Uppbyggingarsjóður veitti 42 styrki fyrir 50 milljónir króna
Uppbyggingarsjóður Suðurnesja hefur veitt styrki fyrir 50 milljónir króna til menningar og nýsköpunarverkefna á Suðurnesjum árið 2025.Úthlutunarhátíðin var haldin hátíðlega í Stapanum í Hljómahöllinni föstudaginn 17. janúar sl.
Alls bárust sjóðnum 67 umsóknir og hljóðuðu styrkbeiðnir upp á rúmlega 170 milljónir króna.
Auglýst var eftir styrkumsóknum 15. nóvember og var opið fyrir umsóknir til 5. desember. Á síðasta ári féllu mörg verkefni niður vegna ástandsins í Grindavík og voru umsækjendur hvattir til að sækja um aftur að ári og var það ánægjulegt hversu mörg verkefni voru úr Grindavík í ár. Þá fjölgaði verkefnum um sjö frá fyrra ári sem er ánægjulegt.
Tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson steig á svið á úthlutunarhátíðinni og söng tvö lög en hann fékk styrk úr sjóðnum í ár fyrir verkefnið sitt Már & the Royal Northern College of Music Session Orchestra. Tilefnið er útgáfa nýrrar plötu Más, sem ber titilinn „Orchestral Me“. Á tónleikunum verður platan flutt í heild sinni auk valinna laga í ævintýralegum sinfónískum útsetningum.
Tilgangur Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Suðurnesjum. Uppbyggingarsjóður Suðurnesja er samkeppnissjóður og þarf úthlutunarnefnd að velja úr gríðarlegum fjölda flottra verkefna á hverju ári. Auglýst er opinberlega eftir umsóknum og þær metnar út frá markmiðum og áherslum sem fram koma í Sóknaráætlun Suðurnesja.
Hér að neðan má sjá hverjir fengu styrk.
Úthlutun 2025
Skiptingin milli flokka er með þessum hætti:
- Stofn og rekstur fá úthlutað 8.500.000 kr.
- Menning og listir fá úthlutað 27.200.000 kr.
- Atvinnu- og nýsköpun fær úthlutað 14.300.000.kr.
- Menningarverkefnið Óðurinn til gleðinnar er á tveggja ára samningi og fær nú úthlutað seinna ár samningsins eða kr. 2.000.000.
Eftirtalin verkefni hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja 2025.
Stofn og rekstur
- Grindavíkurskip - tíróinn áttæringur með grindavíkurlagi. Umsækjandi: Hollvinasamtökin Áttæringurinn.
Grindavíkurskip - tíróinn áttæringur er nýsmíði áraskips, slíkt hefur ekki verið smíðað á Íslandi í 100 ár. Tryggja á að skipið fái öruggan og góðan sess í Grindavík þegar fram líða stundir.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.100.000. - Uppbygging á Kreppu. Umsækjandi: Minja- og sögufélag Grindavíkur.
Minja- og sögufélag Grindavíkur ætlar að endurbyggja húsið sem kallast Kreppa sem er gamalt fiskverkunarhús, líklega byggt af Einari G. Einarssyni í Garðhúsum um 1930. Þá fékk það nafnið Kreppa því það var byggt í kreppunni og af litlum efnum. Þá var það áfast við gömlu lifrarbræðsluna. Einar í Krosshúsum endurnýjaði húsið og byggir við steypta hlutann um 1950.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3.000.000. - Uppbygging á Bakka - áframhald innanhúss #4. Umsækjandi: Minja- og sögufélag Grindavíkur.
Bakki er talin vera ein elsta uppistandandi sjóverbúð á Suðurnesjum. Það þarf að koma því í gott ástand. Búið er að gera það upp að utan en nú þarf að gera það upp að innan og ætlar félagið að klára það.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.400.000. - Hugur, heimili og handverk Suðurnesjamanna - Lokaáfangi. Umsækjandi: Tanja Halla Önnudóttir.
Á sýningunni „Hugur, heimili og handverk Suðurnesjamanna" er skyggnst inn á heimili íbúa í sjávarþorpum á Suðurnesjum. Lokaáfangi verkefnisins snýr að ytra lagi sýningarinnar ásamt dýpri lögum hennar. Að utan verða heimilin klædd líkt og íslensk hús í sjávarþorpi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.
