SSS
SSS

Fréttir

Fjölbrautaskólinn tekur við hluta rekstrar Keilis - 14 starfsmönnum sagt upp
Miðvikudagur 28. febrúar 2024 kl. 15:40

Fjölbrautaskólinn tekur við hluta rekstrar Keilis - 14 starfsmönnum sagt upp

Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Keilir miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs hafa gert samkomulag um að þeir fyrrnefndu taki að sér rekstur tveggja námsbrauta sem byggðar voru upp og eru í rekstri hjá Keili. Brautirnar eru einka- og styrktarþjálfaranám og stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Stefnt er að yfirfærslu þriðju brautarinnar, fótaaðgerðafræði um áramót. Keilir heldur í kjölfarið áfram vegferð sinni til þess að kjarna starfsemina eftir róstursama tíma í rekstri. Fjórtán starfsmenn Keilis fá uppsögn.

Nemendur fyrrnefndra brauta ljúka vorönn á námsbrautunum í Keili, en þeir nemendur sem stefna að því að ljúka námi í einka- og styrktarþjálfaranámi eða stúdentsbraut í tölvuleikjagerð á haustönn eða síðar verður boðin námsvist í FS og fá að ljúka þar námi á þeim forsendum sem lagt var upp með frá upphafi námsins. Jafnframt mun FS sinna kynningum og innritun nýnema á þessar tilteknu brautir fyrir komandi skólavetur 2024-2025. Breytingin hefur engin áhrif á nemendur í Háskólabrú, fótaaðgerðafræði, stökum áföngum í fjarnámi eða annarra námskeiða hjá Keili. 

Keilir átti frumkvæði að samtalinu við FS, en samstæðan hefur í áraraðir glímt við fjárhagslegar áskoranir. Fýsileikakönnun mennta- og barnamálaráðuneytisins árið 2023 ýtti undir hugmyndir stjórnar Keilis þess efnis að finna nokkrum námsbrauta skólans betri samlegð með hag nemenda að leiðarljósi. Hugmyndirnar snúa að því að tryggja brautunum farveg og efla þær enn frekar, en á sama tíma styrkja stoðir Keilis m.a. með því að kjarna námsframboð og stokka upp skipuriti skólans.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

 Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum:

,„Það skiptir miklu máli fyrir okkur að námsframboð fyrir nemendur á Suðurnesjum skerðist ekki. Ég tel að þessar brautir sem um ræðir falli vel að því námi sem fyrir er hjá okkur og að okkur takist að efla þær enn frekar. Þannig getur leikjatölvubrautin fallið vel að tölvufræðibraut skólans og einka- og styrktarþjálfunin verið góð viðbót við íþrótta- og lýðheilsubrautina.

Skólinn hefur verið að efla og auka starfsnám og því verður skoðað og stefnt að yfirfærslu starfsnáms í fótaaðgerðafræði um áramótin. Grunnur þess náms er sambærilegur og grunnur sjúkraliðanáms sem skólinn er með.

Með aukinni breidd í námsframboði og góðum tengslum við atvinnulífið er ég viss um að við getum haldið áfram að þróa þessar námsbrautir og skapa þannig aukin tækifæri til náms fyrir nemendur á svæðinu.“

 Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis:

„Það er fyrst og fremst erfitt að þurfa að kveðja starfsfólk í ljósi þessara stóru breytinga á skipuriti Keilis. Það er trú mín að FS hafi alla burði til þess að efla námsbrautirnar enn frekar og afar mikilvæg niðurstaða að námsframboð fyrir íbúa Suðurnesja sé óskert. Jafnframt tel ég allar líkur á að starfsemi brautanna komi með góðan innblástur inn í FS, enda urðu þær til í umhverfi nýsköpunarhugsunar og nútímalegrar nálgunar í námi.
    Keilir er á tímamótum í kjölfar þrotlausrar vinnu síðustu ára við það að vinda ofan af óhagstæðum samningum og afar fjölbreyttum krefjandi rekstrareiningum. Nú er tækifæri fyrir Keili til þess að styrkja stoðirnar í kringum Háskólabrú, sem hefur frá upphafi verið hryggjarstykki skólans og fjölsóttasta aðfaranám á Íslandi,“ segir Nanna í tilkynningu sem Keilir og FS hafa sent frá sér.