VF Krossmói
VF Krossmói

Íþróttir

Keflavík ver ekki bikarinn í ár
Sigurður Ingimundar lemur eldmóð í sína menn rétt áður en leikurinn hófst.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 19. mars 2025 kl. 20:22

Keflavík ver ekki bikarinn í ár

Stórt tap gegn Val í undanúrslitum VÍS-bikars karla

Keflvíkingar fjölmenntu í Smárann í kvöld en þá mætti karlalið félagsins Valsmönnum í seinni undanúrslitaleik VÍS-bikars karla en fyrr um daginn hafði KR unnið Stjörnuna. Eftir jafnan fyrsta leikhluta skyldu leiðir, Valsmenn leiddu með 16 stigum í hálfleik, 35-51 og Keflvíkingar voru aldrei líklegir til að brúa bilið og gera leik, lokatölur 67-91.

Keflavík setti fyrstu fjögur stig leiksins en Valsmenn svöruðu með 9-0 áhlaupi.  Keflvíkingar komu til baka og Igor Maric kom þeim yfir með sínum öðrum þristi, var þá búinn að nýta bæði þriggja stiga skotin sín, mögnuð skytta! Liðin skipust á forystuhlutverkinu út opnunarleikhlutann en Valsmenn leiddu, 19-21.

Valsmenn komu miklu grimmari til leiks í öðrum leikhluta og þegar 4:30 voru eftir af hálfleiknum, voru þeir að vinna leikhlutann með tíu stigum og leikinn þar með með tólf, 28-40. Keflavík átti í vandræðum með að finna körfuna en á sama tíma rötuðu flest skot Valsmanna niður. Sami munur hélst út hálfleikinn, sem Valsmenn leiddu, 35-51.

Tónlistarskóli RNB tónleikar
Tónlistarskóli RNB tónleikar

Það var erfitt að finna ljósa punkta hjá Keflvíkingum eftir fyrri hálfleikinn, kannski eðlilegast að skoða +/- tölfræðina og koma þar í ljós að Callum Lawson kom þar bestur út, liðið tapaði „bara“ með 10 stigum á meðan hans naut við. Hann spilaði líka mest og greinilega þurfa Keflvíkingar mikið á honum að halda, hann er jú talinn besti varnarmaður liðsins.

Það var ljóst að Keflavík þyrfti að byrja sterkt í seinni hálfleik sú varð ekki raunin, Valsmenn áttu afskaplega auðvelt með að dekka Keflvíkinga, sem komumst hvorki lönd né strönd og þurftu venjulega að taka erfið skot. Munurinn fór upp í tuttugu stig eftir fjórar mínútur í þriðja leikhluta þegar Njarðvíkingurinn í liði Valsmanna, Kristinn Pálsson, setti þrist og brotið var á honum. Dómararnir skoðuðu upptöku til að athuga hvort um ásetning hafi verið að ræða, svo var ekki svo Keflvíkingar sluppu þar með skrekkinn. Keflvíkingar reyndu að kveikja upp í sér með þristum og munurinn eitthvað niður en Valsmenn svöruðu jafn harðan, fyrrnefndur Njarðvíkingur oftar en ekki á bak við byssuna. Kristinn kom Valsmönnum yfir 69-46, var þá kominn með 18 stig og hitta úr ⅝ þristum sínum. Joshua Jefferson tók svo við, setti tvo þrista, stal boltanum og viðstöðulaus troðsla fylgdi í kjölfarið, 49-77 og ljóst að kraftaverk þyrfti til að bikarinn ætti möguleika á að dvelja áfram í Bítlabænum.

Kraftaverk var aldrei í neinum kortum í þessum leik, munurinn var orðinn allt of mikill. Valsmenn sigldu sigrinum örugglega í hús, 67-91, og því verður sannkallaður Reykjavíkurslagur í úrslitaleiknum karlamegin, þar sem Valur og KR mætast. Kvennamegin eiga Suðurnesin sviðið, þar mætast Njarðvík og Grindavík.

Það er einfaldlega ekki hægt að nafngreina besta leikmann Keflavíkur í þessum leik, í svo stóru tapi er erfitt að finna þann besta. Einn leikmaður náði að skríða í 10 í framlagi rétt áður en minni spámenn fengu að spreyta sig, Igor Maric. Það að enginn annar leikmaður Keflvíkinga komist í 10+ í framlagi, segir ansi mikla sögu.

Keflvíkingar svöruðu kallinu...

... og fjölmenntu í Smárann.

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur: Halldór Garðar Hermannson, Keflavík: Njarðvíkingurinn í liði Vals, Kristinn Pálsson: