Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Fréttir

Dramatík í pólitíkinni í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 1. júní 2022 kl. 10:12

Dramatík í pólitíkinni í Grindavík

Þó nokkur styr hefur staðið um meirihlutaviðræður í bæjarpólitíkinni í Grindavík en í nýafstöðnum kosningum vann Miðflokkurinn þar í bæ, einn flokka X-M á Íslandi, stórsigur.  Af sex sveitarstjórnarmönnum á landsvísu, þá á X-M í Grindavík þrjá.  Hallfríður Hólmgrímsdóttir og hennar fólk í Miðflokknum í Grindavík, vann eins og áður sagði stórsigur og fór úr einum bæjarfulltrúa í þrjá.

Nokkuð hávær krafa var á samfélagsmiðlum sumra Grindvíkinga, um að Rödd unga fólksins bæri skylda að mynda meirihluta með Miðflokknum og var athyglisvert að fylgjast með umræðunni. Það fór þó ekki betur en svo að upp úr slitnaði og á endanum fóru leikar þannig að Miðflokknum var haldið utan við meirihluta og hann myndaður af Sjálfstæðisflokknum (2), Rödd unga fólksins (1) og Framsóknarflokknum (1).

Miðflokkurinn birti þessa yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni á sunnudag og virðist ekki ríkja ánægja með þennan nýja meirihluta Grindvíkinga hjá flokknum:

Sæl verið þið kjósendur/íbúar/Grindvíkingar!

„Svo fór um sjóferð þá, B, D og U listinn búin að ná saman og gefa það út á 15ánda degi sem er skv. sveitarstjórnarlögum síðasti dagur sem þau þurftu til þess að gefa þetta út. Hér er látið líta út eins og mikil vinna hafi verið í gangi með skipun meirihluta, vinna sem við vorum búin að sjá sl. 12-18 mánuði að var í undirbúningi og úrslit kosninga myndi aldrei skipta máli nema einhver hefði fengið hreinan meirihluta.

Við lesum viðræður U listans við okkur, sem sögðust hafa komið aftur til okkar vegna pressu, sýndarmennsku og m.v. þann fund sem átti sér stað þá með þremur af þeirra fulltrúum hefði allan daginn átt að vera líklegur annar fundur og ræða málin áfram. En eins og áður segir, þá vorum við búin að lesa í aðstæður og sáum hvað var í gangi þarna. U listinn vildi sem minnstu ábyrgð inn í þann meirihluta sem þau gengu inn í og stýra skipulagsnefnd í stað þess að fá formennsku með okkur í 2-3 nefndum og forseta bæjarstjórnar í 4 ár. Þau fá hann eingöngu í eitt ár og einn í nefnd í öllum nefndum og guð má vita hvort þau fá nokkurn annan formann fyrir utan skipulagsnefnd. Þau sem lögðu svo mikla áherslu á að þeirra fulltrúar væru að fá reynslu í nefndum.

Þegar viðræður hófust við B listann þá mættu þau einnig þrjú saman. Þau sögðu eftir mjög stuttan fund ætla að ræða við baklandið sitt og voru svakalega hissa að við leituðum til þeirra um myndun meirihluta. Við töldum það eðlilegt að þau kæmu á eftir U listanum í viðræður þó við værum klofningur út frá þeirra flokki. En þau voru greinilega ekki á sama máli sem endanlega staðfesti okkar grun, að þó e-r símtöl hafi átt sér stað á kosninganóttina frá D lista til U og B þá var undirbúningur löngu hafinn. Svona er nú þessi blessaða pólitík, rúmlega 1600 manns kjósa fólkið en ca. 15-20 manns (ca. 1% af kjósendum) taka svo ákvörðun um hver tíkin á að vera næstu fjögur árin.

En það góða við þetta er það, að við í M listanum fáum tvo nefndarmenn í hverja einustu nefnd þökk sé ykkur. Við munum hafa mikið aðhald á þessari bæjarstjórn en munum alltaf styðja allt sem bætir þjónustu bæjarbúa og skynsamlega fjárfestingu. Þessi nýmyndaði meirihluti veit hvað þau þurfa að gera til að vera kosin aftur eftir 4 ár, það er að fara eftir stefnuskrá X-M listans í Grindavík því það var það sem íbúar Grindavíkur kölluðu helst eftir. Þá verður einfalt að samþykkja hlutina.

Breytingar þær sem þið kæru íbúar Grindavíkur kusuð voru hunsaðar af þessum fulltrúum þessara flokka þ.a. þið vitið hvað skal kjósa eftir fjögur ár ef þessi meirihluti stendur sig ekki sem skyldi. Samtals TÖPUÐU fulltrúar þessa nýmyndaða meirihluta 8,24% á meðan við jukum við okkur 18,86% og erum langstærsti listinn í Grindavík. Það verður áhugavert að sjá framkvæmdaáætlun þessa meirihluta og málefnasamning þeirra og sjá hvað ber á milli okkar stefnuskrár og þeirra.

Þið getið samt treyst því kæru íbúar í Grindavík að við munum vera sýnileg á kjörtímabilinu, við munum vera vakandi og öflugur minnihluti! Við erum með þrjá flotta bæjarfulltrúa og fjöldann allan af frábæru fólki í nefndum sem eru að fara að þjóna ykkur næstu fjögur árin. Við hlökkum til verkefnisins.

