Lögreglan rak kylfinga heim úr Leirunni
Lögreglumenn á Suðurnesjum mættu á Hólmsvöll í Leiru þar sem fjöldi kylfinga var við leik í dag, laugardag og vísaði þeim heim. Samkvæmt nýjustu reglum Almannavarna væru íþróttir, bæði keppnis og æfinga, ekki heimilar til 17. nóvember.
Tveir lögreglumenn mættu út á Hólmsvöll og gengu nokkrar brautir og ræddu við fjölda kylfinga sem voru við leik. Margir voru mættir í Leiruna í haustblíðu. Nokkrir mættu á svæðið þegar lögreglan var á staðnum og voru á leið í golf en urðu frá að hverfa.
Það var ekki gott hljóð í kylfingum sem eru margir hissa á þessum reglum. Þeir megi fara út að ganga en ekki fara í golf úti á golfvelli.
Fjölmargir kylfingar voru mættir í Leiruna í haustblíðunni.