Unnið að plani til tíu ára í Grindavík
Þýskir sérfræðingar í framtíðarfræðum koma að vinnunni
„Það munu fjórar leiðir birtast úr þessari vinnu, Grindvíkingar fá að taka þátt í ákvarðanatöku um hvernig standa eigi að uppbyggingu bæjarins,“ segir Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingar í Suðurkjördæmi, en brátt mun ríkisstjórnin kynna fyrirætlanir sínar varðandi Grindavík, bæði hvað eigi að gera á næstunni en líka verður kynnt skipulag til tíu ára.
Víðir er líklega betur þekktur sem yfirlögregluþjónn Almannavarna en hann var tíður gestur á skjám landsmanna þegar covid-heimsfaraldurinn reið yfir frá árunum 2020 - 2022.
Víðir var líka talsvert í sviðsljósinu eftir hamfarirnar í Grindavík en ákvað að svara kallinu og bauð sig fram fyrir Samfylkinguna í síðustu alþingiskosningum, tók fyrsta sætið í Suðurkjördæmi og flaug inn á þing.
Víðir er frá Vestmannaeyjum en hefur búið uppi á landi meira og minna síðan 1978. Hann hafði verið í björgunarsveitum, var kominn inn í starf Landsbjargar og var í framhaldinu boðið starf hjá Almannavörnum. Starfið fluttist síðan undir ríkislögreglustjóra og eftir að hafa unnið hjá lögreglunni og sveitarfélögum á Suðurlandi í skipulagningu í almannavarnarmálum, svo í öryggismálum hjá KSÍ í tvö ár, tók hann aftur til starfa hjá Almannavörnum, um það leyti sem covid-heimsfaraldurinn skall á. Í því var hann svo þar til síðasta haust þegar honum bauðst forystusætið á lista Samfylkingar í suðurkjördæmi.
Hvernig leggst nýja þingmannsstarfið í Víði?
„Starfið leggst mjög vel í mig, þetta er ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt starf. Kosningabaráttan undirbjó mig vel fyrir starfið og í raun hefur ekki mikið komið mér á óvart, líka því ég þurfti oft að koma fyrir þingnefndir í störfum mínum fyrir Almannavarnir. Mitt kjördæmi er auðvitað risastórt en maður heyrir það samt alls staðar að það eru sömu mál sem brenna á fólki, heilbrigðis- og samgöngumál eru alls staðar ofarlega á baugi.
Ég hafði velt þingmennsku fyrir mér fyrir síðustu kosningar og þegar ríkisstjórninni var slitið var þessu skotið að mér og ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um, þetta var góður tímapunktur að skipta um starfsvettvang. Það sem ég lagði áherslu á í minni kosningabaráttu voru heilbrigðis- og samgöngumál, sem er kannski samheiti yfir öryggismál. Samgöngur eru stór hluti öryggismála og heilbrigðismálin að sjálfsögðu líka.“
Sérfræðingar í framtíðarfræðum
Málefni Grindavíkur hafa verið ofarlega á baugi nýrrar ríkisstjórnar, Víðir fór yfir vinnuna sem hefur farið fram að undanförnu.
