Viðskipti

Tryggja bestu kjörin í heimabyggð
Ásdís Ragna Valdimarsdóttir (t.v.) og Kristín Gunnarsdóttir.
Miðvikudagur 5. júní 2024 kl. 11:08

Tryggja bestu kjörin í heimabyggð

Kjörbúðin býður upp á yfir 1.500 lykilvörur á lágvöruverði, og hefur nú merkt þær með grænum punkti til að auðvelda viðskiptavinum að þekkja þær. Lykilvörur eru þær vörur sem eru mest keyptar af nágrönnum hverrar verslunar.

„Lykilvörur á lágvöruverði“ er hluti af þeirri stefnu Kjörbúðarinnar að tryggja hagkvæma verslun í heimabyggð, en lykilvörur eru þær vörur sem heimafólk kaupir mest inn fyrir heimilið. Nýlega var vörunum fjölgað úr 1.000 í 1.500, og eru þær nú allar merktar með grænum punkti á hillumiðanum. Viðskiptavinir geta treyst því að vara merkt með grænum punkti sé alltaf á sambærilegu verði og í lágvöruverðsverslun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá versluninni.

„Hugmyndin að grænu punktunum spratt upp frá athugasemdum viðskiptavina okkar um það hvernig við getum best mætt óskum þeirra um lægra vöruverð. Valið á þessum vörum byggir á því hvaða vörur eru mest seldar bæjarbúum og nærsveitungum hverrar verslunar, og getum við því verið sveigjanleg í því vali til að mæta kröfum og þörfum á hverjum stað. Okkar loforð er að verðið á punktamerktum vörum standist alltaf samanburð við verð á sambærilegum vörum hjá lágvöruverðsverslunum.“ segir Ásdís Ragna Valdimarsdóttir, markaðsstjóri Kjörbúðarinnar, í tilkynningu.

Sameiginlegir hagsmunir verslunar og nærsamfélags

Kjörbúðin er sú verslunarkeðja sem rekur flestar verslanir utan höfuðborgarsvæðisins, eða 16 talsins, sem felur í sér ákveðna stærðarhagkvæmni. Þá hagkvæmni nýtir Kjörbúðin sér til að halda uppi góðum rekstri, og getur þar með komið betur til móts við þarfir kjarna-viðskiptavina.

„Að reka matvöruverslun í byggðum þar sem fólksfjöldinn ber ekki stórar lágvöruverðs-verslanir krefst mikillar útsjónarsemi. Við höfum gripið til margra aðgerða til að halda vöruverði sem lægstu og höfum spyrnt á móti verðhækkunum birgja. Það gerum við til að tryggja íbúum þjónustu og verslun í heimabyggð, en líka til að vera raunhæfur kostur fyrir íbúana. Þannig halda hagsmunir okkar áfram að liggja saman.“ segir Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Kjörbúðarinnar, í tilkynningunni.

Kjörbúðin fetar ákveðinn milliveg í verðlagningu þannig að verslunin standi sjálf undir rekstrinum, því er verð almennt hærra en í öðrum lágvöruverðs-verslunum. Til að koma til móts við fastakúnna hefur Kjörbúðin hins vegar um árabil boðið helstu lykilvörur heimilisins á lágvöruverði.

„Í litlum samfélögum sinna fyrirtæki sem veita grunnþjónustu stóru hlutverki, og leggjum við höfuðáherslu á að gera það vel. Sérmerking á skilgreindum lykilvörum er lykilþáttur í áframhaldandi uppbyggingu Kjörbúða í heimabyggð, við hlökkum til að halda áfram á þessari vegferð,“ bætir Kristín við.