HS Orka
HS Orka

Fréttir

Framkvæmdir við Grindavíkurhöfn sem iðar af lífi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 24. október 2024 kl. 09:00

Framkvæmdir við Grindavíkurhöfn sem iðar af lífi

„Haustin hafa venjulega verið róleg við Grindavíkurhöfn, það er ekki mikill munur núna eða í fyrra og ég hef fulla trú á að allt verði komið á fullt eftir áramót,“ segir Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík en framkvæmdir standa yfir við vigtina. Segja má að höfnin sé farin að iða af lífi en nokkrar landanir voru í Grindavík á mánudagsmorgun. Vísir hf er nánast komið á fulla afkastagetu og svo mátti sjá rútu með ferðamönnum en Grindavík opnaði fyrir almenning á mánudagsmorgun.

Verið er að byggja dælustöð fyrir nýja fráveitukerfið í Grindavík en stöðin mun líka nýtast við höfnina ef eða þegar flæðir yfir bakkana í kjölfar jarðhræringanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Dælustöðin mun nýtast ef við þurfum að dæla sjó af bryggjunni ef eða þegar flæðir yfir bakkana. Það er viðbúið að það muni gerast eftir að bryggjan seig og erum við vel í stakk búnir að takast á við það. Vegagerðin hefur fjárfest í flóðvarnargirðingum svo við erum við öllu búnir. Það var gaman að mæta til vinnu á mánudagsmorgun eftir að bærinn var búinn að opna, þar sem haustin hafa verið tiltölulega róleg við Grindavíkurhöfn undanfarin ár er ekki allur munurinn þá og nú. Jóhanna Gísla og Sturla lönduðu á mánudagsmorgun en flestir smábátarnir eru fyrir norðan og austan en svo koma þeir alltaf heim um miðjan desember og róa héðan strax í janúar svo ég á ekki von á neinu öðru en sama líf verði við höfnina á nýju ári og hefur verið undanfarin ár. Vísir hf er nánast komið á full afköst, Einhamar sömuleiðis og ég vona að Stakkavík muni hefja vinnslu í Mölvík á nýju ári, það á eftir að koma í ljós. Nú er bara að vona að náttúran gefi Grindavík grið og við getum hafið uppbyggingu bæjarins, það er bara ástæða til bjartsýni vil ég meina,“ sagði Sigurður.

Sigurður Kristmundsson (t.v.) og Pétur Pálsson (t.h.).

Pétur Pálsson er framkvæmdastjóri Vísis hf í Grindavík, hann hefur trú á að bjartari tímar séu framundan í Grindavík.

„Við erum nánast komnir á full afköst en langmest af okkar starfsfólki býr utan Grindavíkur og þarf því að keyra til og frá vinnu. Ég spyr mig hvort sé öruggara, að búa og gista í Grindavík, eða keyra fimm sinnum í viku til og frá Grindavík yfir veturinn. Það er búið að gera fullt af góðum hlutum í Grindavík en það hafa líka verið gerð mistök, t.d. varðandi skil Grindvíkinga á húseign sinni til Þórkötlu. Að láta Grindvíkinga tæma og klippa þannig á naflastrenginn við heimilið og þar með bæinn voru mistök og því fyrr sem aðilar viðurkenna þau og reyna að gera eitthvað til að bæta fyrir þau, því betra. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hollvinasamningur Þórkötlu mun líta út og vonandi kemur forsvarsfólk félagsins til móts við óskir Grindvíkinga og bjóða eitthvað sem gerir aðlaðandi fyrir fólk að koma til baka. Ég veit að allt þetta fólk hjá Þórkötlu var og hefur verið að gera sitt besta, þau höfðu ekki við neitt að styðjast þegar ákvarðanir voru teknar en allir hljóta að geta séð að mistök voru gerð.

Annars er ég ég er bjartsýnn á framtíð Grindavíkur, að því gefnu að þróun jarðhræringanna verði okkur hagstæð,“ sagði Pétur að lokum.

 Starfsfólk Vísis býr langflest utan Grindavíkur. VF/SDD