VF Krossmói
VF Krossmói

Íþróttir

Þegar Keflavík kallaði kom ekkert annað til greina
Laugardagur 22. mars 2025 kl. 06:10

Þegar Keflavík kallaði kom ekkert annað til greina

Markmaðurinn Sindri Kristinn Ólafsson hefur snúið aftur heim í Keflavík eftir tveggja ára dvöl í FH

Markmaðurinn Sindri Kristinn Ólafsson hefur snúið aftur heim í Keflavík eftir tveggja ára dvöl í FH. Meiðsli markmanns Keflavíkur breyttu stöðunni fyrir bæði Keflavík og hann varðandi mögulega heimkomu og ákvað Sindri að koma heim í Keflavík þrátt fyrir að hafa fengið tilboð frá mörgum öðrum liðum í efstu deild. Sindri byrjaði ungur að spila fyrir meistaraflokki Keflavíkur og fórum við yfir þau ár, tímann í FH og ákvörðunina um að snúa aftur heim í Keflavík.
Féll fyrst fyrir körfunni

„Ég flyt til Keflavíkur rétt áður en ég byrja í þriðja bekk en ég bjó áður á Bíldudal. Þá var ég dreginn snemma inn í körfuna og ég var bara í körfubolta í þriðja og fjórða bekk og var fínn í körfunni. Svo slysaðist ég í fótboltann því ég var góður í marki í frímínútum í skólanum og var strax mættur í A liðið á fyrsta móti.“

Sindri í markmannsbúningi ungur að árum í pollamóti.

VF Krossmói
VF Krossmói

Forréttindi að fá að alast upp í yngri flokka starfi Keflavíkur

Sindri var partur af öflugum 1997 árgangi Keflavíkur og telur hann sjálfan sig hafa verið heppinn með þjálfara sem mótuðu hann innan sem utan vallar.

„Ég er mjög þakklátur fyrir þá þjálfara sem ég fékk í fótboltanum. Fyrsti þjálfarinn minn var Unnar Stefán, en hann þjálfaði mig í sjötta og fimmta flokki áður en ég fór í Zoggaskólann svokallaða en þá tók meistari Zoran Ljubicic við okkur í fjórða flokki. Sá skóli mótaði mann mikið og er þakklátur fyrir þennan tíma því Zoran var grjótharður og var ekkert með neitt elsku mamma sem mótaði mann þvílíkt og varð maður ómeðvitað tilbúnari fyrir hörkuna sem fylgir því að spila með meistaraflokki. Það voru helst þessir tveir þjálfarar sem mótuðu mig mest sem ungann leikmann ásamt Ómari Jó og Sævari markmannsþjálfara.“

Ungur í meistaraflokkinn

Eftir að hafa verið A-liðs markmaður upp alla yngri flokka fékk hann ungur tækifæri til þess að æfa með meistaraflokki Keflavíkur

„Ég mæti á mínar fyrstu æfingar með meistaraflokki árið 2012, þá 15 ára gamall en Zoran var með meistaraflokkinn þá. Ég var þá á æfingu með þriðja flokki og var kallaður yfir á miðri æfingu í minni Edwin Van Der Sar Manchester treyju og þó ég hafi verið spenntur og smá hrokafullur þá fann ég snemma hvað aðrir leikmenn meistaraflokks voru langt frá mér í gæðum á þessum tíma. Þá áttaði ég mig á að ég þurfti að verða betri ef ég ætla að geta verið með þessum gaurum. Eftir það æfði ég eins og skepna og var kominn alveg inn í meistaraflokk árið 2013 og þurfti þá að leggja körfubolta-skóna á hilluna’’.

Bræðurnir saman í FH: Sindri og Ísak Óli.

Í ,,blackouti“’ í fyrsta leiknum

Eftir að hafa æft með meistaraflokki í eitt ár fékk Sindri óvænt tækifæri í deildarleik fyrir Keflavík aðeins 17 ára gamall.

„Ég spilaði mínar fyrstu mínútur í deildarleik árið 2014 á móti Fylki. Árni Freyr Ásgeirsson var í markinu í þeim leik og var að verja ágætlega en svo setur Unnar Már Unnars sem var þá í Fylki hnéð í hausinn á honum og hann steinrotast. Ég tók ekki eftir því hins vegar fyrr en Maggi Þorsteins rífur í hnakkann á mér og segir mér að drífa mig að hita upp sem ég geri. Maggi sér að ég er mjög stressaður og þá segir hann mér að slaka á því ég er hvort sem er að fara beint inn á. Ég man hins vegar ekki eftir neinu úr þessum leik og er þetta eini leikurinn á mínum ferli sem ég get ekki rifjað upp því ég var bara „blackout“. Ég fór svo heim og horfði á Pepsi mörkin og sá þá að þeir töluðu vel um mína frammistöðu í leiknum sem gerði ungan Sindra mjög sáttan.“

