Grindavík tryggði sér farseðilinn í úrslitaleik VÍS-bikarsins
Suðurnesjaslagur í úrslitunum
Grindavík mætti liði Þórs frá Akureyri í seinni undanúrslitaleik VÍS-bikars kvenna í Smáranum í dag en þessi lið mættust einmitt líka í fyrra í undanúrslitum bikarsins. Flestir áttu von á sigri Grindavíkur þá en öllum að óvörum unnu Þórskonur sanngjarnan sigur en fyrir þennan leik í kvöld má segja að hlutverkunum hafi verið snúið við, Þórskonur hafa verið á góðu skriði á meðan Grindavík náði sér ekki á strik á fyrstu metrunum, gerði breytingar á leikmannahóp sínum en liðið hefur verið á uppleið að undanförnu.
Fyrir utan upphafsmínúturnar og byrjun seinni hálfleiks, þá var Grindavík með þennan leik í hendi sér, þær leiddu með ellefu stigum í hálfleik, 52-41 og unnu að lokum verðskuldaðan sigur, 92-80.
Þórsarar byrjuðu betur en Grindavík vann sig hægt og bítandi inn í leikinn og komst yfir með þriggja stiga skoti Sofie Tryggedson þegar tæpar þrjár mínútur lifðu fyrsta fjórðungs. Vörn Grindvíkinga var sterk á þessum tímapunkti og þá vilja oft auðveldar körfur koma á móti. Grindavík leiddi eftir fyrsta fjórðung, 22-18. Stigaskorið dreifðist vel á þá leikmenn Grindvíkinga sem komu við sögu, Daisha Bradford stigahæst með 6 stig og tveir leikmenn með 4 stig.
Grindvíkingar voru heitir fyrir utan þriggja stiga línuna í byrjun annars leikhluta og fljótlega var munurinn kominn upp í tíu stig, 30-20. Ekki bara að þriggja stiga skotin væru að detta, Grindavíkurkonur voru líka lungnar að finna glufur í vörn Þórsara og sérstaklega var fyrirliðinn, Hulda Björk Ólafsdóttir, hættuleg, var komin með 8 stig eftir slíkt laumupot. Þórsarar tóku leikhlé og var svari þjálfarans svarað það vel að Lalli, þjálfari Grindavíkur, þurfti sjálfur að taka leikhlé. Sama svörun kom úr því og áður en varði var munurinn kominn upp í 16 stig, 47-31, Grindavík á mjög góðu rólu í þessum leik. Þórsarar spýttu þá í lófana og áttu góðan endasprett í fyrri hálfleik, 52-41 staðan að loknum fyrri hálfleik.
Sex leikmenn Grindavíkur voru komnar á blað í stigaskorun, Daisha stigahæst með 12 stig, Hulda Björk komin með 11 og tveir leikmenn voru í 9 stigum, Mariana Duran og Ólöf Rún Óladóttir, hún var búin að setja bæði þriggja stiga skot sín niður.
Seinni hálfleikur byrjaði ótrúlega, það var eins og lok hefði verið sett á körfu Þórskvenna, Grindavík var algjörlega fyrirmunað að skora. Lalli tók leikhlé en það breytti engu, áður en varði var Þór komið yfir, 52-54 og 3:50 eftir, Grindavík sem sagt ekki búið að skora stig í seinni hálfleik! Daisha náði loksins að brjóta ísinn og Mariana Duran tók svo góða rispu og Grindavík leiddi fyrir loka bardagann, 63-59.
Grindavíkurkonur komu mjög grimmar í lokaleikhlutann og ætluðu greinilega ekki að láta byrjunina frá því í þriðja leikhluta endurtaka sig. Vörnin þéttist og auðveldar körfur litu dagsins ljós hinum megin og fljótlega var munurinn kominn upp tólf stig, 74-62. Þórskonur reyndu hvað þær gátu en Grindavík hafði svör við flestu og tiltölulega öruggur Grindavíkursigur staðreynd, . Því verður um sannkallaðan Suðurnesjaslag að ræða í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn kl. 13:30, Grindavík - Njarðvík.
Það er erfitt að taka einn leikmann Grindavíkur út fyrir sviga í þessum leik, þetta var sannkallaður liðssigur og kom framlag úr öllum áttum má segja. Blaðamaður vill samt nefna fyrirliðann Huldu Björk Ólafsdóttur, hún var frábær á báðum endum vallarins, nýtti skot sín mjög vel og dreif liðsfélagana með sér. Hulda var stigahæst ásamt Daishu Bradford, þær enduðu með 21 stig en þetta var sannkallaður liðssigur Grindvíkinga.
Það verður fróðlegt að sjá úrslitaleik Suðurnesjaliðanna Grindavíkur og Njarðvíkur á laugardag kl. 13:30.