Aðsent

Á endanum dæmum við samfélagið á framkomu við ellilífeyrisþega
Þriðjudagur 19. nóvember 2024 kl. 18:00

Á endanum dæmum við samfélagið á framkomu við ellilífeyrisþega

Í síðustu viku sendi ég inn grein „Byrjum á börnunum“ þar sem ég rakti mikilvægi þess að tryggja velferðina með því að byrja á börnunum. Ég tel samt mikilvægt að huga að öllum jaðarsettum hópum til að tryggja félagslegt jafnrétti fyrir alla. Því finnst mér að dæma megi samfélög á framkomu og umhyggju fyrir ekki bara börnum, heldur einnig fíklum, fátækum, öryrkjum, innflytjendum og ellilífeyrisþegum.

Á undanförnum árum hafa vinstri græn komið að umtalsverðri hækkun atvinnuleysisbóta, hækkað félagslegan húsnæðisstuðning, eflt heilsugæslur og komið á geðheilsuteymum um allt land. Tannlæknakostnaður eldra fólks og örorkulífeyrisþega var lækkaður, félagslegum viðbótarstuðningi eldra fólks komið  á og frítekjumark atvinnutekna hækkað eftir áralanga kyrrsetu. Fjölgað NPA-samningum og aukið fjárframlög til sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk svo eitthvað sé nefnt.

SSS
SSS

Við þurfum nú umboð kjósenda til að halda áfram:

  • Auka enn framboð af félagslegu húsnæði
  • Hækka örorku- og atvinnuleysisbætur
  • Ljúka við heildarendurskoðun örorkukerfis, sem er hafin
  • Tryggja að persónuafsláttur nýtist þeim sem þurfa hann mest
  • Tryggja að eldra fólk geti búið heima eins lengi og það vill með því að samþætta þjónustu með áherslu á fjölgun endurhæfingar- og dagþjálfunarrýma

Hvernig við búum að jaðarsettum hópum, fólki sem þarf virkilega á samfélaginu að halda er stóri dómur á hversu gott samfélagið er. Ef við svo getum ekki búið gamla fólkinu okkar áhyggjulaust ævikvöld, þá er það til mikillar minnkunar fyrir okkur öll. Samheldið samfélag þar sem félagslegt réttlæti er í forgrunni er samfélag sem ég vil taka þátt í að búa til. Samfélag inngildingar og virðingar fyrir öll!

Þormóður Logi Björnsson

Höfundur skipar 3. sæti lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi