Viðskipti

Öll starfsemi Vísis til Grindavíkur eftir sjómannadag
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 1. júní 2024 kl. 06:03

Öll starfsemi Vísis til Grindavíkur eftir sjómannadag

Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík.

„Við unnum u.þ.b. 2.200 tonn í Helguvík og erum að klára þar fyrir sjómannahelgina og verðum komin með alla vinnsluna til Grindavíkur eftir hana,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík.

Pétur bar saman aðdragandann að þessari sjómannahelgi og fyrir ári síðan.

„Auðvitað er munur á þessu hjá okkur núna eða í fyrra, þá var öll starfsemin í Grindavík og skipin okkar lönduðu þar. Við erum þó búnir að vera vinna í Grindavík síðan um páska í vaxandi vinnslu, eða í tvo mánuði án truflunar, og síðasta starfsfólkið flyst frá Helguvík til Grindavíkur strax eftir sjómannahelgi. Við náðum að vinna þar um 2.200 tonn á gamla mátann og síðasti fiskurinn sem var flattur var í kringum vertíðarlokin, 11. maí. Svo eru afurðirnar búnar að vera í salti og verður því sem eftir er pakkað fyrir helgi og þar með lýkur vinnslu í Helguvík, í bili að minnsta kosti. Við stefnum að því að koma vinnslunni í sem eðlilegast horf í Grindavík sem fyrst þó eitthvað muni vanta uppá full afköst fram á haustið. Búseta fólks er ekki vandamál því flestir hafa færst sig norðar á skagann og eini munurinn er að í stað þess að vera þrjár mínútur til vinnu, tekur starfsfólkið um tuttugu mínútur að komast á vinnustaðinn. Við höfum verið með skrifstofuaðstöðu í Katrínartúni í Reykjavík og í Helguvík en flestir á skrifstofunni verða komnir til Grindavíkur eftir helgina. Allar þessar áætlanir byggja á því að ekki verði alvarlegri atburðir en nú þegar hafa orðið.“

Hvernig sér Pétur sjómannadaginn á næsta ári fyrir sér?

„Það er ómögulegt að spá fyrir um það og þar ráðum við ekki för. Það sem við getum gert og erum að gera er að láta á það reyna hvort hægt sé að stunda okkar atvinnurekstur hér með öryggi að leiðarljósi og ásættanlegri afkomu rekstrarins. Er hægt að aðlaga fólk og fyrirtæki þessum nýja raunveruleika? Ef það tekst þá er Grindavík hólpin og þegar og ef fólk finnur sig öruggt í bænum með sínar fjölskyldur þá er enginn staður betri til uppbyggingar og endurheimt atvinnulífs vegna staðsetningar sinnar og öllu því húsnæði sem þá kemur aftur inn á markaðinn, bæði til búsetu og atvinnurekstrar. Á meðan á þessari aðlögun stendur skiptir öllu máli að tryggingaverndin sé í lagi við þessar óvenjulegu aðstæður. Það er verið að vinna í henni af hálfu stjórnvalda og ég er bjartsýnn á verkefnið af þeirri ástæðu.“ sagði Pétur að lokum.