Fréttir

Ók í gegnum öryggisgirðingu við fundarstað varaforseta Bandaríkjanna
Bifreiðin stórskemmd innan við girðinguna. Rauða pallbílnum er lagt fyrir gatið á girðinggunni þar sem smábílnum var ekið í gegn. VF-myndir: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 2. september 2019 kl. 22:45

Ók í gegnum öryggisgirðingu við fundarstað varaforseta Bandaríkjanna

Bifreið var ekið í gegnum öryggisgirðingu á Keflavíkurflugvelli í kvöld. Örskammt frá þeim stað sem bifreiðin fór í gegnum girðinguna munu Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands funda eftir tæpa tvo sólarhringa.

Fjölmennt lögreglulið var sent á staðinn auk sjúkrabifreiðar. Aðstoð sjúkrabifreiðarinnar var afþökkuð þar sem ökumaður bifreiðarinnar var óslasaður. Hann var handtekinn grunaður um ölvun við akstur.

Viðreisn
Viðreisn

Örfáa metra frá þeim stað sem bifreiðin fór í gegnum girðinguna er hlið að aðstöðu Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli.

Íbúar í nágrenni við girðinguna þar sem ekið var í gegnum hana urðu varir við mikil læti þegar atvikið átti sér stað og þegar lögregla og sjúkralið komu á staðinn.

Mikill viðbúnaður er á Keflavíkurflugvelli þessa dagana vegna komu bandaríska varaforsetans. Fjöldi herflutningavéla og annarra hervéla kom til flugvallarins í dag. Þá hafa öryggissveitir frá Bandaríkjunum hreiðrað um sig á svæðinu.

Ljósmyndari Víkurfrétta tók meðfylgjandi myndir á vettvangi í kvöld.





Myndir frá vettvangi við öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli í kvöld. VF-myndir: Hilmar Bragi