Hefðum gott af því sem samfélag að minnka aðeins kröfurnar til okkar og frekar að njóta svona daga
Guðný Birna Guðmundsdóttir fermdist í Keflavíkurkirkju 24. mars 1996. „Presturinn var okkar frábæri Sigfús B. Ingvarsson,“ segir Guðný Birna þegar hún var fengin til að rifja upp fermingardaginn og ýmislegt tengt honum.
Þær minningar sem ég man mest eftir var dagurinn sjálfur og formlegheitin við athöfnina. Ég harðneitaði að vera klædd eins og flestar í hvítum kjól og hælaskóm. Þess í stað gekk ég inn kirkjugólfið í heiðbláum síðkjól með sítt rautt hár og í hermannaklossum. Það var alveg magnað en ég allavega skar mig úr.
Fermingarundirbúningurinn var veigamikill hluti þar sem mér fannst við öll í árganginum kynnast betur þegar við fórum saman í fræðslu og í ferðalag. Í dag er farið í Reyki en við fórum í Vatnaskóg og ég man enn þá hvað þetta var gaman. Á þeim tíma vorum við úr Keflavík öll saman í Myllubakkaskóla og svo Holtaskóla og því margir bekkir.
Fermingardagurinn sjálfur var í raun engin rakettusýning þannig. Ég upplifði ekki skyndilega að vera fullorðin né kristnari en ég var en ég man eftir álaginu í kringum daginn þegar allir leggja sig fram að þetta sé frábær veisludagur og allir að koma saman. Ég held að við hefðum gott af því sem samfélag aðeins að minnka kröfurnar til okkar og frekar að njóta svona daga fremur en að fara á taugum yfir stórri veislu og að muna eftir öllum smáatriðum, það í lokin skiptir ekki máli.
Ég fékk fallegt handskrifað ljóð frá Lindu Maríu systur minni sem hún lét skrifa á gamalt vintage blað. Ég á það enn og þykir afskaplega vænt um það. Svo fékk ég einhverjar styttur sem voru í tísku þá en ég get ekki sagt þér hvar þær eru niðurkomnar.
Tíðarandinn um þetta leyti var náttúrulega æðislegur. Þetta var á 90´s tímabilinu og allir eitthvað svo hressir og skemmtilegir. Það var í loftinu svo mikið af möguleikum og framtíðin björt framundan. Það spillti heldur ekki fyrir hversu frábær tónlistin var á þessum tíma. Bönd sem voru að skína voru meðal annars Fugees, Red Hot Chilli Peppers, Oasis, Tupac og allskonar gersemar.
Þegar ég lít til baka þá get ég ekki sagt að fermingin sjálf hafi umturnað mér, nei. En þetta var verðmætt þroskaferli og ýtir manni á þessum aldri að taka aukna ábyrgð. Þetta er aukið álag á ungmenni og oft álag sem fylgir þessu en ég hvet alla til að reyna að njóta þessa tíma því þeir eru magnaðir og koma ekki aftur. Í dag kann ég að meta það að hafa farið í gegnum þetta æviskeið og upplifað hversu góður og heilbrigður staður kirkjan er. Við oft tökum ekki eftir því fyrr en við giftum okkur eða förum í jarðarfarir en það er unnið mjög gott starf innan kirkjunnar sem ég hvet alla til að kynna sér.