ára afmæli á næsta ári, mun opna nýja verslun að Miðhrauni 24 í Garðabæ næsta haust. Bústoð hefur verið starfrækt í Reykjanesbæ frá árinu 1975 og hefur notið mikilla vinsælda fyrir vönduð húsgögn á góðu verði. Um er að ræða viðbót við núverandi starfsemi en verslun félagsins við Tjarnargötu í Reykjanesbæ mun áfram sinna ört stækkandi viðskiptavinahópi á Suðurnesjunum.

Fyrirhugað er að nýja verslunin að Miðhrauni opni í lok september 2024 og eru framkvæmdir innandyra á lokametrunum.

Bústoð mun opnar verslun í þessu húsnæði í Miðhrauni 24 í Garðabæ í haust.

Björgvin Árnason, framkvæmdastjóri og eigandi Bústoð:

„Markmiðið með opnun á nýrri verslun er að bæta þjónustu við viðskiptavini á höfuðborgarsvæðinu en þar eigum við marga trausta viðskiptavini og finnum fyrir mikilli eftirspurn. Bústoð er rótgróið fyrirtæki sem hefur náð góðum árangri í sölu innan sem utan Suðurnesja. Við bjóðum upp á vönduð húsgögn frá þekktum vörumerkjum sem hafa notið vinsælda hér á landi, eins og Calia Italia og skandinavískar vörur frá Skovby og Furnhouse. Við leggjum mikið upp úr góðri, persónulegri þjónustu og hóflegri álagningu alla daga ársins Birgitta Ósk Helgadóttir, verslunarstjóri Bústoð að Miðhrauni og eigandi Bústoð:

„Verslunin í Garðabæ verður einstaklega falleg, opin, björt og notaleg. Þar munum við bjóða upp á allar okkar vinsælustu vörur ásamt töluvert af nýjungum. Um er að ræða glæsilegan 500 fermetra sýningarsal, þar sem við hlökkum mikið til að taka á móti landsmönnum. Við munum sömuleiðis bjóða upp á úrval af klassískrii gjafavöru frá Iittala, Bitz, Royal Copenhagen, Moomin ásamt nýrri og spennandi vöru.“

Sigurður E. Ragnarsson, framkvæmdastjóri Smáragarðs ehf., sem er eigandi fasteignarinnar að Miðhrauni 24:

„Við erum mjög ánægðir með að fá Bústoð inn í húsnæði okkar að Miðhrauni. Ég þekki Bústoð af góðu einu sem gamall viðskiptavinur og var því spenntur fyrir þessari hugmynd þegar hún kom upp. Nýlega opnaði ný og glæsileg Bónusverslun í húsnæðinu og því má segja að þarna sé komin góður verslunarkjarni á frábærum stað, nánast miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.“