Menning
- Viðhald og uppbygging Efra-Sandgerðis. Umsækjandi: Pétur Brynjarsson.
Búið er að lagfæra glugga sem lágu undir skemmdum og kaupa nýtt járn á norðurhlið hússins. Nú liggur fyrir að halda áfram og taka næstu hliðar í áföngum, skipta um skrautgereft og undirstykki á gluggum. Þá verður húsið grunnað og málað.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 250.000. - Prestsvarða, lagning gangstígs. Umsækjandi: Helga Svanfríður Ingimundardóttir
Verkefnið felur í sér gerð á göngustíg upp að Prestsvörðunni í Leiru. Öll hönnun og framkvæmdir miðast að því að stórbæta upplifun ferðamanna og annarra gesta á svæðinu. Tengist þetta svæði vitum, kirkjum o.fl. stöðum sem tengjast sögu svæðisins sterkum böndum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000. - Máfurinn tónlistarsmiðja. Umsækjandi: Ásthildur Ákadóttir
Máfurinn tónlistarsmiðja er ókeypis smiðja hugsuð fyrir börn á aldrinum 7-12 ára sem hafa áhuga á tónlist og sköpun. Engin fyrri tónlistarmenntun er nauðsynleg til þátttöku og smiðjan er því opin öllum áhugasömum börnum sér að kostnaðarlausu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 400.000. - Fjölskyldusöngleikurinn Annie jr. Umsækjandi: Ungleikhúsið.
Markmið Ungleikhússins er að efla menningarstarfsemi og vekja athygli á hæfileikaríku ungu listafólki á Suðurnesjum með uppsetningu á söngleiknum Annie jr. Söngleikurinn, sem er stytt útgáfa af Broadway-uppsetningunni, verður settur upp í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ en leikhópurinn samanstendur einungis af börnum og ungmennum 18 ára og yngri.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 900.000. - Söngvaskáld á Nesvöllum 2025. Umsækjandi: Dagný Maggýjar.
Tónleikar fyrir eldri borgara á Suðurnesjum 2025 þar sem fjallað verður um tónlistarmenn af Suðurnesjum á lifandi hátt með það að markmiði að auka framboð afþreyingar fyrir eldri borgara og kynna ríkan tónlistararf á svæðinu. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 600.000. - Eftirstríðsárin. Umsækjandi: Jana María Guðmundsdóttir.
Eftirstríðsárin er marglaga könnunarferðalag um samskipti Suðurnesjamanna og Varnarliðsins á fyrstu áratugum eftir seinni heimsstyrjöldina. Viðtöl verða tekin við kynslóðina sem var í beinum samskiptum við hermenn Varnarliðsins. Afrakstur verkefnisins verður kynntur í formi fjögurra útvarpsþátta sem verða gerðir aðgengilegir landsmönnum og hins vegar í formi tónleika fyrir eldri kynslóðina á Reykjanesi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 350.000. - Már & the Royal Northern Collage of Music Session Orchestra. Umsækjandi: Már Gunnarsson
Tónlistarmaðurinn og Ólympíufarinn Már Gunnarsson heldur tónleika ásamt The Royal Northern College of Music Session Orchestra í Hljómahöll í Reykjanesbæ í nóvember. Á tónleikunum verða flutt vel valin lög í ævintýralegum sinfónískum útsetningum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000. - Sögur af Vellinum. Umsækjandi: Þingmannaleið ehf.
Stór hluti verkefnisins verður öflun upplýsinga og mynda frá tíma varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Verkefnið verður að ná utan um söguna, vera með lifandi þráð og skemmtilegar lýsingar á persónum, staðháttum og vinnuumhverfi íslenskra starfsmanna og samskiptum þeirra við herinn. Bókin verður sett upp með fjölda mynda og korti af svæðinu svo fólk átti sig á sögusviðinu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000. - Íslensk dægurlög í 100 ár. Umsækjandi: Stórsveit Íslands.
Farið yfir 100 ára sögu íslenskra dægurlaga. Útsett verða eitt til tvö lög frá hverjum áratug tímabilsins og færð í stórsveitarbúning. Æfingar munu hefjast í janúar 2025 en dagskráin flutt á tveimur stöðum á Suðurnesjum, Suðurnesjabæ og Keflavík. Efnilegum nemendum tónlistarskóla á svæðinu verður boðið að spila með á tónleikunum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 900.000. - Barnamenningarhátíð í Suðurnesjabæ. Umsækjandi: Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir.