Kær kveðja frá öllum á M listanum og stjórn deildarinnar í Grindavík sem þið getið alltaf leitað til.“

Helga Dís Jakobsdóttir, Rödd unga fólksins:

„Orðræða og vinnubrögð Miðflokksins á landsvísu hugnast okkur ekki“

„Miðflokkurin bauð okkur á fund sunnudaginn eftir kosningar, sem við þáðum. Á fyrsta fundi ræddum við um traust og um Miðflokkinn sjálfan. Margir vilja ekki bera saman flokka í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Það er frekar erfitt þegar oddviti Miðflokksins í Grindavík er í stjórn Miðflokksins á landsvísu. Orðræða og vinnubrögð Miðflokksins á landsvísu hugnast okkur ekki. Eftir samtal frá þeirra fólki við okkur, ákváðum við að taka annan fund þar sem málefnin og stefnuskrár flokkanna yrðu bara rædd.

Eftir að hafa hitt mitt bakland var ákveðið að hafa annan fund með Miðflokknum og að honum loknum yrði tekin ákvörðun. Þetta strandaði fyrst og fremst á trausti og við vorum ekki sammála þeim um hvernig fjármagna og forgangsraða ætti hlutunum. Ég hringdi því í oddvita flokksins á föstudag og tjáði henni að við vildum ekki fara í formlegar viðræður og helsta ástæðan væri traust. Eftir það gáfum við yfirlýsinguna okkar út. Það kom mér því á óvart að heyra oddvita flokksins í morgunútvarpinu á Rás 2 tala um að það eina sem við settum fyrir okkur væri framganga ákveðinna þingmanna, sem er alls ekki sú ástæða sem ég gaf henni upp í símtali fyrir helgi og í yfirlýsingunni kemur skýrt fram að kjarni málsins er traust. Í þessari yfirlýsingu Miðflokksins  er sagt beinum orðum að þessi vika sem við í Rödd unga fólksins, eyddum í þessar meirihlutaviðræður, hafi bara verið sýndarmennska því Miðflokkurinn sá á undanförnum 12-18 mánuðum, að engu máli myndi skipta hvernig kosningarnar færu. Það segir líka að við vildum sem minnsta ábyrgð inn í þann meirihluta sem við vorum að ganga inn í. Ég á eiginlega ekki til orð ef ég á að segja bara alveg eins og er. Þvílíkt virðingarleysi gagnvart því starfi sem við hjá ungum stöndum fyrir og ef einhvern skyldi undra að við höfum ekki borið traust til Miðflokksins, þá hlýtur viðkomandi að skilja okkar afstöðu eftir þessa yfirlýsingu.“

Ásrún Kristinsdóttir, oddviti Framsóknar:

Ekki vilji fyrir meirihluta með Miðflokknum

„Þessi yfirlýsing Miðflokksins kom mér á óvart, ég verð að segja það. Það fyrsta sem mér datt í hug var hvort Miðflokkurinn vildi vera í góðu samstarfi? Þarna eru rangfærslur en ég vil ekki tjá mig neitt meira um þessa yfirlýsingu. Ég held áfram að einbeita mér að okkar málefnum og gildum. Miðflokkurinn óskaði eftir viðræðum við okkur í Framsókn og það kom mér vissulega á óvart hversu fljótt það gerðist eftir að Rödd ungra var þeirra fyrsti valkostur. En mjög fljótlega kom í ljós hjá mínu baklandi, að ekki var vilji fyrir viðræðum um myndun meirihluta með Miðflokknum. Ég hélt að Miðflokkurinn myndi reyna á að ræða við Sjálfstæðisflokkinn en ég er ánægð með hvernig málin þróuðust og mér líst mjög vel á þennan meirihluta sem við vorum að mynda. Samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn gekk mjög vel á síðasta kjörtímabili og ég hef fulla trú á að samstarfið í þessum meirihluta með fulltingi Raddar unga fólksins, verði sömuleiðis gott. Við munum vanda til verka og ég hlakka mjög til þessa samstarfs.“

Hjálmar Hallgrímsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins:

Gaf Miðflokknum tækifæri til að mynda meirihluta

Hjálmar Hallgrímsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins hafði einnig ýmislegt við þessa yfirlýsingu Miðflokksins að segja. Í umræðuþræði við þessa yfirlýsingu Miðflokksins, segir orðrétt:

„…fékk símtal frá oddvita X-D þar sem hann tjáði mér að hann hefði hug á viðræðum við minni flokkana fyrst….”

„Þar sem Miðflokkurinn vann stórsigur í kosningunum þá hafði ég samband við oddvita Miðflokksins og óskaði þeim til hamingju með glæsilegan sigur. Sagði henni jafnframt að hún ætti sviðið, hún myndi fá tækifæri á að mynda nýjan meirihluta og Sjálfstæðisflokkurinn myndi halda sig til hlés á meðan. Þetta var á hádegi á mánudegi eftir kosningarnar. Þá hafði ég frétt af viðræðum þeirra við Unga og Framsókn. Ég sagði oddvitanum þá líka að ég myndi heyra í oddvitum Raddar ungra og Framsóknar, að ef ekki myndi ganga í viðræðum milli þeirra og Miðflokksins, þá myndum við hafa áhuga á þannig meirihlutasamstarfi, þ.e. við X-U og X-B. Við áttum mjög gott samstarf með Framsókn á síðasta kjörtímabili og engin ástæða til að það samstarf ætti ekki að geta blómstrað áfram, með þátttöku Ungra. Oddviti Miðflokksins sýndi þessu fullan skilning aldrei óskaði hún eftir viðræðum við okkur Sjálfstæðismenn um myndun meirihluta, frekar en við.