Sprengja haft vestan Grindavíkur til að auðvelda hraunrennsli
Verktakar vinna nú að því að sprengja í burtu haft í landslaginu milli fjarskiptastöðvarinnar við Grindavík og Nesvegar. Á svæðinu er einnig unnið að því að reisa varnargarða til að verja byggðina að vestanverðu.
Undanfarna daga hafa holur verið boraðar í mikla klöpp sem myndar haft fyrir mögulegan hraunstraum til sjávar. Hlutar úr haftinu hafa verið sprengdir í burtu. Áður en páskahátíðin gengur í garð er svo hugmyndin að framkvæma stóra sprengingu á svæðinu og losa þannig um 5.000 rúmmetra af klöpp úr fyrirhuguðum hraunfarvegi. Við framkvæmdina hefur verið notað sprengiefni í tonnatali.
Meðfylgandi myndir eru skjáskot úr streymi Live from Iceland af sprengingu sem framkvæmd var kl. 18:00 síðdegis.