Barnamenningarhátíð mun innihalda fjölbreytt úrval viðburða sem hafa það að markmiði að örva sköpunargleði og menningarskilning barna.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.1.500.000. - Tónleikaröð Ellýjar. Umsækjandi: Jóhann Páll Kristbjörnsson.
Tónlistarfélagið Ellý stendur fyrir reglulegum tónlistaruppákomum í Reykjanesbæ með aðaláherslu á innlenda djasstónlist. Stefna félagsins er að halda átta tónleika á tímabilinu ágúst/september til apríl/maí ár hvert, ýmist í Bergi í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eða í Bókasafni Reykjanesbæjar. Viðburðirnir verða öllum opnir og enginn aðgangseyrir.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500.000. - Rúnar Júlíusson 80 ára. Umsækjandi: Geimsteinn ehf.
Tónleikar verða haldnir í Hljómahöll til að heiðra minningu Rúnars Júlíussonar sem verður minnst með tónlistarflutningi og yfirliti yfir feril þessa merka tónlistarmanns sem hefði orðið 80 ára 13. apríl 2025.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.500.000. - Rokksögur frá Reykjanesi. Umsækjandi: Geimsteinn ehf.
Tónleikaröð sem tekur fyrir lög og texta söngvaskálda af Suðurnesjum. Bræðurnir Júlíus og Baldur Guðmundssynir munu segja sögurnar á bak við listamennina og lögin og flytja þverskurð af þeim mikla tónlistararfi sem kemur af svæðinu. Tónleikarnir verða á Skólavegi 12 þar sem Rúnar Júlíusson og María Balddursdóttir byggðu sitt heimili og stofnuðu hljómplötuútgáfuna Geimstein sem starfað hefur sleitulaust árinu 1976.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.300.000. - Endurgerð Vatnsness (Okkar Höfði). Umsækjandi: Jón Gunnar Erlingsson.
Verkefnið miðar að því að skapa fjölnota móttökusal á 1. hæð Vatnsneshússins. Salurinn verður nýttur fyrir viðburði, bæjarsamkomur og aðra menningarlega opinbera viðburði. Lögð verður áhersla á að varðveita sögulegt yfirbragð hússins með nýjum, útskornum húsgögnum og innréttingum sem passa við aldur hússins.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.1.700.000. - Grindavíkurdætur - tónleikar 2 ár frá rýmingu. Umsækjandi: Guðrún Snæbjörnsdóttir.
Grindavíkurdætur langar til að búa til hefð fyrir því að halda tónleika þann örlagaríka dag 10. nóvember þegar við minnumst þess að rýma þurfti Grindavík. Koma fólki saman og eiga notarlega stund og gleyma okkur með því að syngja fallega tónlist sem fólk getur yljað sér við.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000. - Óhljóð. Umsækjandi: Áki Ásgeirsson.
Óhljóð er raftónlistarsmiðja fyrir ungmenni í Suðurnesjabæ og tónleikar með rafhljóð og óvenjuleg hljóðfæri. Vinnusmiðjan er í samstarfi við Tónlistarskólann í Garði og iiL sem er rannsóknarstofa innan Háskóla Íslands. Verkefnið endar á sumarsólstöðum með tónleikum undir berum himni þar sem rafhljóð og nýsmíðuð hljóðfæri mæta rímum og hringdansi við Garðskagavita.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500.000. - Skáldasuð II. Umsækjandi: Gunnhildur Þórðardóttir.
Skáldasuð er hugsuð sem lítil ljóðahátíð suður með sjó í marsmánuði þar sem reynd og ný skáld geta komið saman, lesið og átt samtal við áheyrendur. En í mars er einnig alþjóðlegur dagur ljóðsins 21. mars. Það er einnig hugsað sem hátíð sem börn og ungmenni geta tekið þátt í sem skapandi einstaklingar í ljóðasmiðjum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 400.000. - Saga Fiskaness - seinni hluti. Umsækjandi: Eiríkur Óli Dagbjartsson.
Í nýrri heimildarmynd um útgerðarfélagið Fiskanes hf. í Grindavík er sagt frá tilurð fyrirtækisins og rekstri þess þar til það var sameinað öðru fyrirtæki í Grindavík árið 2000. Það var stofnað af fjórum sjómönnum og konum þeirra. Saga fyrirtækisins er áhugaverð og beinir sjónum sínum að sjávarútvegi í litlum bæ. - Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500.000.