Orðinn aðalmarkvörður 18 ára

„Árið 2015 næ ég að tryggja mér stöðu aðalmarkmanns. Það tímabil tókum við samt hollenskan markmann en ég man að Kristján Guðmundsson sem var þá þjálfari sagði á liðsfundi að þrátt fyrir að það væri að koma annar markmaður þá ætti hann ekkert sætið miðað við hvernig ég var búinn að spila sem gaf mér sjálfstraust til að slá hann út. Í fyrstu leikjunum var hann aðalmarkmaður og á erfitt uppdráttar. Svo meiðist hann í bikarnum og ég spila næsta leik sem varð fyrsti sigurinn okkar það tímabil. Síðan þegar hann verður heill þá setur Kristján hann aftur í byrjunarliðið og tapast sá leikur 7-1 og hann var sendur heim daginn eftir. Þá átti að sækja alvöru markmann til að redda þessu en á endanum var ákveðið að ég fengi að klára tímabilið sem aðalmarkmaður, þá 18 ára gamall. Þrátt fyrir að við höfum skít fallið var þetta tímabil mjög góð reynsla fyrir mig sem markmann.“

Hæðir og lægðir næstu árin

,,Tímabilið eftir tekur Þorvaldur Örlygsson við liðinu og hafði hann verið þjálfarinn minn í U-19 þar sem ég byrjaði alla leiki, svo ég var mjög sáttur þegar hann tók við liðinu enda bjóst ég við að ég yrði algjörlega hans maður. Toddi ákveður hins vegar að taka Beiti Ólafsson og er ég þá aftur orðinn varamarkmaður sem ég var mjög ósáttur með enda fannst mér ég vera klár í að vera aðalmarkmaður í næstefstu deild. Næsta tímabil hættir Beitir í fótbolta og Laugi Ólafs tekur við. Hann sagði snemma við mig að hann ætli að gefa mér fram í febrúar til að sanna mig og ákvað ég að taka mig á og náði ég að sanna að ég væri nægilega góður. Ég á frábært tímabil og fljúgum við upp úr deildinni og aftur í deild þeirra bestu.

Togarinn í strand

Næsta tímabil var hins vegar lélegt, nánar tiltekið sögulega lélegt. Við bætum ekki nægilega mikið við hópinn og vorum töluvert lélegri heldur en við bjuggumst við en við endum tímabilið með aðeins 4 stig og engan sigur. Það er hægt að segja að togarinn fór algjörlega í strand þarna og var ákveðið að fara í hálfgert „rebuild“. Öllum leikmönnum liðsins er sagt upp en ákveðið er að halda í okkur ungu strákana og gefa okkur séns á að sýna okkur. Þá tekur Jónas Guðni við sem framkvæmdastjóri sem var frábært fyrir klúbbinn og Eysteinn Húni er ráðinn þjálfari. Það tímabil endum við í fjórða sæti og var búið að byggja góðan grunn fyrir næsta tímabil.

Góðir í Covid

Tímabilið 2020 kemur Siggi Raggi inn og sækjum við nokkra góða leikmenn og unnum við þá deildina þrátt fyrir að hún var flautuð af vegna Covid þegar við áttum þrjá leiki eftir og árinu eftir vorum við mjög samheldnir og klárir í efstu deild. Byrjunin var brösuleg og margir voru búnir að dæma okkur niður en þá datt Joey Gibbs í gang og fór að skora mikið og við lokuðum markinu almennilega. Tíminn sem okkur fannst við ná að snúa skútunni við var þegar við unnum Breiðablik, sem var þá sterkasta lið Íslands, tvisvar sinnum á einni viku. Heilt yfir vorum við sáttir með það tímabil því við náðum markmiði okkar að halda okkur uppi í deild þeirra bestu.

Tímabilið eftir bætum við í hópinn en eins og tímabilinu áður byrjum við mjög illa. Eftir 5 töp í röð og núll stig í deild fáum við himnasendingu frá Úkraínu í leikmanni að nafni Ivan Kaliuzhnyi. Hann bætti gæðin í liðinu mjög mikið og eigum við margar frábærar frammistöður á tímabilinu og endum tímabilið á að vinna Forsetabikarinn.“

Þakklátur fyrir tímann í FH

Eftir mörg ár sem aðalmarkvörður Keflavíkur fannst Sindra tímabært á að fara og varð FH fyrir valinu.

