Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Blóðug barátta hins rómaða ‘81 árgangs
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 14. desember 2024 kl. 07:10

Blóðug barátta hins rómaða ‘81 árgangs

Ef mið er tekið af tippleik Víkurfrétta á þessu tímabili má nánast slá því föstu að Joey Drummer tapi á laugardaginn því sá sem er á stalli hefur ekki náð að verja stöðu sína síðan Þórunn Katla vann Ray Anthony Jónsson. Joey fær engan aukvisa sem andstæðing, gamlan skólabróður og jafnaldra, Harald Frey Guðmundsson, þjálfara karlaliðs Keflvíkinga í knattspyrnu.

Haraldur átti farsælan feril sem leikmaður og eftir að ferlinum lauk tók þjálfun við.

„Ég er af hinum rómaða ‘81 árgangi og stundaði nánast allar íþróttir sem voru í boði en sá síðan að knattspyrna lægi best fyrir mér og valdi þá grein. Við náðum að verða Íslandsmeistarar í öllum flokkum og eftir slíkan titil í öðrum flokki fór ég að láni til Hibernian í Skotlandi. Kom svo til baka og lék með Keflavík þar til atvinnumennska tók við aftur í Noregi. Þaðan fór ég til Kýpur, kom svo heim en fór svo aftur til Noregs en atvinnumannaferli erlendis lauk svo árið 2012. Þá tóku við fjögur tímabil með heimafélaginu og lauk farsælum ferli árið 2016, þá orðinn 35 ára gamall. Ég fór strax út í þjálfun, tók við Reyni Sandgerði og átti fjögur góð tímabil með þeim. Gerðist svo aðstoðarþjálfari hjá Keflavík og var að klára mitt fyrsta tímabil sem aðalþjálfari. Að sjálfsögðu voru mikil vonbrigði að tryggja ekki sæti í Bestu deildinni, við vorum sigurstranglegri í úrslitaleiknum á móti Aftureldingu en eins og við vitum væri ekkert gaman að íþróttum ef allir leikir færu eftir bókinni og því miður var tap hlutskipti okkar. Það sem ekki drepur þig, styrkir þig og við munum mæta brjálaðir til leiks á næsta tímabili, það á að vera skýlaus krafa hjá eins stórum klúbbi og Keflavík, að vera með lið á meðal þeirra bestu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað varðar enska boltann, tippið og andstæðing minn, þá verður mjög gaman að mæta mínum gamla skólabróður. Við erum auðvitað báðir Manchester United-menn en ég tel mig vera einkar getspakan og veit í raun fyrirfram að ég mun taka Joey. Það er ekkert að fara breytast í þessu trend-i sem hefur myndast að undanförnu í tippleiknum, Joey mun ljúka leik en svo mun þetta trend breytast. Ég ætla mér að mæta með blaðamanni Víkurfrétta á Wembley næsta vor. Ég er strax farinn að skoða hvað annað skemmtilegt yrði að gera í þessari heimsborg,“ sagði Haraldur að lokum.

Joey saup kveljur þegar hann frétti hverjum hann mun mæta en var ekki lengi að jafna sig.

„Já sæll, það á greinilega að gera allt til að koma mér af stallinum en ég hef litlar sem engar áhyggjur af mínum gamla skólabróður, þó svo að Halli hafi verið góður í fótbolta þá gefur það honum ekkert í svona tippleik. Ég hef nákvæmlega engar áhyggjur af útkomunni í þessum leik og mun líklega tippa með vinstri,“ sagði Joey að lokum.