- Safnahelgi á Suðurnesjum. Umsækjandi:Guðlaug María Lewis.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum sameinast í kynningu á öllum söfnum og setrum á svæðinu og bjóða íbúum og gestum til menningarveislu. Öll söfn og setur verða opin í öllum bæjarfélögunum, ókeypis aðgangur og alls kyns viðburðir í gangi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3.500.000 í þrjú ár. - Barnamenning í Reykjanesbæ. Umsækjandi: Guðlaug María Lewis.
BAUN eða Barnamenning í Reykjanesbæ er samstarfsverkefni menningarfulltrúa og menningarstofnana Reykjanesbæjar, allra 11 leikskóla bæjarins, allra 7 grunnskólanna, Fjörheima, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Danskompaní. Það má því segja að BAUN snerti með einum eða öðrum hætti flestar fjölskyldur á svæðinu. BAUN er hattur yfir fjölmörg verkefni sem líta dagsins ljós á sérstakri hátíð tileinkaðri fjölbreyttri menningu barna og ungmenna.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.000.000. - Tónleikaröð í Hvalsneskirkju. Umsækjandi: Magnea Tómasdóttir.
Tónleikaröðin, Tónar í Hvalneskirkju, eru tónleikar þar sem fremstu listamenn klassískrar tónlistar koma fram. Haldnir verða fimm tónleikar. Sumartónar sem eru þrennir tónleikar að sumri í júní, júlí, ágúst annars vegar og hins vegar tvennir tónleikar í aðdraganda hátíða þ.e. á föstu og aðventu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 400.000. - Norðurkot – Skólahús. Umsækjandi: Minjafélag Vatnsleysustrandar.
Minjafélag Vatnsleysustrandar hefur starfað frá 2005 og sinnt mikilvægum þáttum í varðveislu sögu og minja í Vogum. Starf félagsins hófst með flutningi og endurbótum á skólahúsinu Norðurkoti á Kálfatjörn. Það hýsir nú skólaminjasafn sem vakið hefur athygli. Fjölmargir viðburðir hafa verið haldnir í Norðurkoti m.a. tengdir Safnahelgi á Suðurnesjum og öðrum viðburðum. Tekið hefur verið á móti gestum í stórum sem smáum hópum þar sem merkri skólasögu sveitarfélagsins og svæðisins alls er gerð skil.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000. - Samkomuhúsið Kirkjuhvoll. Umsækjandi: Minjafélag Vatnsleysustrandar.
Samkomuhúsið Kirkjuhvoll á Vatnsleysuströnd var byggt árið 1933. Bygging þess var samstarfsverkefni Ungmennafélags Þróttar og Kvenfélagsins Fjólu í Vatnsleysustrandarhreppi sem þurfti húsnæði fyrir starfsemi sína. Markmið Minjafélagsins er að gera Kirkjuhvol upp og færa í sem næst upprunalegu horfi. Húsið mun verða nýtt fyrir smærri samkomur og tilfallandi verkefni auk þess sem sögu hússins og félaganna sem það byggðu verður þar gerð skil.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.400.000. - Söngleikjatónleikar. Umsækjandi Brynja Ýr Júlíusdóttir.
Leikfélag Keflavíkur hefur verið starfrækt á Suðurnesjum í rúmlega 60 ár og sett upp fjölda leiksýninga ásamt því að koma fram á hinum ýmsu viðburðum víða um Suðurnesin. Leikfélag Keflavíkur mun núna í fyrsta skipti halda söngleikjatónleika þar sem leiklist, dans og tónlist úr hinum ýmsu söngleikjum mætast. Skipulag er í höndum leikfélaga og allir þátttakendur hafa með einum eða öðrum hætti tekið þátt með Leikfélagi Keflavíkur í gegnum tíðina.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.200.000. - Áki Gränz 100 ára - sýning og útgáfa. Umsækjandi: Helga Arnbjörg Pálsdóttir.