,,Ég er valinn í A-landsliðið eftir tímabilið sem er að sjálfsögðu draumur hvers fótboltamanns og við fórum í skemmtileg verkefni í Dubai og Suður-Kóreu þó ég hafi ekki fengið að spila. Þegar tímabilinu með Keflavík lauk fann ég að ég þurfti á nýrri áskorun að halda og var ég ákveðinn í því að nú væri rétti tíminn á að prófa eitthvað nýtt. Ég fer í viðræður við KR sem að mínu mati voru mjög skrýtnar og ófagmannlegar en enda á að semja við FH. Eftir þau leikmannaskipti fékk maður að heyra það frá öðrum Keflvíkingum en maður reyndi að láta það ekki fara illa í sig og sé ég ekki eftir því skrefi þar sem ég lærði ótrúlega mikið að vera hjá svona stóru liði með alla þessa umgjörð og „vinningskúltúr“. Fyrsta tímabilið mitt var ekki nægilega gott en á síðasta tímabili gekk mér mun betur og leið mér vel þarna. Ég tel mig vera betri markmann og reynslumeiri eftir að hafa farið í Krikann. Þegar ég lít til baka og hugsa um af hverju gekk ekki nógu vel til að byrja með í FH þá vil ég meina að ég hafi verið snemma stimplaður fyrir að vera mistækur vegna þess að ég gaf víti í fyrsta leik mínum með þeim. Maður lét þessa umræðu fara of mikið í hausinn á sér og tímabilið heilt yfir var slakt hjá liðinu, enda vorum við aldrei með sömu varnarlínuna sem er óþæginlegt fyrir markmann.“

Auðveld ákvörðun að koma heim

Eftir 2 tímabil í FH ákvað Sindri að yfirgefa Kaplakrika og snúa aftur heim í Keflavík, en hvað varð til þess að hann tók þá ákvörðun?

„FH ákveður að taka annan markmann og tilkynna mér það að hann muni fá að byrja tímabilið sem aðalmarkmaður og væri þá mitt að vinna sætið til baka. Mér leið vel í FH og var tilbúinn að taka slaginn með þeim en svo fann ég að það væri mikill áhugi á mér. Ég talaði við nokkur lið og fékk nokkur samningstilboð. Ég fann það hins vegar skýrt að þegar Keflavík kom að ég fann fyrir meiri spennu fyrir heimkomu heldur en fyrir öðrum tilboðum sem ég fékk, þrátt fyrir að launin voru hærri annars staðar. Ég man eftir þegar ég var í FH og ég var að spila minn fyrsta leik á heimavelli Keflavíkur í annarri treyju en þeirri bláu og ég hjólaði á völlinn. Sú tilfinning var tilfinningaþrungin því þá hugsaði ég hvað það er gott að geta spilað í sínu nágrenni hjá sínum uppeldisklúbbi og á því augnabliki var ég staðráðinn í að spila aftur fyrir Keflavík einn daginn.“

Samkeppni milli markmanna er lúxusvandamál

Markvörður Keflavíkur, Ásgeir Orri Magnússon, er enn í röðum Keflvíkinga en Keflavík hafa fengið tilboð í hann sem þeir hafa hingað til hafnað. Nú er Ásgeir meiddur en hvernig sér Sindri fram á samvinnu þeirra?

„Ég get verið hreinskilinn með það að ég hefði ekki komið hefði Ásgeir ekki slitið krossband og verður líklegast frá meirihluta tímabils. Ég held mikið með Ásgeiri og hef alltaf gert en það verður að koma í ljós hvor okkar fái að spila þegar við erum báðir heilir, þetta er hausverkur fyrir þjálfarana og ætla ég að einbeita mér á að vera í topp standi og spila minn besta fótbolta fyrir Keflavík.

Við erum öðruvísi leikmenn. Hann er meira „freak athlete“ en hann hoppar mjög hátt og er með mikla sprengju og spyrnu hæfni á meðan ég er stærri, sterkari og meiri en minn helsti styrkleiki er að vera inn í teignum og hirða fyrirgjafir og svo kem ég með mikla reynslu í liðinu. Annars held ég að þessi samkeppni sé seinni tíma vandamál og hægt að kalla þetta lúxusvandamál fyrir þjálfara liðsins.“ 

Þrautseigja og þolinmæði

Þar sem að Sindri hefur mjög gaman að heimspeki fékk hann að lokum heimspekilega fótboltaspurningu: „Ef þú gætir sagt eitthvað við þig sjálfan á upphafspunkti ferilsins, hvað væri það?“

„Vertu þolinmóður, það sem gerist á að gerast. Þegar ég horfi til baka á ferilinn minn þá hef ég verið óþolinmóður en það hefur alltaf eitthvað gott komið upp því þegar það lokast gluggi þá opnast hurð. Þetta er eitthvað sem ég er að taka inn í þennan kafla í mínu lífi því það var óvissa um framhaldið mitt í Krikanum og ég hoppaði ekki á það fyrsta sem bauðst heldur beið ég þolinmóður eftir betra og skemmtilegra tækifæri sem varð svo raunin. Maður stjórnar ekki öllu sem gerist bæði á vellinum og í lífinu og er mikilvægt að sýna æðruleysi, sem mér finnst ég hafa gert síðastliðið ár, bæði í mínu persónulega lífi og á fótboltavellinum,“ sagði Sindri að lokum.