Fyrsta skrefið í kröftugu samstarfi milli kvenna í orkumálum
FKA Suðurnes undirritaði nýverið samstarfssamning (MOU) við WIRE, Women in Renewable Energy Canada. Samstarfið byggist á því að miðla þekkingu og reynslu milli kvenna í orkugeiranum á milli landanna ásamt því að styrkja tengsl og viðskiptasambönd tengd konum í orkuiðnaðinum. Fyrsti sameiginlegi viðburðurinn var haldinn þann 9. apríl í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ, þar sem FKA Suðurnes stýrir verkefninu fyrir hönd FKA. Viðburðurinn er aðeins fyrsta skrefið í kröftugu samstarfi milli kvenna í orkumálum.
Fyrirlesararnir voru bæði íslenskar og kanadískar konur sem starfa í orkugeiranum en sendiherra Kanada á Íslandi, Jeannette Menzies, setti viðburðinn. Erindi viðburðarins voru þó nokkur en meðal annars flutti Fida Abu Libdeh, stofnandi og framkvæmdastjóri Geo Silica Iceland og formaður FKA Suðurnes, erindi um starfsemi Geo Silica Iceland og útskýrði hvernig fyrirtækið notar sjálfbæra leið til að nálgast steinefni. Grace Quan, forstjóri Hydrogen in Motion, flutti erindi um starfsemi Hydrogen in Motion og útskýrði fyrir fundargestum muninn á vetni og jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa.
Lilja Magnúsdóttir, deildarstjóri Auðlindastýringar hjá HS Orku, flutti erindi um framtak og verkefni HS Orku að þróun í orku sjálfbærni. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, flutti lokaorð viðburðarins þar sem hún fjallaði um hlutverk Íslands í að vera leiðandi í grænum orkumálum og hlutverk kvenna í að móta þær áætlanir.
Tengslamyndun milli fundargesta og fyrirlesara tók svo við í lok viðburðar, þar var sammælst um að þessi viðburður var einungis fyrsta skrefið í kröftugu og spennandi samstarfi milli kvenna í orkumálum.
UM FKA SUÐURNES
FKA Suðurnes var stofnað í nóvember 2021 af Fidu Abu Libdeh, frumkvöðli og stofnanda Geo Silica Iceland, og Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur, stjórnarformanni HS Veitna og forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. FKA Suðurnes vill nýta styrkleika sem felst í fjölbreytileika samfélagsins á Suðurnesjum með því að styðja konur í að sækja fram og sameina þær til aukins sýnileika og þátttöku. Tilgangur landsbyggðardeildar Suðurnesja er að sameina konur á Suðurnesjum í því skyni að auka þátt kvenna í störfum og stjórnum auk þess að leggja áherslu á nýsköpun og eflingu atvinnutækifæra. Allar konur á Suðurnesjunum eru hvattar til þess að kynna sér og ganga í félagið.