Áki Gränz flutti til Njarðvíkur árið 1949 og setti óumdeilanlega svip sinn á bæjarfélagið með skúlptúrum og þátttöku í sveitarstjórnarmálum og félagsstörfum. Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýningu til heiðurs alþýðulistamanninum Áka á Ljósanótt 2025 sem hefði orðið 100 ára þann 26. júní. Sýningin mun samanstanda af rannsókn á verkum úr safneign og útgáfu, en árið 2018 var safninu afhent 158 listaverk úr dánarbúi Áka og Guðlaugar S. Karvelsdóttur.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000. - Merking gamalla húsa í Sandgerði. Umsækjandi: Merkir Menn.
Áhugahópur um merkingu gamalla húsa í Suðurnesjabæ sem nefna sig Merkir menn hafa áhuga á því að skrásetja sögu húsanna og sóttu um að fá að setja skilti við öll þessi hús. Um er að ræða u.þ.b 100 hús sem eiga sér merka sögu í Sandgerði sem mikilvægt er að varðveita. Staðsetning skiltanna og uppsetning verður gerð í fullu samræmi við núverandi eigendur húsanna. Rekinn eru niður rör og fest mynd á þá með stuttum texta um nafn hússins.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 600.000. - Ævintýraheimur leikfanganna. Umsækjandi: Eva Kristín Dal.
Markmið verkefnisins er að útbúa ævintýraheim fyrir börn í Byggðasafni Reykjanesbæjar. Í ævintýraheiminum verða sýnd leikföng sem safnið varðveitir. Haldnar verða vinnustofur þar sem börnin velja muni á sýninguna og vinna á skapandi hátt með hlutverk leikfanganna og þeirra upplifun af þeim. Afrakstur vinnustofanna verður notaður til að hanna ævintýraheiminn í Bryggjuhúsi Duus safnahúsa.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000. - Suðið Söng- og danskeppni SamSuð. Umsækjandi: Elín Björg Gissurardóttir.
Söng- og Danskeppni SamSuð hefur farið stækkandi og er vettvangur fyrir ungmenni til leyfa sínum sköpunargáfum og hæfileikum að skína.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 200.000.
Atvinna- og nýsköpun
- Háskólaþjónusta Þekkingarseturs Suðurnesja. Umsækjandi: Daníel Guðmundur Hjálmtýsson.
Þekkingarsetur Suðurnesja hefur til margra ára verið leiðandi í fræðslu til skólahópa á öllum skólastigum í verklegri sem og bóklegri kennslu á sviði náttúruvísinda. Markmiðið með verkefninu er að auka áherslu á þjónustu við háskólanema á Suðurnesjum, bæði hvað varðar námsaðstöðu en einnig nýjar leiðir í vettvangsnámi sem háskólar landsins geta nýtt fyrir framhaldsnema í náttúrufræðum og tengdum greinum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000. - Þróun á snefilefnasalti með íslensku þangi og blóðbergi. Umsækjandi: Arctic Sea Minerals ehf.
Arctic Sea Minerals framleiðir Lífsalt sem er lág-natríum sjávarsalt unnið úr haf- og jarðsjó. Það inniheldur hátt hlutfall kalíums sem hefur jákvæð áhrif til lækkunar blóðþrýstings og magnesíum sem hefur jákvæði áhrif á taugakerfi, beinmyndun og vöðvasamdrátt. Lífsalt er eina sjávarsaltið á markaði sem inniheldur öll innihaldsefni sjávar í réttum hlutföllum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.400.000. - Vöruþróun á hráefni. Umsækjandi: GeoSilica.
Verkefnið snýst um að þróa matvælavottaðan íslenskan kísil vottaðan sem hráefni í snyrtivörur, með það að markmiði að auka verðmæti og opna nýja markaði fyrir þessa einstöku auðlind. Með áherslu á sjálfbærni, gæði og nýsköpun stuðlar verkefnið að aukinni nýtingu íslensks hráefnis á alþjóðlegum vettvangi. Vottunin mun skapa ný tækifæri í snyrtivöruiðnaði, efla umhverfisvæna framleiðslu og styðja við þróun sjálfbærra lausna innan svæðisins.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.400.000. - Kraftur - Fjölþætt heilsuefling og forvarnir fyrir ungmenni. Umsækjandi: Unnur Ýr Kristinsdóttir.
Kraftur er verkefni sem miðar að því að efla heilsu, vellíðan og sjálfsmynd ungmenna með þátttöku í fjölbreyttri heilsurækt, fræðslu og félagslegri virkni. Lögð er sérstök áhersla á forvarnir til að draga úr áhættuþáttum, stuðla að heilbrigðum venjum og byggja grunn að góðum lífsstíl fyrir framtíðina.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.400.000. - STEAM Reykjanes. Umsækjandi: GeoCamp Iceland.
