Heklan
Heklan

Viðskipti

Blue Car Rental hagnýtir gervigreind
Frá vinstri til hægri eru Kristín Jónsdóttir, rekstrarstjóri Snjallgagna, Gísli Örn Gíslason, tæknistjóri Blue Car Rental, Stefán Baxter, forstjóri Snjallgagna, og Magnús Þór Magnússon, viðskiptaþróunarstjóri Blue Car Rental.
Föstudagur 31. janúar 2025 kl. 06:26

Blue Car Rental hagnýtir gervigreind

Blue Car Rental skrifaði á dögunum undir samning við hugbúnaðarhúsið Snjallgögn um þróunarsamstarf á sviði gervigreindar. Stjórnendur fyrirtækjanna eru sammála um mikilvægi gervigreindar  og telja að mörg tækifæri til framtíðar liggi í tæknilausnum fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Gagnadrifin bílaleiga

„Blue Car Rental hefur alla tíð einblínt á gögn og tækni og því reynum við okkar besta til að vera leiðandi á markaði þegar kemur að nýjum hugmyndum og tækninýjungum í þjónustu til viðskiptavina. Við erum afskaplega spennt fyrir samstarfinu við Snjallgögn því við trúum því að gervigreindin eigi eftir að umbylta starfsemi ferðaþjónustu á heimsvísu og efla bæði þjónustuveitendur og notendur til að gera góða upplifun enn betri. Ekki síst þegar kemur að leit ferðafólks að sérsniðnum, hagkvæmum og öruggum upplifunum á ferðalögum. Við lítum á þetta sem sóknarfæri sem getur skapað samkeppnisforskot í hörðum heimi,“ segir Magnús Þór Magnússon, viðskiptaþróunarstjóri Blue Car Rental.

Árangursrík snjallmenni

„Snjallgögn hafa um árabil verið í nánu þróunarsamstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki, sem nota gervigreindarlausnir okkar til að fást við milljónir fyrirspurna á ársgrundvelli. Þjónustugreind er nafnið sem við notum yfir þennan tiltekna hluta af lausnavöndlinum okkar, Context Suite. Hún hefur verið svo árangursrík hjá viðskiptavinum okkar í ferðaþjónustu að yfir 60% þeirra viðskiptavina afgreiða sig á eigin spýtur með snjallmenni sem skilur og talar móðurmál þeirra. Þetta er viti borin sjálfvirknivæðing og hagnýting hennar mun skera úr um rekstrarhæfni og  lífvænleika fyrirtækja,“ segir Stefán Baxter, forstjóri Snjallgagna.

Um Blue Car Rental

Blue Car Rental ehf. er leiðandi ferðaþjónustufyrirtæki og ein af stærri bílaleigum landsins með um 100 starfsmenn og 6,2 milljarða veltu árið 2023. Frá stofnun fyrirtækisins fyrir fimmtán árum hefur það þjónustað um eina milljón ferðamanna. Til viðbótar við útleigu á bílum rekur fyrirtækið meðal annars fullkomin sprautu- og þjónustuverkstæði.

Um Snjallgögn

Sprotafyrirtækið Snjallgögn ehf. er tíu manna hugbúnaðarhús í Reykjavík sem þróar fjölbreyttar gervigreindarlausnir fyrir atvinnulífið. Meðal viðskiptavina fyrirtækisins í dag eru Arctic Adventures, Bónus, Elko, Nova, RARIK og Skatturinn. Fjárfestar að baki Snjallgagna eru Founders Ventures, MGMT Ventures, Tennin, Icelandic Venture Studio og Bright Ventures.