Fréttir

„Þetta var bara óraunverulegt“
Georg V. Hannah hefur verið í versluninn í rúm fimmtíu ár. Hér er hann í búðinni skömmu eftir lætin.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 28. febrúar 2020 kl. 09:38

„Þetta var bara óraunverulegt“

Maður gekk berserksgang með öxi í Úra- og skartgripaverslun Georgs V. Hannah. Náðu að loka manninn af þegar hann gekk út, vopnaðir hamri og ryksuguröri

„Ég upplifði okkur kannski ekki í lífshættu þó vissulega höfum við verið það. Ég hafði meiri áhyggjur af gömlu hjónunum, mömmu og pabba, því maðurinn hélt á öxi og sveiflaði henni að okkur þar sem við stóðum í hurðaropinu inni í búðinni. Þetta er auðvitað mjög óskemmtileg lífsreynsla sem maður hefði viljað sleppa við,“ segir Eggert Hannah, gullsmiður, en á miðvikudag í síðustu viku kom maður inn í Úra- og skartgripaverslun Georgs V. Hannah, sem Eggert rekur, dró upp öxi og hóf að berja henni í eitt borð verslunarinnar sem geymdi úrval skartgripa. Inni í versluninni voru Eggert og foreldrar hans, Georg og Eygló, en hún var að afgreiða konu þegar maðurinn, sem er af hælisleitandi, hóf barsmíðina inni í búðinni.

Eggert segir að þetta hafi verið mjög sérstakt að sjá manninn sem barði með öxinni stöðugt í borðið þar sem margar af dýrari vörum búðarinnar voru, þá sérstaklega gullarmbönd. Hann týndu þau og fleira til í poka í rólegheitum en þegar feðgarnir komu að honum í þeirri von að reka hann út ógnaði hann þeim með öxinni. Eggert segist hafa reynt að finna eitthvað til að verja sig með og fann tvo hamra en faðir hans hringdi í neyðarlínuna á sama tíma. Georg tók svo til þess ráðs að munda ryksugurör og segist hafa notað það til að halda manninum frá en þegar feðgarnir stóðu í hurðaropinu fyrir aftan afgreiðsluna og reyndu að reka manninn út, gekk hann að búðarkassanum og lamdi í hann ítrekað með öxinni þannig að hann eyðilagðist, án þess þó að hann opnaðist. „Hefði maðurinn bara beðið um peningana hefði ég líklega bara rétt honum þá úr kassanum en hann var vitstola og lét síðan öxina vaða mörgum sinnum í næsta borð hinum megin við búðarkassann, að því er virtist bara til að eyðileggja,“ rifjar Eggert upp. Skömmu áður hafði móðir hans og viðskiptavinur hennar komið sér inn fyrir í versluninni.

Í eyðileggingaræðinu henti maðurinn svo öxinni með tilþrifum inn í skáp sem er við hlið hurðaropsins en gekk svo á brott út úr versluninni. Feðgarnir voru ekki alveg sáttir með gang mála svo Eggert hljóp út á eftir honum, vopnaður hamri, og Georg faðir hans fylgdi í kjölfarið með ryksugurörið og tókst þeim að loka hann af fyrir utan verslunina. Maðurinn virtist örvinglaður, settist niður og lagðist svo á stéttina. Skömmu síðar kom lögreglan á vettvang og handsamaði hann. Maðurinn var ekki bara með öxi með sér því í poka var hann einnig með stóra sveðju og járnstöng.

Eygló og Georg sem hafa verið í versluninni í rúm fimmtíu ár segjast aldrei hafa lent í öðru eins. Eggert, sonur þeirra, sem vann lengi hjá þeim en tók við versluninni fyrir þremur árum, segir það sama: „Þetta vara bara óraunverulegt,“ og faðir hans tekur undir það. „Ég vissi ekki hvernig við áttum að bregðast við. Það var of mikil áhætta að vaða í hann, vopnaðan öxi. En við vildum alla vega halda honum frammi í búðinni og otuðum að honum rörinu og hamri,“ segir Georg.

Eygló segir að það hafi ekki mátt miklu muna að hún hefði bara verið ein í búðinni og þakkar fyrir það að feðgarnir hafi verið á staðnum. Þau segja öll að tíminn hafi verið mjög lengi að líða bíðandi eftir lögreglunni. „Þetta var mjög skrýtið og tíminn var lengi að líða á meðan maðurinn var inni. Við héldum alltaf að lögreglan væri á leiðinni en okkur fannst hún vera lengi á staðinn. Við upplifðum samtalið við neyðarlínuna svolítið sérstakt og fannst eins og skilaboðin kæmust ekki nógu hratt þaðan til lögreglunnar. Það liðu tæpar sex mínútur frá því hringt var í neyðarlínuna og þar til lögreglumenn komu á staðinn og tóku manninn. Við hefðum viljað að það hafi verið styttri tími því þetta var ekki beint skemmtilegt ástand.“

Maðurinn tók skartgripi fyrir um eina og hálfa milljón króna og skemmdir í búðinni voru talsvert miklar en með hjálp góðra manna tókst að fá nýtt gler í borðin, nýjan peningakassa og posa – og eftir tiltekt að opna daginn eftir.

„Við erum að jafna okkur á þessu. Líklega vorum við heppin því það hefði getað farið verr. En búðin er opin og allt eins og áður. Við erum hér að bjóða sömu þjónustu og hefur verið í rúma hálfa öld með viðgerðir og skartgripasölu og ætlum að halda því áfram þó gömlu hjónin séu bara hér í hlutastarfi núna,“ sagði Eggert Hannah.

Maðurinn hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Eins og sjá má á myndunum gekk mikið á í þessari árás.