STEAM Reykjanes er nýsköpunarverkefni sem miðar að því að efla þekkingu á vísindum, tækni, verkfræði, listum og stærðfræði á svæðinu, með því að tengja saman skóla, atvinnulíf og samfélag við mannauð, innviði og náttúruauðlindir svæðisins. Verkefnið mun kortleggja samfélagsleg áhrif STEAM greina þörf á framtíðarfærni atvinnulífsins.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.200.000. - Málhljóðavaktin - seinni hluti, Froskaleikur. Umsækjandi: Bryndís Guðmundsdóttir.
Þróa á Froskaleikinn - Skólameistarann, íslenskt smáforrit, yfir á nýja miðlunarleið sem verður aðgengileg öllum skólum og fjölskyldum án kostnaðar. Um nýja veflausn verður að ræða sem verður unnin í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Therapy Box í Bretlandi. Gætt verður að sem bestri gagnvirkni sem styður við upplifun og þjálfun barna í íslensku. Hjallastefnuskólar á Suðurnesjum og víðar um landið taka þátt í prófunum á virkni og árangri.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.000.000. - DroneTrails ferðaþjónustufyrirtæki. Umsækjandi: DroneTrails ehf.
Starfsemi DroneTrails snýst um að einfalda ferðamönnum að njóta einstakrar náttúru Íslands í gegnum drónann sinn. DroneTrails skipuleggur ferðir á fallegustu staði landsins og sér um að senda inn umsóknir og leyfi fyrir drónaflugi, ásamt því að leiðbeina ferðamönnum á íslensk lög, reglur og gildi þegar kemur að flugi dróna á vinsælum ferðamannastöðum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 300.000. - Nærandi ferðaþjónusta í kviku umhverfi. Umsækjandi: Markaðsstofa Reykjaness.
Verkefnið miðar að því að þróa tækifæri fyrir sérhæfða ferðaþjónustu á tímum eldsumbrota fyrir alþjóðlega rannsóknar- og fræðsluhópa. Með þessu er stefnt að því að auka sýnileika á alþjóðavettvangi og stuðla að sjálfbærri þróun ferðaþjónustu sem hefur jákvæð áhrif á náttúru og samfélag.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.200.000. - Gárur á Reykjanesinu: Vísindalæsi og útikennsla á Reykjanesi. Umsækjandi: Reykjanes Geopark.
Verkefnið miðar að því að efla tengsl nemenda og kennara við náttúru og menningu í nærumhverfi grunnskóla á Reykjanesi. Í samstarfi við samstarfsnet UNESCO-skóla verkefnisins verða áhugaverðir staðir, náttúrufyrirbæri og menningararfur kortlagðir til útikennslu. Afurðir verkefnisins verða aðgengilegar í stafrænum gagnabanka fyrir kennara, nemendur og íbúa jarðvangsins.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000. - Glútenlaust góðgæti. Umsækjandi: Urta Islandica ehf.
Glútenlaust góðgæti er vörulína sem framleiðir vörur án helstu ofnæmisvalda og sérhæfir sig í glútenlausum valkost. Glútenlaust góðgæti er tilraunaverkefni sem mun vera í stöðugri vöruþróun þar sem mikil tækifæri gætu leynst í að mæta þessum sívaxandi markhóp.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.100.000. - VIGT | Áframhaldandi markaðssetning og þróun vörumerkisins. Umsækjandi: VIGT ehf.
VIGT er íslenskt vörumerki sem framleiðir húsgögn og heimilismuni. VIGT veitir viðskiptavinum sínum einstaka upplifun með staðbundinni framleiðslu, hefð og handverki. Markmið verkefnisins er að koma vörum VIGT enn frekar á framfæri, bæði á Íslandi og/eða erlendis.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000. - 22.10 – Súrbjór. Umsækjandi: 22.10 ehf.
Eftirspurn hefur verið eftir súrbjórnum frá 22.10 eftir að framleiðsla stöðvaðist í kjölfar náttúruhamfaranna í Grindavík. Með styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja langar okkur að mæta þessari eftirspurn og koma bjórnum aftur í framleiðslu og sölu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.