„Það var að sjálfsögðu engin spurning um að málefni Grindavíkur yrðu hluti af stjórnarsáttmálanum. Vinnan að málefnum Grindavíkur byrjaði fljótlega á þessu ári, þá voru stofnaðir vinnuhópar ráðuneytana og ég var fenginn til að vera Kristrúnu forsætisráðherra innan handar. Vinna ráðuneytanna fór m.a. í greiningu á hvað var búið að gera, hvaða úrræði eru að renna út en síðast en ekki síst að hugsa til lengri tíma, tíu ára. Við fengum Deloitte með okkur í þá vinnu og þá komu þýskir sérfræðingar í framtíðarfræðum að borðinu. Þessir Þjóðverjar hafa unnið fyrir norsk stjórnvöld í alls kyns stefnumótun og sviðsmyndagerð og nota m.a. gervigreind við vinnuna. Það er ofboðslegt magn upplýsinga sem safnast saman þegar svona atburðir eiga sér stað og þessum sérfræðingum hefur tekist að nýta sér gervigreindina við að greina niðurstöðurnar. Út úr þessum greiningum kemur svo grunnur sem við köllum 100 drifkraftar, þ.e. 100 atriði sem þurfa til að Grindavík verði aftur blómlegur bær. Þessi sama vinna hefði tekið tuttugu manna teymi marga mánuði að fá niðurstöðuna sem gervigreindin afgreiddi á nokkrum vikum. Hugmyndin er svo að nota þessar niðurstöður til að taka ákvörðun með Grindvíkingum, hvaða leið þeir vilji fara. Þetta er ekki þannig að niðurstaðan segi að það eigi að gera þetta svona eða hinsegin, við spurðum Þjóðverjana hvernig Grindavík geti orðið eftir tíu ár og hvað þurfi að gera til að ná því. Út úr þessu komu fjórar leiðir og við munum setjast yfir þessar leiðir með Grindvíkingum og sameiginleg ákvörðun verður tekin. Ég vil meina að við höfum vandað okkur mjög mikið við vinnuna, við fengum aðila úr atvinnulífinu í Grindavík að borðinu, sóknarpresturinn kom að þessu og ég trúi því að mjög góðir hlutir muni koma í kjölfarið á þessari vinnu,“ segir Víðir.
Reynsla frá Vestmannaeyjum
Víðir hefur reynslu af sambærilegum hamförum og riðu yfir Grindavík, hann var sex ára gamall þegar eldgosið í Vestmannaeyjum átti sér stað en hluti vinnunnar að undanförnu hefur farið í að greina áhrifin á það samfélag sem lendir í hamförum.
„Ef við skoðum hamfarafræðin þá er alltaf freistandi að bera saman þessar hamfarir við einhverjar aðrar en allar hamfarir eru einstakar en afleiðingarnar á samfélögin eru oft mjög sambærilegar. Samfélagið rifnar upp með rótum og dreifist út um allt, fólk missir jafnvel allt sem það á, tapar rótunum sínum og þar með samfélaginu sínu. Það að byggja samfélagið upp er jafnvel áratuga vinna en allir eru sammála um að gera Grindavík aftur að blómlegum bæ, fólki kemur bara ekki saman um tímalínuna. Við höfum fullt af íslenskum dæmum af hamförum en höfum líka skoðað miklu stærri hamfarir úti í heimi. Alls staðar þarf markvissa samvinnu stjórnvalda, fólksins sem bjó í samfélaginu, fólksins sem hyggst flytja þangað aftur, jafnvel fólksins sem getur ekki hugsað sér að flytja aftur, svo fyrirtækja, bæði í viðkomandi bæjarfélagi og utan en eru með starfsemi í bænum. Allt þetta sjáum við í Grindavík og í raun hefur ekkert komið okkur á óvart. Þess vegna er svo mikilvægt að vera tilbúin með aðgerðaráætlun þegar kemur að því að þessu lýkur og talið verður öruggt að byggja Grindavík upp að nýju. Við þurfum bæði að vera undirbúin fyrir að uppbygging fari hægt af stað, ef landris heldur áfram þá munu hugsanlega einhverjir ekki treysta sér strax, við þurfum líka að vera undirbúin fyrir að uppbygging rjúki af stað ef næsta eldgos ef til þess kemur, sé það síðasta. Pabbi minn var skólastjóri í Vestmannaeyjum og tók þátt í uppbyggingunni, hann sagði að þegar skólahald hófst hafi örfáir krakkar verið í skólanum en strax tveimur vikum seinna var búið að fjölga, fólk frétti að skólahald væri hafið og þá breyttist hugsunarhátturinn og fleiri og fleiri komu allan veturinn. Fjölgunin gekk hraðar næsta vetur og enn hraðar veturinn þar á eftir. Ég sé alveg fyrir mér að svona sviðsmynd geti átt við í Grindavík en þá þarf líka að skipuleggja það, skólinn er t.d. ekki tilbúinn á þessari stundu en gæti hugsanlega orðið það í haust. Ef ekki, þá þarf að koma börnum annað í skóla en það þarf að fara að huga að þessu öllu. Við viljum fá alla Grindvíkinga að þessari vinnu, líka þá sem ætla ekki heim fyrr en skóli og íþróttastarf sé komið á fullt, þeir Grindvíkingar þurfa líka að fá að vera með í ráðum.“
Hættumat í Grindavík?
