Max 1
Max 1

Fréttir

Stöðug kvikusöfnun undir Svartsengi
Eldgosið þann 29. maí síðastliðinn. VF/Ísak Finnbogason
Þriðjudagur 23. júlí 2024 kl. 16:10

Stöðug kvikusöfnun undir Svartsengi

Sviðsmyndir ef til eldgoss kemur

Líkur eru taldar á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur til þremur vikum, segir í uppfærðu hættumati sem Veðurstofa Íslands birti á vef sínum rétt í þessu. Uppfærðar sviðsmyndir gefnar út samhliða uppfærðu hættumati.

  • Landris heldur áfram og hefur kvikusöfnun undir Svartsengi verið nokkuð stöðug ef horft er til síðustu vikna
  • Ef horft er til fyrri atburða á Sundhnúksgígaröðinni má gera ráð fyrir því að á bilinu 13 til 19 milljón rúmmetrar af kviku þurfi nú að bætast við undir Svartsengi til að byggja upp nægan þrýsting til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.
  • Samkvæmt líkanreikningum er líklegast að heildarmagnið sem bæst hefur við frá síðasta eldgosi nálgist 16 milljónir rúmmetra á næstu dögum
  • Hættustig hefur verið hækkað í ljósi nýjustu gagna og sviðsmyndir uppfærðar

„Allar okkar mælingar og útreikningar benda til þess að kvikusöfnunin undir Svartsengi haldi áfram með jöfnum hraða“ segir Michelle Maree Parks, sérfræðingur í aflögun á Veðurstofu Íslands. „Það er ekki óeðlilegt að við fáum sveiflu í mælingar á landrisinu milli einstakra daga og þess vegna er mikilvægt að horfa á heildarmyndina út frá GPS mælingum, gervitunglamyndum og líkönum yfir lengra tímabil. Það eru engar vísbendingar í okkar gögnum sem benda til annars en að búast megi við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur til þremur vikum eða svo,“ segir Michelle.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Hættustig hefur verið hækkað í ljósi nýjustu gagna

Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi þess að búast megi við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu vikum. Hættustig hefur því verið hækkað á öllum svæðum, nema á svæði 7. Hættumatið gildir til 30. júlí að öllu óbreyttu.

 

Sviðsmyndir ef til eldgoss kemur

Veðurstofan hefur uppfært þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar ef til eldgoss kemur. Báðar sviðsmyndir eru taldar álíka líklegar og miðast við að kraftur eldgossins í upphafi verði álíka og í eldgosinu í maí.

Sviðsmynd 1 - Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi.

Sviðsmynd 2  - Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi á um 6 klukkustundum.
    Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna. Ekki er hægt að útiloka möguleika að gossprunga opnist innan Grindavíkur en í því tilfelli er talið líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnist innan bæjarmarkanna.

„Þær sviðsmyndir sem við birtum í dag eru byggðar á nýjustu gögnum og greiningum og þær gefa tilefni til þess að hafa áhyggjur af því að hraun geti náð inn fyrir varnargarða við Grindavík,“ segir Matthew J. Roberts, framkvæmdastjóri þjónustu- og rannsóknasviðs á Veðurstofu Íslands. „Við þurfum því að vera undirbúin fyrir þann möguleika að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða ofan bæjarins geti leitað ofan í sprungukerfið sunnan Hagafells og leitt hraunstraum inn fyrir bæjarmörkin,“ segir Matthew.

„Reynslan frá eldgosinu í janúar segir okkar að við getum ekki útilokað þann möguleika á að gossprunga opnist innan Grindavíkur. En í því tilfelli er líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnist innan bæjarmarkanna“.

„Þessu til viðbótar sýna hraunflæðilíkön að ef gýs við Hagafell gæti hraunflæði lokað flóttaleiðum á landi út úr bænum á nokkrum klukkustundum eftir að gos hefst,“ segir Matthew.


Frekari upplýsingar er að finna á vef Veðurstofu Íslands.