Viðskipti

Matur og alls kyns upplifun á Sjávarsetrinu
Arna Björk Unnsteinsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Símoni Hauki Guðmundssyni.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 24. ágúst 2024 kl. 06:28

Matur og alls kyns upplifun á Sjávarsetrinu

„Við leggjum mikið upp úr notalegu andrúmslofti, það telur ekki minna en bragðgóður matur að okkar mati,“ segir Arna Björk Unnsteinsdóttir, annar eigenda Sjávarsetursins en hún á og rekur staðinn ásamt eiginmanni sínum, Símoni Hauki Guðmundssyni. Staðurinn sem áður hét Vitinn og var lengi við lýði í Sandgerði, fékk nýja eigendur og nafn í miðjum COVID-faraldri, það voru fyrst tvenn hjón sem ráku staðinn en Arna og Símon hafa verið ein í rekstrinum síðan í fyrra. Fyrir utan að vera veitingastaður, er Sjávarsetrið líka pöbb Sandgerðinga en mikið er um alls kyns uppákomur, allt frá lifandi tónlist yfir í bingó.

Staðurinn gerði til að byrja með mest á út á sjávarfang en Arna sér fyrir sér að breyta áherslunum aðeins.

„Þegar við byrjuðum lögðum við áherslu á sjávarfangið en erum að hugleiða að minnka það hlutfall aðeins á matseðlinum. Ferðafólk er uppistaða gesta á kvöldin, eins fáum við marga sem eru annað hvort nýkomnir úr flugi eða á leið í flug og þá er þessi týpíski skyndibiti vinsælastur en við munum halda áfram með ostrur, þær hafa alltaf verið vinsælar, við erum með þær lifandi í körum í bakgarðinum og þar getur fólk líka setið á blíðviðrisdögum. Við erum alltaf með hádegismat sem er mikið sóttur af vinnandi fólki og á kvöldin erum við allt frá því að vera tilvalinn staður fyrir rómantískt stefnumót, yfir í að geta gripið í eitthvað fljótlegt. Við fáum alltaf talsvert af hópum, allt frá nemendum sem eru hinum megin við götuna í Fræðasetrinu, yfir í allskyns ferðahópa á sumrin en um helgar bjóðum við upp á þriggja rétta matseðil.

Aðstaðan hjá okkur er mjög góð myndi ég segja, í hádeginu er algengt að menn fái sér kríu í sófanum og oft er gripið í bæði píanóið og gítarinn. Við leggjum mjög mikið upp úr persónulegri þjónustu og viljum hafa heimilislegt og notalegt andrúmsloft, við fáum alltaf góða einkunn hjá kúnnanum, ekki bara fyrir matinn heldur andrúmsloftið líka.“

Lifandi tónlist

Sjávarsetrið er líka samkomustaður Sandgerðinga, mjög algengt er að boðið sé upp á lifandi tónlist en margar aðrar uppákomur eiga sér líka stað.

„Þar sem við stöndum vaktina líka í eldhúsinu ákváðum við að vera bara með leyfi til eitt, það hefur gefið góða raun og þá eru Sandgerðingar og aðrir gestir einfaldlega mættir fyrr til að skemmta sér. Eigum við ekki að segja að þetta sé eitt af því jákvæða sem COVID leiddi af sér, ég held að svona skemmtanaform sé miklu hollara og betra, í stað þess að vera að langt fram eftir nóttu. Við erum mjög oft með trúbador eða hljómsveit og svo getum við líka boðið upp á karaoke, það er alltaf góð stemning sem myndast hjá okkur, staðurinn er hæfilega stór svo auðvelt er að ná upp góðri stemningu. Við höfum ekki verið að gera út á enska boltann, oft eru komnir matargestir sem vilja bara upplifa rólegheit sem passar kannski ekki alveg við upplifun aðdáanda enska boltans en fólk getur að sjálfsögðu haft samband og athugað stöðuna, alltaf hægt að skella boltanum á skjávarpann ef aðstæður eru fyrir hendi. Í raun getum við boðið hópum upp á allskyns viðburði, það eina sem þarf að gera er að hafa samband og við reynum að verða við öllum óskum.

Við verðum með konukvöld á miðvikudagskvöldinu þegar bæjarhátíð Suðurnesjabæjar fer fram, Marta Eiríks sem er héðan er að gefa út nýja bók og mætir til að kynna hana. Tvær söngdívur mæta og skemmta og svo á laugardagskvöldinu verðum við með trúbador að lokinni flugeldasýningunni. Venjuleg opnun þar fyrir utan og við hlökkum til að taka á móti Sandgerðingum og Garðbúum að sjálfsögðu líka, já og bara öllum gestum,“ sagði Arna að lokum.

Ostrurnar eru vinsælar.

Sjávarsetrið er til húsa þar sem Vitinn var til margra ára.