Fréttir

Stöðug virkni í gosinu - nyrsta hrauntungan um 3 km. frá Reykjanesbraut og 1900 m frá Snorrastaðatjörnum
Svona leit eldgosið út í nótt 25. ágúst. Mynd frá Veðurstofunni.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 25. ágúst 2024 kl. 09:40

Stöðug virkni í gosinu - nyrsta hrauntungan um 3 km. frá Reykjanesbraut og 1900 m frá Snorrastaðatjörnum

Virkni eldgossins hefur verið nokkuð stöðug í nótt. Ennþá gýs á tveimur stöðum norðaustan við Stóra-Skógfell. Af vefmyndavélum að dæma eru gígbarmar farnir að hlaðast upp, segir í frétt frá Veðurstofunni. Í pistli frá Eldfjalla- og náttúruvárhóp Suðurlands kemur fram að þetta sé stærsta gosið í goshrinunni.

Hraun flæðir að mestu til norðurs en einnig er örlítill hraunstraumur til vesturs. Framrás hraunsins er hæg. Sú hrauntunga sem rann upphaflega til vesturs í átt að Grindavíkurvegi milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells virðist byrjuð að kólna og engin hreyfing þar sjáanleg á vefmyndavélum.

„Gosið nú er hið stærsta til þessa í goshrinunni. Hraunbreiðan er einnig sú stærsta sem myndast hefur í gosunum sex síðustu mánuði og er yfir 12 ferkílómetrar. Hún er þar með a.m.k. 30% stærri að flatarmáli en hraunbreiðan sem myndaðist í síðasta gosi og um tvöfalt stærri en hraunið sem myndaðist í langlífa gosinu sem hófst í mars og stóð í 52 daga.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hraunið heldur áfram að skríða til norðurs og seinnipartinn í gær var nyrsta hrauntungan komin að Brandsgjá og hefur þar skriðið um 1 km norður fyrir Litla Skógfell. Nyrsta hrauntungan er um 3200 metrar frá Reykjanesbraut og 1900 m frá Snorrastaðatjörnum,“ segir í pistli Eldfjalla- og náttúruvárhópsins. Sjá má kort frá hónum hér í fréttinni.

Skjálftavirkni er heilt yfir lítil á svæðinu og aðallega bundin við þann hluta svæðis þar sem gýs. Einn skjálfti M2.2 var við gosstöðvarnar um klukkan tvö í nótt.