VF Krossmói
VF Krossmói

Fréttir

Suðurnesjalína 2 tilbúin í haust
Fimmtudagur 20. mars 2025 kl. 06:00

Suðurnesjalína 2 tilbúin í haust

Enn á eftir að semja við fimm landeigendur á þremur jörðum Rúmlega 300 milljónir króna greiddar í bætur

Önnur sending mastra fyrir Suðurnesjalínu 2 er komin yfir hafið frá Spáni. Nú bíða möstrin í Kúagerði eftir að taka sér stöðu í hrauninu við hlið Suðurnesjalínu 1. Næstu skref hjá Landsneti eru að setja möstrin upp og taka Suðurnesjalínu 2 í rekstur í haust ef allt gengur upp.

Framkvæmdir eru í fullum gangi á þeim svæðum þar sem leyfi liggja fyrir og gengur vel. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu nokkurra landeigenda um að ógild yrði ákvörðun umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra frá 21. júní 2024 um heimild Landsnets til eignarnáms réttinda vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 í landi þriggja jarða í Sveitarfélaginu Vogum. Landsnet segir að brýnt sé að ljúka framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2 til að tryggja afhendingaröryggi raforku til íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum.

„Niðurstaðan kemur ekki á óvart enda hefur Suðurnesjalína 2 farið í gegnum mikla og vandaða vinnu ásamt samtali og samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu. Matsnefnd eignarnámsbóta hefur þegar úrskurðað um fjárhæð eignarnámsbóta vegna framkvæmdarinnar og er það von okkar hjá Landsneti að aðilar uni við afdráttarlausa niðurstöðu héraðsdóms og að málinu sé lokið,“ ef haft eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets, á vef fyrirtækisins.

VF Krossmói
VF Krossmói

Suðurnesjalína 2 verður 29 km löng lína með 87 möstrum. Samningum er lokið við alla landeigendur nema fimm á þremur jörðum. Rúmlega 300 milljónir króna hafa verið greiddar í bætur til landeigenda.