Viðskipti

Krákan er komin í Reykjanesapótek
Krákukonan Lára Björnsdóttir.
Föstudagur 1. desember 2023 kl. 06:05

Krákan er komin í Reykjanesapótek

„Ég byrjaði að gera skartgripi í kringum 2014–2015 og notaði  gamalt skart, perlur og ýmislegt fleira sem ég endurnýtti. Það þróaðist í að ég fór að hanna skart undir nafninu Krákan,“ segir Lára Björnsdóttir, hönnuður Krákunnar, en hún flutti árið 2020 í Innri-Njarðvík.

Lára bjó á Spáni fyrir Covid og þar byrjaði Krákan að þróast. „Ég hafði góðan aðgang að heildsölu til að fá efni. Efnið sem notað er í Krákuna er málmur sem er húðaður og hefur reynst vel. Fyrst gerði ég krákuhálsmen með svörtu leðurbandi og svo hefur bæst í úrvalið keðjukráka, krákumen, eyrnalokkar og nýjast er tvöfalt krákumen. Þessar vörur hafa verið til sölu á Garðatorgi en nýverið bættist Reykjanesapótek á Fitjum við. Ég er mjög spennt að sjá viðtökurnar hér á Suðurnesjum. Þetta eru skemmtilegar gjafir og koma í gjafaöskjum ef fólk vill,“ segir Lára en hún á ættir að rekja í Hafnir á Reykjanesi. „Forfeður mínir bjuggu í Kotvogi í Höfnum og maðurinn minn er héðan úr Njarðvík. Ég ætlaði mér aldrei að flytja til Suðurnesja en er mjög ánægð að hafa gert það enda með Suðurnesjablóð í æðum,“ segir Lára.