Viðskipti

Yfirbyggð þurrkví og fyrsta nýsmíði Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur í áratugi
Athafnasvæði Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur á vormánuðum 2020. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 18. ágúst 2023 kl. 06:15

Yfirbyggð þurrkví og fyrsta nýsmíði Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur í áratugi

Þjónustar í dag minni og meðalstór skip en yfirbyggð þurrkví mun valda byltingu

Yfirbyggð þurrkví Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur [SKN] í skipaþjónustuklasa við Njarðvíkurhöfn mun valda byltingu í þjónustu við íslensk skip. Síðastliðin þrjú ár hefur staðið yfir undirbúningur að gerð og skipulagi mannvirkisins. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning og skipulag aðstöðunnar sem kölluðu á breytingar aðalskipulags og deiliskipulags. Þessir ferlar hafa nú allir verið uppfylltir. Skipulagsstofnun afgreiddi málið frá sér 13. júlí síðastliðinn. Verkefnið hefur verið unnið með góðum stuðningi frá bæði Reykjaneshöfn og Reykjanesbæ.

Lúðvík Börkur Jónsson, fráfarandi stjórnarformaður SKN, fór yfir stöðuna hjá skipasmíðastöðinni með hluthöfum á fundi í sumar. Í máli hans kom fram að yfirbyggð þurrkví sem mun geta sinnt þjónustu í öllum veðrum við stærstu fiskiskip landsins ásamt öðrum skipum sem óska eftir skjótri og öruggri þjónustu. Með tilkomu nýju yfirbyggðu þurrkvíarinnar getur SKN þjónustað alla flóruna og óhætt er að segja að bylting verði í þjónustu við skip, sem nær til nútíma skipaflota. Lúðvík Börkur sagði að fyrirtæki tengd sjávarútvegi hafi heldur ekki látið sitt eftir liggja til að gera hugmyndina að veruleika. Þau þekkja mikilvægi og tækifæri að baki yfirbyggðri þurrkví.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur var stofnuð í lok seinni heimsstyrjaldarinnar og er vel búið fyrirtæki í dag með 78 ára sögu og 50% eigið fé. Árleg velta fyrirtækisins er um 750 milljónir króna. Þegar fyrirtækið var stofnað var íslenski fiskiskipaflotinn um 20.000 tonn. Hann hefur sjöfaldast að stærð síðan þá og er í dag yfir 150.000 brúttótonn. Á sama tíma og brúttó stærð skipa eykst, fækkar slippum í landinu. Enginn íslenskur slippur hefur getað tekið við stærstu fiskiskipum flotans, sem eru að stækka enn frekar og er nýrri yfirbyggðri þurrkví ætlað að svara þeirri þörf.

Í dag er SKN að þjónusta minni og meðalstór skip sem er um 38% af heildarmarkaðnum. Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur á nýjan leik hafið nýsmíðar eftir 40 ára hlé. Nýtt skip, Margrét GK, verður afhent Stakkavík á haustmánuðum. Stærð skipsins liggur í stærstu leyfilegum mörkum krókakerfisins. Þetta skip getur veitt um það bil 2.000–2.500 tonn ári, sem er sambærilegt og minni togarar voru að veiða á árum áður. Með raðsmíði nýrra gerðar af stálbátum er stigið nýtt skref í átt til þróunar félagsins og íslenska fiskiskipaflotans. Þá er nýjung í takt við nútímakröfur að skipin munu minnka olíunotkun um 20–25%. „En ekki síður er mikilvægt að það er sterkbyggt stálskip með þrautreyndar lausnir úr vertíðarflotanum og á að geta þolað það álag sem fylgir slíkri útgerð. Talsverð eftirspurn hefur verið eftir þessari lausn og ljóst að margir bíða eftir því að sjá hvernig til tekst,“ sagði Lúðvík Börkur á hluthafafundinum. Takist raðsmíðaverkefnið vel er ekki ólíklegt að SKN geti tvöfaldað árlega veltu fyrirtækisins.

Lúðvík Börkur Jónsson, fráfarandi stjórnarformaður Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, og Árni Sigfússon, sem tekið hefur við keflinu.

Lúðvík Börkur lét af stjórnarformennsku SKN í sumar og við keflinu tók Árni Sigfússon. „Ég féllst á að taka við keflinu sem formaður stjórnar til að fylgja eftir uppbyggingu þurrkvíar og styrkja eigendahópinn að Skipasmíðastöð Njarðvíkur,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir.

Tölvugerð mynd sem sýnir nýja þurrkví, ásamt þeirri eldri, við Skipasmíðastöð Njarðvíkur.