Góð tenging við atvinnulífið
Grindvíkingurinn Erla Ósk Wissler Pétursdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Executive MBA (EMBA) náms við Háskólann í Reykjavík. Í tilkynningu segir að Erla komi til HR frá Marine Collagen í Grindavík þar sem hún hafði verið framkvæmdastjóri frá árinu 2021. Erla útskrifaðist sjálf úr EMBA-náminu við HR árið 2023 en þar áður hafði hún lokið hagfræðiprófi með stærðfræði sem aukagrein frá Macalester College í St. Paul í Minnesota í Bandaríkjunum árið 2004.
Erla er með víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu og var m.a. mannauðsstjóri Vísis hf. í Grindavík og framkvæmdastjóri Codland ehf.
Erla situr í stjórn Síldarvinnslunnar og hefur setið í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og í stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Erlu lýst vel á sig í nýrri vinnu.
„Þar sem Marine Collagen hefur ekki getað framleitt neitt síðan við rýmingu í nóvember ‘23 var öllum starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp. Mér var sagt upp í ágúst á síðasta ári en á uppsagnarfrestinum sá ég þessa stöðu forstöðumanns EMBA við HR auglýsta og sótti um. Ég útskrifaðist sjálf úr þessu námi árið 2023 og þekki það því vel og ég er alsæl með að fá starfið. Ég byrjaði í náminu 2020 en tók mér ársleyfi þegar ég tók við framkvæmdastjórastöðu í Marine Collagen og útskrifaðist svo úr náminu ‘23 eins og áður sagði og mæli eindregið með því fyrir þá sem vilja auka við þekkingu sína og reynslu. Ég hef alltaf verið áhugasöm um nám og sérstaklega hvernig einstaklingurinn eflist þegar hann bætir við sig þekkingu. Þegar ég var mannauðsstjóri hjá Vísi var ég alltaf með augun opin fyrir tækifærum fyrir starfsfólk Vísis að bæta við sig þekkingu og þróa sig áfram í sínu starfi. EMBA námið í HR er gæðavottað og alþjóðlegt en við erum með reynslumikla kennara víðs vegar að og erum í samstarfi við MIT og IESE. Færnin og tengslanetið sem ég öðlaðist í náminu hefur reynst mér mjög vel og ég hlakka mikið til að taka þátt í að þróa námið enn frekar. Mitt starf felst m.a. í að halda góðri tengingu við atvinnulífið, viðhalda gæðakröfum námsins, samskipti við kennara og yfir höfuð að halda utan um námið en það eru að meðaltali 35 sem hefja nám á hverju ári. Mér líður eins og ég sé komin á minn heimavöll, ég hef lengi verið spennt fyrir tengslum skóla og atvinnulífs og nú hef ég tækifæri til að beita mér á því sviði.“
Marine Collagen í biðstöðu
Marine Collagen er nýsköpunarfyrirtæki í sjávarútvegi, fyrirtækið vann gelatín og collagen úr fiskroði og var komið á góðan skrið þegar ósköpin dundu yfir í Grindavík.
„Marine Collagen var byrjað að skila jákvæðri framlegð og fyrirtækið var á góðri leið með að fara skila hagnaði. Við þurftum auðvitað að hætta vinnslu eftir 10. nóvember en vorum klár í að hefja hana aftur í janúar í fyrra þegar annar sigdalur myndaðist og tjónaði húsnæði okkar talsvert. Við höfum verið í biðstöðu síðan þá og erum í viðræðum við NTÍ varðandi bætur fyrir húsnæðið en það verður talsvert verk, tækin okkar eru stór og þung og húsnæðið hallar mikið þó ekki hafi orðið altjón. Við vorum komin á gott skrið og farin að framleiða úr meira en 60 tonnum af roði á viku og ef við hefðum haldið slíkum dampi þá var ljóst að framtíð fyrirtækisins var björt. Það er mikil þekking og reynsla búin að myndast, nýir markaðir voru búnir að opnast svo það er alveg á hreinu í mínum huga að Marine Collagen hefur alla burði til að verða flott fyrirtæki í framtíðinni. Verð á roði fimmfaldast með tilkomu félagsins sem er gríðarlega jákvætt fyrir sjávarútveginn. Nú verðum við bara að bíða og sjá hvernig málin þróast en ég trúi því að Marine Collagen komist aftur af stað,“ sagði Erla Ósk að lokum.