Þær spurningar hafa brunnið á mörgum Grindvíkingum, hvort yfirvöld viti af einhverjum hættum í Grindavík, sem Grindvíkingar viti ekki af. Víðir segir svo ekki vera.
„Grindvíkingar vita allt sem Almannavarnir og lögregluyfirvöld vita því þær ákvarðanir eru teknar út frá hættumati sem Veðurstofan gefur út. Það er svo Grindavíkurnefndin og lögreglustjórinn á Suðurnesjum sem gefur út áhættumatið en það byggir á hættumati Veðurstofunnar. Yfirvöld eru bundin af þessu hættumati svo hugsanlega er leiðin að rýmri reglum í gegnum Veðurstofuna, sem heyrir undir Umhverfisráðuneytið. Það má bara ekki gleyma að Veðurstofan ber lagalega ábyrgð að gefa út þetta hættumat og eðlilega vill fólk þar fara að öllu með gát. Veðurstofan hefur slakað á í ýmsu, t.d. með sveigjanlega kerfið í litunum í áhættumatinu, það hefur aldrei verið gert áður og ég hef þá trú að meiri slaki komi eftir næsta eldgos, ef það kemur upp og ef það kemur upp á svipuðum slóðum og áður. Ég minni á að fyrst var mælst gegn því að fólk gisti í Grindavík, Úlfar lögreglustjóri hætti svo með það orðalag svo ég vil meina að þetta sé að þokast í rétta átt. Við erum búin að læra mikið af þessum eldgosum til þessa, við vitum að strax í kjölfarið á eldgosi er minni hætta en hún eykst eftir því sem landrisið er hærra. Sumum líður þá ekki vel að dvelja í bænum og þá yfirgefa þeir hann, aðrir treysta sér og eru áfram. Án þess að hægt sé að spá fyrir um þessa hluti þá er það mín tilfinning að þessu ljúki senn á þessari Sundhnúkagígaröð og þá er vonandi mesta hættan liðin hjá í Grindavík. Nú er mikilvægt að Þórkatla komi að borðinu og vinni hlutina með þeim Grindvíkingum sem vilja máta sig við bæinn og prófa að dvelja þar. Ég hef þá trú að þessi mál verði endurskoðuð hjá Þórkötlu þegar þessum atburði sem er væntanlegur, lýkur. Það er skrýtið finnst mér að lögreglustjórinn sé ekki á móti því að gist sé í bænum, en fasteignafélag sé það. Hugsanlega þarf að breyta einhverjum lögum og þá gerum við það.
Ég lít svo á að við séum að hefja legg tvö í þessu ferðalagi, fyrsti leggurinn er búinn að vera mjög erfiður en er nánast búinn og næsti tekur við. Í þeim hluta ferðalagsins verður horft til lengri tíma, það eru allir sammála um að hægt er að byggja þennan bæ upp aftur og þarna verði gott að búa. Það þurfa allir að koma að þessari ákvarðanatöku og ég hef fulla trú á að greiningarvinnan að undanförnu muni hjálpa okkur við það. Grindvíkingar vilja og munu fá að taka þátt í þessum ákvörðunum, við þurfum að búa til kerfi sem tekur á þessu öllu. Hlutirnir geta breyst á örskömmum tíma, það veit ég frá mínum gamla heimabæ. Við þurfum bara að vera undirbúin þegar kemur að uppbyggingunni en hún mun taka tíma, það verða allir að vera meðvitaðir um það. Það er mikilvægt að hvert skref í uppbyggingunni sé úthugsað og gangi vel upp, þannig fær fólk trú á verkefnið og það gengur betur. Við þurfum að taka örugg skref, ekki of stór, það eru allir með þá sýn að Grindavík byggist upp aftur, þetta snýst bara um tímalínuna,“ sagði Víðir að lokum.