Akureyringur í formanninn
Formannsskipti hjá Þrótti í Vogum
„Ég tek við mjög góðu búi af fyrrum formanni, Petru Ruth, starfið gengur vel svo það er engin ástæða að boða breytingar,“ segir nýkjörinn formaður Þróttar í Vogum, Berglind Petra Gunnarsdóttir en aðalfundur Þróttar var haldinn í síðustu viku. Petra Ruth Rúnarsdóttir var búin að skila góðu starfi og sóttist ekki eftir áframhaldandi formannssæti og því urðu skipti og tekur Berglind við keflinu. Berglind er ekki fædd og uppalin í Vogum en var ekki lengi að taka ástfóstri við samfélagið í Vogum.
Akureyringur í Vogum
„Ég fæddist árið 1992 á Akureyri en var ung þegar fjölskyldan fluttist suður, n.t. til Hafnarfjarðar. Ég sá alltaf í hyllingum að búa í litlu samfélagi og þegar ég sá íbúðaverðið í Vogum þá þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um og flutti hingað árið 2019. Mér og sonum mínum tveimur var strax mjög vel tekið og við tókum í raun ástfóstri við staðinn og samfélagið um leið og við fluttum. Synir mínir fóru strax að æfa íþróttir og ég tók þátt í því með þeim og kynntist þá mörgum yndislegum Vogabúum, þau voru ófá knattspyrnumótin sem við fórum á og fljótlega var ég farin að hjálpa til í alls kyns sjálfboðastarfi hjá Þrótti.
Ég gaf kost á mér til stjórnarsetu fyrir tveimur árum og á síðasta ári var ég líka í stjórn knattspyrnudeildar, það eru mjög góðir aðilar komnir að þeim stjórnarstörfum svo ég ákvað að gefa það frá mér en taka frekar við formanninum í félaginu. Ég hef fengið góða reynslu á þessum tveimur árum og er að taka við mjög góðu búi af Petru Ruth og fyrri stjórn, ég tel mig tilbúna að taka við keflinu.“
Halda áfram góðu starfi
Berglind sér ekki fyrir sér að gera neinar breytingar, félagið sé í mjög góðri stöðu og hún vilji frekar halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið að undanförnu. „Aðalatriðið er að gera félagið áfram aðgengilegt öllum og það sé áfram sami yndislegi samfélagsandinn ríkjandi. Við viljum bjóða upp á öruggt og jákvætt umhverfi fyrir alla iðkendur en til margra ára höfum við boðið upp á knattspyrnu og sund fyrir börn og unglinga, undanfarin tvö ár höfum við líka verið með rafíþróttadeild og svo höfum við líka verið með íþróttaskóla. Fyrir eldri kynslóðina þá bjóðum við upp á badminton og svo koma konur saman tvisvar sinnum í viku og leika sér í Brennó, við reynum að hafa þetta fjölbreytt en mjög góð þátttaka hefur verið í þessu öllu. Ég held að mér sé óhætt að segja að félagsandinn í Þrótti er mjög góður og mér er mikið í mun að hann muni halda sér.
Ég hef verið að þjálfa stelpur í fótbolta en okkur hefur ekki gengið nógu vel að halda þeim eins lengi í starfinu og strákunum, við getum bætt okkur þar. Það er ekki ómögulegt að Þróttur geti einhvern tíma haldið úti meistaraflokki kvenna en þá þurfum við að finna leiðir til að stelpurnar haldist lengur í starfinu. Mér hugnast nokkuð vel hugmyndir sem ég hef heyrt frá öðrum félögum, þar sem eldri stelpum er blandað á æfingar með yngri strákum, þannig helst svipað getustig og allir njóta góðs af auknum fjölda. Það getur verið erfitt að halda úti góðum æfingum ef fáir æfa, þetta er eitthvað sem ég væri til í að skoða.
Formaður er kosinn til eins árs í senn, ég hlakka til að láta gott af mér leiða í þessu starfi og skoða eftir árið hvort vilji sé fyrir að ég haldi áfram, ég þarf auðvitað líka að sjá hvernig ég kann við mig í hlutverkinu. Ég tek við frábæru búi af Petru Ruth, hún hefur unnið frábært starf fyrir Þrótt. Framtíð Þróttar er björt að mínu mati,“ sagði Berglind Petra að lokum.