Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn

Viðskipti

Kaffi Gola búin að opna á Hvalsnesi
Nýja kaffihúsið á Hvalsnesi. VF/Hilmar Bragi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 15. ágúst 2024 kl. 07:34

Kaffi Gola búin að opna á Hvalsnesi

Fullt út úr dyrum allan daginn

„Við opnuðum á laugardaginn kl. 12 og má segja að fullt hafi verið út úr dyrum allan daginn. Ekki skemmdi fyrir að bjóða upp á ljúfa tóna á opnunardeginum en við eigum eftir að halda almennilegt opnunarhóf,“ segir Magnea Tómasdóttir, ein fjögurra systra sem ættaðar eru frá Hvalsnesi. Þær systur hafa opnað kaffihúsið Kaffi Golu og byrjunin lofar góðu.

Magnea segir að löng hefð sé fyrir því að taka á móti gestum í Hvalsnesi og eins hefur tónleikaröðin Tónar í Hvalsneskirkju farið þar fram undanfarin ár.



„Við erum ættaðar héðan og þessi hugmynd kviknaði, að byggja kaffihús á grunni gamla fjóssins og hlöðunnar sem hér var, og ákváðum að það myndi heita Gola. Það hefur alltaf mikill fjöldi gesta komið að Hvalsnesi enda er aðdráttarafl kirkjunnar og staðarins í heild sinni mikið og því teljum við góðan grundvöll fyrir að reka hér kaffihús.

Við opnuðum á laugardaginn kl. 12, vorum bara með einfaldar veitingar, kökur, vöfflur og rækjubrauð, allt sem við gerðum frá grunni, það eina sem vantaði að við hefðum veitt laxinn sjálfar.

Viðreisn
Viðreisn

Við erum að þróa matseðilinn en ég get þó gefið út að við munum alltaf vera með sjávarréttasúpu á boðstólnum. Það var mjög góð mæting alla helgina og ekki skemmdi fyrir að fá saxófónleikarann Óskar Guðjónsson ásamt færeyskum vinum sínum til að halda tónleika inni hjá okkur, það var góður góður andi í salnum á meðan tónarnir ómuðu og á ég ekki von á öðru en sá andi muni haldast um ókomna tíð.

Venjulega eru tónleikar haldnir í kirkjunni en þá verður gott fyrir tónleikagesti að koma við hjá okkur áður og fá sér hressingu. Við munum vera með opið frá 9-17 alla daga, viljum geta boðið aðilum upp á að leigja salinn eftir klukkan fimm en hægt er að halda alls kyns viðburði hjá okkur,“ sagði Magnea að lokum.