Björn fær gamlan félaga í Garðslag
Sem fyrr fer tippleikur Víkur-frétta í frí þegar landsleikjahlé ber upp. Björn Vilhelmsson er áfram á stallinum, hann fór frekar létt með körfuknattleiksþjálfarann Jón Halldór Eðvaldssson, 8-6 í síðustu umferð. Björn hefur komið sterkur inn, er búinn að tryggja sér þriðja sætið hið minnsta og nær öruggur í 4ra manna úrslit þar sem hann er með jafnmarga leiki í 3-4. sæti og mun pottþétt fá tvo leiki rétta hið minnsta í næstu umferð.
Svona er staðan í leiknum:
Joey Drummer: 42
Brynjar Hólm: 32
Jón Ragnar og Björn: 26
Búið var að finna andstæðing Bjössa og má heldur betur halda því fram að stálin stinn mætist! Gamli liðsfélaginn úr Víði Garði, Guðjón Guðmundsson, mun spreyta sig næstur. Sagan segir að rimma þeirra félaga á æfingum í gamla daga hafi minnt á slag hrúta og verður spennandi að sjá hvor þeirra beri sigur úr býtum í næstu umferð tippleiksins.
Það var því við hæfi að finna eldri mynd af þeim félögum fagna saman í Víðis stórafmæli fyrir nokkrum árum.