Um 200 Grindvíkingar í Vogum - komið að þolmörkum - segir bæjarstjóri
Tíundi hver nemandi í Stóru-Vogaskóla úr Grindavík. Aðgerðarleysi stjórnvalda.
Tæplega 200 íbúar eru nú með skráð aðsetur í sveitarfélaginu Vogum en lögheimili í Grindavík eða sem nemur rúmlega 10% íbúa í sveitarfélaginu. „Þó allt kapp hafi verið lagt á að mæta þörfum þessa hóps er nú komið þolmörkum, enda hafa stjórnvöld ekki veitt Vogum eða öðrum þeim sveitarfélögum sem hafa borið mestan þunga af þessu verkefni neinn stuðning í verki,“ segir í bókun bæjarráðs Voga en um 10% nemenda Stóru-Vogaskóla eru með skráð lögheimili í Grindavík.
Bæjarráð Voga lýsir yfir vonbrigðum með afgreiðslu ráðgjafanefndar og kallar eftir skýrum svörum frá Innviðaráðherra um hvernig stjórnvöld ætli að standa að fjármögnun þjónustu við þá íbúa sem eru með skráð aðsetur utan síns lögheimilissveitarfélags.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum segir Vogamenn upplifa stjórnleysi gagnvart málinu. „Ég veit ekki hvað er eiginlega að gerast í þessum málum en við upplifum ákveðið stjórnleysi af hálfu ríkisins. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að það sé ekki samstaða innan ríkissjórnarinnar eða hreinlega ákvarðanafælni en niðurstaðan er allavega sú að málefni íbúa Grindavíkur virðast ekki fá forgang í kerfinu. Það er eins og stjórnvöld hafi bara ekki lengur úthald til að fylgja verkefninu eftir og telji að nú þegar búið sé að samþykkja uppkaup á fasteignum Grindvíkinga þá sé verkefninu lokið. Það er auðvitað fjarri lagi og það þarf að fylgja þessu verkefni eftir með sómasamlegum hætti. Þetta plan sem unnið er eftir, eða öllu heldur skortur á plani, er ekki að ganga upp.
Það er ekki hægt að ætlast til þess að hin sveitarfélögin á Suðurnesjum og þar með íbúar þeirra taki þetta verkefni í fangið, enda á þetta að vera verkefni alls samfélagsins og þar á ríkið að halda í taumana og tryggja að íbúar Grindavíkur njóti eðlilegra réttinda og hafi rétt til sömu grunnþjónustu og aðrir íbúar þessa lands. Eins og staðan er núna þá virðist bara ekkert vera að gerast í þessum málum í stjórnkerfinu og aðilar benda hver á annan.
Ég hef varað við því að ef þetta aðgerðaleysi vari mikið lengur þá gæti það komið mjög harkalega niður á þeim sem síst skildi, þ.e. því fólki sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín í Grindavík. Þó allir séu af vilja gerðir og við í Vogum höfum svo sannarlega gert allt sem við getum til að taka vel á móti nágrönnum okkar og ekki síst börnunum sem hafa komið í skólana okkar, þá nýtur þessi hópur í raun engra lögbundinna réttinda og það er bara tímaspursmál hvenær við neyðumst til þess að setja skorður á veitingu þjónustu til þessa hóps, enda getum við ekki gert meira heldur en fjárhagur okkar leyfir.
Nú verða stjórnvöld einfaldlega að hrista sig aftur í gang og halda áfram með verkefnið, enda er því alls ekki lokið. Ég hef nefnt það við okkar æðstu ráðamenn og varað við því að ef það verði mikið meiri dráttur á því að stjórnvöld taki á þessum málum þá sé raunveruleg hætta á því að gjá myndist milli íbúa og ofan á allt annað geti íbúar Grindavíkur upplifað neikvæðni í sinn garð. Það væri ömurleg niðurstaða fyrir alla og við viljum að sjálfsögðu gera allt sem í okkar valdi stendur til að fyrirbyggja að það ástand skapist.
Í sveitarfélögum sem mörg hver búa við mjög veika tekjustofna og hafa jafnvel þurft að skerða þjónustu af þeim sökum er hinsvegar ekki hægt að ætlast til þess að íbúarnir sýni því endalausan skilning að takmörkuðum tekjum sveitarfélagsins sé varið til verkefna sem það er ekki bundið af lögum að sinna.“