Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Viðskipti

760 manns starfandi í Grindavík hjá 34 fyrirtækjum og Grindavíkurbæ
Páll Jónsson GK við Miðgarð í Grindavík og Bergur VF kemur til hafnar á mánudaginn. VF/ Jón Steinar Sæmundsson
Föstudagur 24. janúar 2025 kl. 06:03

760 manns starfandi í Grindavík hjá 34 fyrirtækjum og Grindavíkurbæ

Alls sóttu 760 starfsmenn vinnu í Grindavík miðvikudaginn 15. janúar sl. Þeir eru starfsmenn hjá 34 fyrirtækjum og Grindavíkurbæ. Þetta koma m.a. fram í könnun vegna atvinnustarfsemi í Grindavík en hún hefur aukist að undanförnu þó umfangið sé ekki næstum því það sama og var fyrir rýmingu í nóvember 2023. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem var framkvæmd til að öðlast nánari skilning á umfangi atvinnurekstrar í bænum. Send var út könnun á fyrirtæki sem vitað var að væru með starfsemi í Grindavík. Í kjölfarið var hringt á eftir svörum til þeirra sem ekki svöruðu.

Könnunin náði aðeins til þeirra starfsmanna sem mæta til vinnu í Grindavík, en ekki þeirra sem vinna fyrir grindvísk fyrirtæki utan sveitarfélagsins. Í þessum tölum eru heldur ekki taldir starfsmenn fyrirtækja með skráð aðsetur utan Grindavíkur, t.d. verktakar sem vinna við varnargarða eða utanaðkomandi þjónusta fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi.

Helmingur starfsfólks innan þéttbýlis

Könnunin leiddi einnig í ljós að nákvæmlega helmingur starfsfólks var að störfum innan þéttbýlismarka Grindavíkur. Að auki eru í Grindavík að störfum starfsmenn fyrirtækja með aðsetur annars staðar, þar á meðal verktakar sem vinna við varnargarða og þjónustuaðilar tengdir sjávarútvegi.

Stuðningur og endurmat í framtíðinni

Þrátt fyrir áskoranir hafa umsvif atvinnulífs í Grindavík verið að aukast. Stefnt er að því að endurtaka könnunina næstu mánuði til að fylgjast með þróuninni.

Með áframhaldandi stuðningi stjórnvalda og samstöðu um að styðja við atvinnulífið í Grindavík er vonast til að starfsfólki fjölgi enn frekar og að atvinnulífið verði tilbúið þegar Grindvíkingar snúa aftur heim, segir á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Fólk geti mátað sig við breyttan veruleika

Vísir hf. er stærsta sjávarútvegsfyrirtækið í Grindavík og er með u.þ.b. 150 af þessum 250 manns sem starfa í sjávarútveginum. Fyrirtækið er komið á full afköst og tvö skip lönduðu á mánudaginn, Bergur frá Vestmannaeyjum og Páll Jónsson.

Pétur Pálsson er framkvæmdastjóri Vísis.

„Bergur og Páll Jónsson lönduðu báðir fullfermi og veitir ekki af, við þurfum mikinn fisk í vinnslurnar enda höfum við unnið á fullum afköstum undanfarnar vikur. Vertíðin er að komast á fullt og það verður líf og fjör við höfnina á næstunni.

Það sem vantar núna er að forsvarsfólk Þórkötlu breyti um tón og reyni að gera sitt til að laða Grindvíkinga aftur að Grindavík með því að hollvinasamningurinn taki smávægilegum breytingum með það markmiði að auðvelda fólki að máta sig við breyttan veruleika og geti látið á það reyna hvernig því líði að dvelja í heimabænum sínum að næturlægi. Einnig þarf að teikna upp framhaldið hjá fólki sem myndi setja stefnuna á að kaupa húsin sín til baka. Enn hefur ekkert komið fram sem breytir stefnunni hjá Vísi og ég ætla áfram að vera bjartsýnn á framtíð Grindavíkur,“ sagði Pétur að lokum.