Samkaup
Samkaup

Íþróttir

Besta ákvörðun lífsins
Mánudagur 17. desember 2018 kl. 10:12

Besta ákvörðun lífsins

Keflvíska körfuboltakonan Sara Rún Hrinriksdóttir er að klára síðasta tímabilið sitt í háskólaboltanum og hefur aldrei verið betri

Eftir að hún skaust fram á sjónarsviðið í íslenskum körfubolta aðeins 15 ára gömul, hefur þjóðin lítið fengið að sjá til Söru Rúnar Hinriksdóttur á körfuboltavellinum undanfarið. Hún hefur haldið sig í Buffalo borg í New York fylki þar sem hún spilar körfubolta í Canisius háskólanum. Nú er hún 22 ára og stundar MBA nám við skólann. Hún á sér drauma um að spila sem atvinnumaður í Evrópu en þetta er síðasta tímabilið hennar í háskólaboltanum. Hún er að leika glimrandi vel og leiðir lið sitt í nánast allri tölfræði.

Besta ákvörðunin

Þegar þú horfir tilbaka núna, hvernig finnst þér þessi ákvörðun að hafa farið út í háskóla á sínum tíma?

„Án efa besta ákvörðun sem ég hef tekið. Hef lært svo ótrúlega mikið á því að búa hérna. Hefur svo sannarlega verið bæði upp og ofan - en allt svo sannarlega þess virði, algjörlega ólýsanleg lífsreynsla. Myndi án efa mæla með þessu til allra sem hafa áhuga að fara svona út í skóla.“

Finnst þér þú hafa bætt þig sem leikmaður?

„Já algjörlega! Ég hef lært svo mikið af nýjum hlutum. Það er alveg ótrúlegt hvað það fer mikill tími í að undirbúa hvern einasta leik. Ég hef ekki aðeins bætt mig á vellinum, ég hef einnig bætt mig í styrk og snerpu. En það sem ég er búin að læra mest er hversu mikilvægt það er að vera andlega stöðug - ekkert virkar ef hausinn er ekki á 100% réttum stað.“

Hvernig leggst þetta ár í þig?

„Þetta er síðasta tímabilið mitt. Það leggst mjög vel í mig, við erum því miður ekki að spila okkar besta leik að svo stöddu, en við eigum mikið inni. Þetta tímabil er töluvert öðruvísi en hin þrjú eru búin að vera, við fengum nýtt þjálfarateymi núna í sumar, það þýðir að allt er búið að breytast mjög mikið, bæði innan sem utan vallar.“

Draumur að spila í Evrópu

Veistu hvað tekur við hjá þér eftir námið?

„Ég er sem sagt að úskrifast með BS gráðu í maí, sem ég í rauninni kláraði síðasta sumar. Núna er ég byrjuð í masters námi, sem ég stefni á að klára í ágúst. Þegar ég er búin með það þá er ekkert planað, það væri algjör draumur ef ég fengi tækifæri að spila einhverstaðar í Evrópu.“

Helstu kostir og gallar við að búa í Buffalo?

„Mikill kostur er að það er „stutt“ að fara heim, aðeins eitt flug. Buffalo er mjög stór borg, það eru fleiri sem búa hérna en á öllu Íslandi. Fyrst þegar ég kom hingað þá fannst mér Buffalo ekkert sérstök en núna þegar ég er búin að búa hérna í næstum fjögur ár þá er finnst mér hún alveg einstök - ég elska hvað allar árstíðirnar eru mismunandi, því þegar maður býr á Íslandi þá er maður í rauninni bara að upplifa tvær árstíðir, vetur og sumar.“

Sara þúsundþjalasmiður

Sara var á dögunum valinn leikmaður vikunnar í MAAC deildinni og hefur hún bætt leik sinn tölfræðilega á hverju tímabili. Hún er sem stendur í 16. sæti yfir stigahæstu leikmenn skólans frá upphafi. Hún hefur leitt liðið í stigaskori síðustu tvö tímabil með tæp 15 stig í leik. Í ár er Sara að blómstra en hún leiðir liðið sitt í nánast öllum stærstu tölfræðiþáttum, stigum, fráköstum, stoðsendingum, vörðum skotum, stolnum boltum og skotnýtingu.

Hvernig finnst þér styrkleikinn í körfuboltanum þarna úti?

„Ég spila í deild sem er um miðja 1. deildina.  Styrkleikastig er mjög gott. Deildin sem ég spila í (MAAC) er alltaf að verða betri og betri, til dæmis þá fór Quinnipiac, sem vann okkar deild í fyrra, í 16 liða úrslit í March Madness í NCAA, sem er mjög gott.“

Hvernig finnst þér þú hafa staðið þig - hvaða væntingar hafðirðu þegar þú fórst út?

„Ég skoraði mitt 1000. stig í fyrra, og sem junior (þriðja árs nemi) þá er það mjög gott. Mér finnst ég hafið staðið mig bara vel. Fyrsta árið mitt hafði ég í rauninni engar væntingar en þegar mér fór að ganga betur þá setti ég mér alltaf stærri og betri markmið.“
 

Fylgist þú með boltanum hérna heima, hvernig heldurðu að þínar konur í Keflavík eigi eftir að standa sig?

„Ég get ekki sagt að ég fylgist eitthvað rosalega mikið með, ég athuga oftast hvernig leikirnir fara en horfi sjaldan á leiki. Ég fylgist mikið með Stjörnunni því systir mín spilar þar núna. En Kef stelpur eru að standa sig vel eins og alltaf - það er eitthvað sem breytist aldrei.“