Fréttir

Stefna að áframhaldandi uppbyggingu við Rósaselstorg
Áætlað er að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta þessa árs og ljúki á næsta ári. Byggingatími mun þó fara eftir umfangi og lokahönnun bygginga.
Fimmtudagur 7. janúar 2016 kl. 16:55

Stefna að áframhaldandi uppbyggingu við Rósaselstorg

- Forsvarsmenn marga fyrirtækja hafa lýst yfir áhuga

„Þetta er virkilega jákvæð uppbygging fyrir Suðurnesin í heild sinni,“ segir Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar í Garði, um fyrirhugaða byggingu á verslunar- og þjónustumiðstöðinni Rósaseli við Keflavíkurflugvöll. Rósasel mun rísa á lóð innan sveitarfélagamarka Garðs. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á fyrra hluta þessa árs og að þeim ljúki á næsta ári.

Fyrirhugað er að í framtíðinni muni á svæðinu í kringum Rósaselstorg rísa húsnæði sem hýsir ýmsa starfsemi tengda flugi og ferðaþjónustu. „Þarna eru miklir möguleikar því að með stækkun flugstöðvarinnar þrengir að fyrirtækjum í næsta nágrenni hennar. Allt sem tengist flugstöðinni og flugtengdri þjónustu gæti því flutt á svæðið í kringum Rósaselstorg, sérstaklega það sem tengist ferðamönnunum sjálfum, svo sem bílaleigur og önnur þjónusta. Þá mun þessi uppbygging á þjónustu ekki síður nýtast fyrir íbúa á svæðinu.“ Einar Jón segir forsvarsmenn margra fyrirtækja hafa lýst yfir áhuga á að byggja á svæðinu. 

Viðreisn
Viðreisn

Einar segir staðsetningu Rósasels fela í sér dýrmæt tækifæri fyrir Suðurnesin í heild sinni til að kynna svæðið fyrir ferðamönnum. „Rósasel verður kjörinn staður til að kynna hvað Suðurnesin hafa upp á að bjóða, sem er fjölmargt, en það þarf að ná betur til ferðamanna.“ 

Fólksfjölgun í Garði hefur staðið í stað undanfarin ár en Einar kveðst vongóður um að þessi uppbygging sem og uppbyggingin á flugstöðvarsvæðinu og í Helguvík, komi til með að fjölga Garðbúum. Garður muni fá greidda fasteignaskatta af þeim byggingum sem muni rísa við Rósaselstorg. Einar segir að töluverður kostnaður fyrir bæjarfélagið fylgi þó framkvæmdunum í upphafi en að hann muni skila sér til baka þegar fram sækir.